Kaupmannahöfn Brian Mikkelsen, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Danmerkur, sést hér bera málverk frá kauphöllinni, en mörg þekkt listaverk voru í byggingunni. Stefnt er að því að Børsen verði endurreist.
Kaupmannahöfn Brian Mikkelsen, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Danmerkur, sést hér bera málverk frá kauphöllinni, en mörg þekkt listaverk voru í byggingunni. Stefnt er að því að Børsen verði endurreist. — AFP/Ida Marie Odgaard
Gamla kauphöllin í Kaupmannahöfn, Børsen, varð í gær eldi að bráð. Eldurinn kviknaði um hálfáttaleytið í gærmorgun að dönskum tíma og var allt tiltækt slökkvilið þegar kallað út til þess að ná tökum á eldinum, en hún var fljótlega orðin alelda

Gamla kauphöllin í Kaupmannahöfn, Børsen, varð í gær eldi að bráð. Eldurinn kviknaði um hálfáttaleytið í gærmorgun að dönskum tíma og var allt tiltækt slökkvilið þegar kallað út til þess að ná tökum á eldinum, en hún var fljótlega orðin alelda.

Byggingin var ein sú sögufrægasta í Kaupmannahöfn, en hún var reist á 17. öld á árunum 1619-1640 í hjarta Kaupmannahafnar. Turn byggingarinnar, sem var eitt þekktasta kennileiti Kaupmannahafnar, hrundi vegna eldsins en hann var í laginu eins og halar af fjórum drekum sem tvinnuðust saman.

Eldsupptök voru ekki ljós í gær, en verið var að vinna að endurbótum og viðhaldi á byggingunni. Jakob Vedsted Andersen, slökkviliðsstjóri Kaupmannahafnarsvæðisins, lýsti því svo yfir um fjögurleytið að dönskum tíma að slökkviliðið hefði náð tökum á eldinum og byrjað á lokahluta slökkvistarfsins. Hann varaði þó við því að sú vinna myndi taka marga klukkutíma. Andersen sagði jafnframt að um helmingur byggingarinnar væri brunninn til kaldra kola, en að tekist hefði að forða stórum hlutum þeirra menningarverðmæta sem voru inni í byggingunni.

Byggingin var notuð sem kauphöll Dana fram á áttunda áratug 20. aldarinnar, en Viðskiptaráð Danmerkur hafði aðsetur sitt í henni. Brian Mikkelsen, framkvæmdastjóri viðskiptaráðsins, var á meðal þeirra sem tóku þátt í að forða málverkum og öðrum sögufrægum verðmætum út úr byggingunni.
Mikkelsen lýsti því svo yfir að stjórn viðskiptaráðsins hefði ákveðið í samráði við borgaryfirvöld að Børsen yrði endurreist. Sophie Hæstorp Andersen borgarstjóri sagði að byggingin væri hluti af sögu borgarinnar. „Við getum ekki bara skilið hana eftir í ljósum logum og munum því gera allt sem í okkar valdi stendur til að endurreisa hana.“