Þórunn Sigurðardóttir
Þórunn Sigurðardóttir
Með breiðu samstarfi og markvissri uppbyggingu þekkingar má draga úr byggingargöllum og rakaskemmdum.

Þórunn Sigurðardóttir

Formaður Verkfræðingafélags Íslands kallaði eftir endurvakningu byggingarrannsókna í aðsendri grein í Morgunblaðinu laugardaginn 6. apríl sl. til að sporna við áhrifum myglu í byggingum. Við hjá HMS tökum undir þetta ákall, en teljum jafnframt að rannsóknir einar og sér leysi ekki þann vanda sem mygla og byggingargallar skapa; tryggja þurfi að niðurstöður rannsókna skili sér í mannvirkjagerð. Þar að auki þurfi að efla þekkingu og skilning á regluverki mannvirkjagerðar, meðal annars með tilliti til byggingarvara.

HMS hefur unnið markvisst að því að brúa þetta bil, meðal annars með útgáfu Vegvísis að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar, aukinni fræðslu um CE-merkingar byggingarvara og með eftirliti með byggingarvörum.

Vegvísir varðar leiðina

Í lok mars sl. gaf HMS út Vegvísi að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar, sem finna má á hms.is. Í honum eru 16 aðgerðir sem ætlað er að varða leiðina næstu 12-24 mánuðina svo að hægt verði að taka upplýstar ákvarðanir um framtíðarskipan málaflokksins. Markvisst verður unnið að því að greina hvernig efla megi rannsóknir, miðla niðurstöðum þeirra og bæta umhverfi prófana á byggingarvörum. Lögð er áhersla á breitt samstarf ólíkra hagaðila.

Í vegvísinum er gengið út frá að efla þurfi byggingarrannsóknir þótt þær séu vissulega framkvæmdar í dag, meðal annars með fjármögnun í gegnum Ask mannvirkjarannsóknasjóð. Alls hafa 95 rannsókna- og nýsköpunarverkefni hlotið styrk frá Aski fyrir um 300 milljónir á þremur árum. Ef vel á að vera þarf að efla Ask til muna og tryggja almennt aðgengi að stöðugu fjármagni til málaflokksins.

Jafnframt er litið til þess að Ísland er fámennt land. Alþjóðasamstarf er þeim mun mikilvægara og rétt að benda á þá miklu möguleika sem fólgnir eru í samstarfi við rannsókna- og prófunarstofur í nágrannaríkjunum. Eins ber að nefna nauðsynlega þátttöku í staðlavinnu sem á sér stað í Evrópu og að tryggja þannig nothæfi evrópskra staðla hér á landi.

CE-merkingar veita gagnsæi

Samhliða auknum rannsóknum og miðlun niðurstaðna þeirra þarf að efla þekkingu fagaðila á regluverki mannvirkjagerðar, má þar sérstaklega nefna byggingarvörur.

Byggingarvörur sem falla undir samhæfða staðla skulu vera CE-merktar. Merkingin gefur til kynna að mikilvægir eiginleikar vörunnar hafi verið prófaðir og settir fram í fylgiskjali (yfirlýsingu um nothæfi eða DoP). Nothæfi vörunnar verður þannig öllum ljóst.

Þessu má líkja við það að CE-merkingin sé eins konar vegabréf byggingarvörunnar sem leyfir henni að flæða frjálst innan EES. Yfirlýsing um nothæfi vörunnar er hins vegar atvinnuleyfi hennar, að því gefnu að eiginleikar hennar uppfylli kröfur íslensks regluverks og hönnunarkröfur í viðkomandi byggingarframkvæmd.

Þetta er kerfi sem notað er í Evrópu og veitir gagnsæi varðandi eiginleika byggingarvara. Til að það nýtist sem skyldi þurfa hlutaðeigandi aðilar að tileinka sér það. Þannig bera hönnuðir, iðnmeistarar og byggingarstjórar ábyrgð á að valin sé nothæf byggingarvara samkvæmt framangreindu og byggingarfulltrúar hafa eftirlit með því. Framleiðendur byggingarvara og söluaðilar bera hins vegar ábyrgð á réttri markaðssetningu þeirra byggingarvara sem þeir bjóða upp á, til að mynda að þær uppfylli kröfur um CE-merkingar, og hefur HMS eftirlit með því. Undanfarið hefur HMS lagt kapp á að veita betri fræðslu um þetta kerfi.

Í þessu samhengi er þekking á veðri og öðrum aðstæðum mikilvæg svo unnt sé að setja kröfur um eiginleika byggingarvara meðal annars í byggingarreglugerð. Að þessu leyti er sannarlega þörf á rannsóknum. Frekari greining á rannsóknaþörf og mótun rannsóknastefnu er ein aðgerða í fyrrnefndum vegvísi á ábyrgð Vísindaráðs mannvirkjagerðar. Vísindaráðið hefur nú þegar verið myndað með fulltrúum hins opinbera, vísindasamfélags og markaðar.

Eftirlit stuðlar að upplýstum ákvörðunum

Í lok síðasta árs hóf HMS sérstakt markaðseftirlit með gluggum, sem eru CE-merkingarskyld byggingarvara. Rétt er að geta þess að í byggingarreglugerð eru gerðar sértækar kröfur um nothæfi glugga vegna notkunar þeirra í útvegg. Kröfurnar byggjast helst á veðurfari hérlendis.

Skilvirkt og markvisst markaðseftirlit og fræðsla stuðla að því að fagaðilar í mannvirkjagerð og eigendur mannvirkja geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort byggingarvara henti viðkomandi byggingu. Það er einn þáttur í því að tryggja að mannvirki séu örugg og heilsusamleg fyrir notendur húsnæðisins.

Þörf á heildrænni nálgun

Byggingargallar og raki í mannvirkjum eru vandamál sem ekki verða leyst nema með sameiginlegu átaki stjórnvalda, vísindasamfélags og markaðar. Víða er þörf á aukinni þekkingu sem fæst með rannsóknum, miðlun á niðurstöðum þeirra og fræðslu á gildandi regluverki.

Við hjá HMS höfum lagt aukna áherslu á fræðslu til hagaðila mannvirkjagerðar eins og hér hefur verið rakið. Með breiðu samstarfi og markvissri uppbyggingu þekkingar má bæta mannvirkjagerð svo um munar.

Höfundur er teymisstjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Höf.: Þórunn Sigurðardóttir