Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, fordæmdi í gær ákvörðun yfirvalda í Saint-Josse, einu af 19 borgarhverfum Brussel-borgar, um að banna ráðstefnu þar sem evrópskir stjórnmálamenn af hægri jaðrinum hittust.
Boðað var til ráðstefnunnar undir merkjum „þjóðlegrar íhaldsstefnu“ og þarfarinnar á því að vernda þjóðríkið gegn áhrifum Evrópusambandsins. Voru bresku stjórnmálamennirnir Nigel Farage og Suella Braverman á meðal ræðumanna auk þess sem Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, átti að ávarpa ráðstefnuna. Eric Zemmour, sem bauð sig fram til forsetaembættisins í Frakklandi í hitteðfyrra, hugðist einnig sækja ráðstefnuna, en lögreglan í Brussel meinaði honum aðgang.
Farage fordæmdi ákvörðun yfirvalda um að banna ráðstefnuna og sagði hana í ætt við það sem tíðkaðist í kommúnistaríkjum. Þá sagði hann ákvörðunina sýna að Bretar hefðu gert rétt með því að yfirgefa Evrópusambandið. Emir Kir, borgarstjóri í Saint-Josse, varði ákvörðun sína á Facebook og sagði þar að hann hefði bannað ráðstefnuna til þess að vernda öryggi almennings. Sagði hann að mótmælendur hefðu heitið að beina spjótum sínum að ráðstefnunni, en bætti við að öfga-hægriflokkar væru „ekki velkomnir“ í Saint-Josse.
De Croo sagði hins vegar að stjórnarskrá Belgíu tryggði meðal annars málfrelsi, og að það bryti í bága við stjórnarskrána að banna stjórnmálasamkomur, sama af hvaða tagi þær væru. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, sagði sömuleiðis að ákvörðunin um að banna samkomuna ylli miklum áhyggjum.
Aðstandendur ráðstefnunnar hafa kært ákvörðun yfirvalda í Saint-Josse til dómstóla, en þeir höfðu neyðst til þess að flytja ráðstefnuna í tvígang áður en hún var bönnuð.