Tryggvi Pálsson, formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins.
Tryggvi Pálsson, formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins.
Í kjölfar bankahrunsins, þegar stærstu eigendur endurreistra banka voru skilanefndir í nafni kröfuhafa, varð vart við þá hugsun meðal stjórnenda bankanna að þeir gætu farið sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest

Í kjölfar bankahrunsins, þegar stærstu eigendur endurreistra banka voru skilanefndir í nafni kröfuhafa, varð vart við þá hugsun meðal stjórnenda bankanna að þeir gætu farið sínu fram án þess að spyrja kóng eða prest. Tryggvi Pálsson, formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, er spurður hvort eimt hafi eftir af slíkum þankagangi í Landsbankanum þegar bankaráðið lagði fram skuldbindandi og fyrirvaralaust tilboð í tryggingafélagið TM þann 15. mars síðastliðinn.

„Ég vil ekki alveg fullyrða það. En þó er rétt að rifja upp hvert var mottóið fyrir hrun hjá ýmsum. Það var, „ég á það, ég má það“. Spurningin er, er nýtt að „ég á það ekki en ég má það?“

Hann ítrekar þó að ekkert bendi til annars en að stjórnendur bankans hafi unnið með hag stofnunarinnar sem þeim er trúað fyrir í huga. Þeir hafi trúað því staðfastlega að kaupin á TM myndu efla starfsemina.

„Ég vil samt taka það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að bankaráðið og bankastjórinn hafi ekki verið að vinna að hag bankans eins og þau sáu þetta og maður er ekki að gera þeim það upp að það hafi verið illur ásetningur eða eitthvað svoleiðis. En þarna er ekki hugsað nægilega um áhættuna, í viðskiptunum sjálfum og í stjórnmálaáhættu og hver vilji eigandans klárlega er,“ segir Tryggvi í nýjasta þætti Dagmála.

„Það er búið að ganga frá eigendastefnu og sáttmála flokkanna. Og það eru auðvitað ráðherrar og kjörnir fulltrúar á Alþingi sem hljóta að ráða í svona máli. Og þess vegna finnst manni að þetta hafi komið óvænt að bankaráðið skyldi stíga þetta skref, upp á sína ábyrgð, þegar ábyrgðin á ríkisfjármálunum er hjá kjörnum fulltrúa og ráðherra,“ útskýrir Tryggvi en hann og stjórn Bankasýslunnar hafa ákveðið að skipta út öllum stjórnarmönnum bankaráðsins vegna þessa atviks. Það gangi í berhögg við markmið sem stjórnvöld hafi sett.

„Það er alveg klárt að stóri hluthafinn sem er ríkið hefur verið að leggja höfuðáherslu á að auka arðgreiðslur til sín, því nægur er vandinn fyrir í ríkisfjármálunum, og okkur í Bankasýslunni er uppálagt að pressa á að menn borgi þann arð sem hægt er til ríkisins en taki ekki þessa upphæð sem er tæpir 30 milljarðar úr lausafé og ætli síðan, þegar eiginfjárstaðan lækkar, og er eins og við bendum í okkar skýrslu, bara 0,1% fyrir ofan lágmarkið […] að laga eiginfjárstöðuna með því að gefa út víkjandi skuldabréf í stað þess að fá hlutafjáraukningu og velja þannig einu leiðina til þess að gera þetta án þess að spyrja hluthafana. Okkur finnst þetta raunverulega með ólíkindum. En þarna kann að vera einhver skáblinda sem kemur til.“