Fjölskyldan Jökull Máni, Þórhildur Fjóla, Arnór Bragi og Sævar Bragi.
Fjölskyldan Jökull Máni, Þórhildur Fjóla, Arnór Bragi og Sævar Bragi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sævar Helgi Bragason fæddist 17. apríl 1984. „Ég er fæddur í Reykjavík á plánetunni Jörð, þegar tunglið var gleitt minnkandi í fallegri samstöðu við Satúrnus og Mars á suðurhimni.“ Hann ólst upp í norðurbænum í Hafnarfirði fyrst og svo í Setbergshverfinu

Sævar Helgi Bragason fæddist 17. apríl 1984. „Ég er fæddur í Reykjavík á plánetunni Jörð, þegar tunglið var gleitt minnkandi í fallegri samstöðu við Satúrnus og Mars á suðurhimni.“

Hann ólst upp í norðurbænum í Hafnarfirði fyrst og svo í Setbergshverfinu. „Ég æfði fótbolta af kappi frá unga aldri til um það bil 18 ára með FH.“

Sævar gekk í Engidalsskóla en síðan Setbergsskóla frá átta ára aldri og loks Flensborgarskólann. Hann lauk síðan B.Sc.-námi í jarðfræði frá Háskóla Íslands og tók alla stjörnufræðikúrsa sem í boði voru.

Sævar hefur kennt stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík, sinnt vísindamiðlun hjá Háskóla Íslands, unnið við segulmælingar í segulmælingastöðinni í Leirvogi, sinnt dagskrárgerð hjá KrakkaRÚV, Rás 1, Rás 2 og verið umsjónarmaður sjónvarpsþáttaraðanna Hvað höfum við gert? Hvað getum við gert? og Nýjasta tækni og vísindi.

Í dag er Sævar sérfræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs og sinnir líka ótal öðrum verkefnum sem tengjast ritstörfum, fyrirlestrum, dagskrárgerð og ferðaþjónustu. Hann er ritstjóri stjörnufræði.is og geimurinn.is og eigandi og umsjónarmaður icelandatnight.is og innan tíðar eclipse2026.is. „Ég kann ekki að hafa fátt fyrir stafni og þrífst á því að hafa marga bolta á lofti í einu, þótt það sé stundum erfitt. Þess dagana vinn ég að undirbúningi almyrkvans sem sést frá Íslandi 12. ágúst 2026.“

Sævar hlaut viðurkenningu Íslenskrar málnefndar fyrir frumkvöðulsstarf í fræðslu í náttúruvísindum á íslensku árið 2021. Hann hlaut vísindamiðlunarviðurkenningu Rannís árið 2021 og Edduverðlaunin árið 2021 fyrir sjónvarpsþáttinn Nýjasta tækni og vísindi sem mannlífsþátt ársins. Hann hlaut vísinda- og fræðsluverðlaun Siðmenntar fyrir framúrskarandi vísindamiðlun árið 2019, vorvindaverðlaun IBBY fyrir framlag til fræðslu og barnamenningar árið 2018 og verðlaun frá Háskóla Íslands árið 2016 fyrir framúrskarandi vísindamiðlun. Hann var einnig valinn Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2014.

Sævar hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2023 fyrir bókina Vísindalæsi 4: Hamfarir.

Sævar er höfundur átta bóka og tvær eru á leiðinni, en þær koma út næsta haust: Vísindabók Villa – Geimurinn og geimferðir (2015), Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna (2016), Geimverur – Leitin að lífi í geimnum (2017) Svarthol – Hvað gerist ef ég dett ofan í? (2018). Sólkerfið (2021), Umhverfið (vor 2022), Úps! Mistök sem breyttu heiminum (vor 2023). Hamfarir – Verstu atburðirnir í sögu Jarðar (haust 2023).

Bækurnar sem eru væntanlegar eru Iceland at Night: Your Guide to Northern Lights and Stargazing (haust 2024) og Vísindalæsi 5 (haust 2024).

„Sú bók sem mér þykir vænst um er bókin Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna sem Forlagið gaf út árið 2016. Hún var afrakstur stjörnuskoðunar í næstum þrjá áratugi. Gjörbreytt ensk útgáfa af henni er væntanleg næsta haust en hún ber titilinn Iceland at Night og er unnin í samvinnu við frábæran vin og samstarfsfélaga, National Geographic-ljósmyndarann Babak Tafreshi. Ég er mjög stoltur af henni.

Þá þykir mér innilega vænt um vísindalæsisbókaflokkinn minn, bækur sem ég skrifa fyrir krakka á aldrinum 8-13 ára eða svo. Fimmta bókin í flokknum kemur út fyrir jól og er mjög spennandi. Annars geng ég með margar bókahugmyndir í maganum sem ég hlakka til að hrinda í framkvæmd. Ég dýrka að skrifa fyrir forvitna krakka og ungmenni. Að vera forvitinn um heiminn er svo dásamlegur eiginleiki. Heimurinn er svo ótrúlega merkilegur og áhugaverður!“

Sævar var formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness 2006-2017 og stjórnarmaður í Stjarnvísindafélagi Íslands, meðlimur í Evrópska stjarnvísindafélaginu. „Að öðru leyti hef ég harla lítinn tíma fyrir félagsstörf.“

Helstu áhugamál Sævars eru vísindi og fræðsla. „Ég er svo heppinn að vinna við áhugamálin mín. Að öðru leyti eru helstu áhugamálin að elta almyrkva á sólu um allan heim. Ég er nýkominn heim úr sólmyrkvaferð til Bandaríkjanna þar sem ég ferðaðist með konu minni og öðru frábæru fólki til Burlington í Vermont. Þar sá ég minn fjórða almyrkva og hef því nú dvalið í tæplega þrettán gullfallegar ógleymanlegar mínútur í alskugga tunglsins.

Annars þykir mér fátt betra og skemmtilegra en að elda og borða frábæran mat og drekka fyrsta flokks vín, heimsækja framúrskarandi veitingastaði. Ég stunda líka útihlaup, held ástríðufullt með Liverpool og fylgist grannt með fótbolta. Fræði fólk á öllum aldri um undur alheimsins og, það sem er dýrmætast, ver tíma með fjölskyldunni minni.“

Fjölskylda

Sambýliskona Sævars er Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir, f. 30.9. 1990, forstöðumaður skýjavegferðar hjá Wise. Þau eru búsett í Fossvogi í Reykjavík. Foreldrar Þórhildar eru Stefán S. Guðjónsson, f. 17.3. 52, búsettur í Kópavogi, og María Björk Ásbjarnardóttir, f. 19.7. 1959, búsett í Hafnarfirði. Þau eru fráskilin.

Sonur Sævars og fyrrverandi maka, Ingu Rúnar Helgadóttur, f. 7.1. 1987, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, er Arnór Bragi, f. 31.12. 2010. Sonur Sævars og Þórhildar er Jökull Máni, f. 30.3. 2021.

Systkini: Arnar Ingi Bragason, f. 11.9. 1986, forritari hjá Marel, býr í Garðabæ, og Karen Ýr Bragadóttir, f. 29.11. 1992, er í námi, býr í Hafnarfirði.

Foreldrar Sævars eru hjónin Bragi Guðmundsson, f. 26.3. 1962, lagerstjóri hjá Parka, og Hjördís Sævarsdóttir, f. 6.6. 1964, heimavinnandi en starfaði á árum áður hjá Ísal og í bókasafni Hafnarfjarðar. Þau búa í Hafnarfirði.