Reynir Ingi segir að 90% af starfsemi Expectus snúist í kringum viðskiptagreind.
Reynir Ingi segir að 90% af starfsemi Expectus snúist í kringum viðskiptagreind. — Morgunblaðið/Eggert
  Unga fólkið sem við höfum verið að ráða inn er allt öðruvísi en kynslóðin á undan.

Ráðgjafarfyrirtækið Expectus á Suðurlandsbraut 10 hefur vaxið hratt á undanförnum þremur árum. Árið 2020 var veltan nálægt fimm hundruð milljónum króna en árið 2023 var hún orðin tæpar 900 milljónir.

Reynir Ingi Árnason tók nýlega við sem framkvæmdastjóri. Hann segir ViðskiptaMogganum að helsta ástæða hins mikla vaxtar sé ákveðin vitundavakning í atvinnulífinu um gildi þess að nýta sér gögn til að ná betri árangri í rekstri. Viðskiptavinir Expectus eru um 220.

„Þetta eru allt frá fjölskyldufyrirtækjum upp í alþjóðleg stórfyrirtæki og stærstu fjármálastofnanir landsins. Okkar hlutverk er að aðstoða íslensk fyrirtæki og stofnanir við að innleiða gagnadrifna menningu og nýta sér rauntímaupplýsingar til ákvarðanatöku,“ útskýrir Reynir.

Hann segir að Expectus veiti fjölbreytta þjónustu til skemmri og lengri tíma. Mörg fyrirtæki séu í föstum viðskiptum á meðan önnur leiti eftir samstarfi um ákveðin afmörkuð verkefni.

„Hugmyndafræðin hjá okkur er að selja lausnir sem auðvelda okkur að setja hratt upp umhverfi fyrir fyrirtæki og aðstoða þau að taka fyrstu skrefin í notkun lausnanna. Markmiðið er svo að hjálpa þeim að verða sjálfbjarga og taka sjálf við rekstri umhverfisins. Við komum svo að málum ef félögin þurfa ráðgjöf í tengslum við nýja ferla. Í einhverjum tilfellum vilja fyrirtæki losna við daglegan rekstur tækniumhverfisins og þá sjáum við um að allt gangi vel fyrir sig.“

Faraldurinn hafði áhrif

Að sögn Reynis jók covid-19-faraldurinn vitund fyrirtækja um mikilvægi gagna í rekstri.

„Fyrirtæki lentu allt í einu í því að starfsmenn gátu ekki allir mætt á staðinn. Þau þurftu þá að kalla eftir skýrslum til að fá yfirsýn yfir starfsemina í fyrirtækinu, framgang verkefna og stöðu félagsins. Sem dæmi þá þurfti framleiðslufyrirtæki sem gat ekki verið með sama fjölda á gólfinu og áður að geta skipulagt framleiðsluna við nýjar aðstæður út frá eftirspurn og sölu. Þá þurftu sölutölur að vera uppfærðar reglulega til að hægt væri að aðlaga framleiðsluna með litlum fyrirvara. Þú þurftir líka að hafa birgðahaldið á hreinu og bera saman birgðir og sölu á hverjum degi til að lenda ekki í vöruskorti. Gagnavinnslan auðveldar svona fyrirtækjum, og einnig verslunarfyrirtækjum t.d., að hafa yfirlit yfir reksturinn. Þetta kemur í veg fyrir tapaðar tekjur eða of mikla kostnaðaraukningu. Gagnavinnslan hjálpar einnig til við að sitja ekki á eignum og birgðum sem þú hefur ekki not fyrir.“

Spurður um dæmi um hvernig þjónusta Expectus gagnast einstaka fyrirtækjum nefnir Reynir framleiðslufyrirtæki sem vinnur með matvöru með stuttan líftíma. Vegna eðlis vörunnar sé bráðnauðsynlegt að setja rétta hluti í hillu smásöluverslana á réttum tíma.

„Þetta fyrirtæki keyrir sína framleiðsluferla út frá gagnaferlum sem við setjum upp. Það hefur þá á öllum tímum réttar sölutölur yfir hvað hefur selst í matvörukeðjunni og einnig niður á einstaka verslanir. Því veit þessi viðskiptavinur alltaf nákvæmlega hve mikið hann á að framleiða og hvert á að dreifa vörunni. Einnig sér hann nákvæmlega miðað við stöðu framleiðslunnar og sölu í verslunum hve mikið þarf að framleiða fyrir pantanir næsta dags. Fyrirtækið fer því ekki blindandi út í daginn. Allt er skipulagt.“

Mælaborð í símanum

Annað dæmi er stórt smásölufyrirtæki þar sem kassafærslur eru stemmdar af á nokkurra mínútna fresti.

„Verslunarstjóri getur gert breytingar í versluninni innan dagsins. Hann er með mælaborð í símanum og sér hvernig salan sveiflast. Hann fær fullkomna endurgjöf á áhrif breytinga. Ef hann til dæmis færir hluti til í versluninni sér hann í rauntíma hvort salan á vörunum rjúki upp eða detti niður á nýja staðnum.“

Reynir nefnir einnig fyrirtæki sem heldur reglulega tilboðsdaga. Hægt er með lausnum Expectus að fylgjast nákvæmlega með því hvernig salan breytist og hvort einhverjum tilgangi þjóni að vera með slíka daga. Einnig sé hægt að bera söluna saman á milli ára og sjá hvort tilboðin virki áfram eða ekki og þá hvort breytinga sé þörf.

Expectus á fimmtán ára afmæli í ár. Það tók til starfa í janúar árið 2009.

„Í upphafi var megináherslan á almenna rekstrarráðgjöf sem og að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum við stefnumótun, innleiðingu stefnu o.s.frv. Smátt og smátt jókst svo áherslan á viðskiptagreindina.“

Starfsemi Expectus hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin. „Við erum í dag eitt stærsta fyrirtækið hér á landi í þeirri starfsemi sem við erum búin að afmarka okkur við.“

Í dag snúast um það bil 90% af starfsemi Expectus í kringum viðskiptagreind og hagnýtingu gagna að sögn Reynis en 10% eru hefðbundin rekstrarráðgjöf.

„Okkur finnst mikilvægt að halda áfram bjóða upp á rekstrarráðgjöf. Það er undirstaðan sem fyrirtækið er reist á og við erum með áratuga reynslu í því. Ráðgjöfin veitir okkur aðra innsýn í fyrirtækin sem við þjónustum. Við höldum annarskonar þekkingu við innanhúss. Unga fólkið í starfsmannahópinum fær víðtækari þjálfun í að lesa í fyrirtæki og rekstur með því að sinna þeim verkefnum,“ útskýrir Reynir.

Alltaf vel rekið

Hann segir að fyrirtækið hafi alltaf verið rekið af skynsemi.

„Þetta hefur frá fyrsta degi verið vel rekið fyrirtæki og áunnið sér viðurkenningu sem framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo svo dæmi sé tekið. Mögulega hefur það haft áhrif að einn af stofnendunum starfaði lengi sem endurskoðandi.“

Reynir segir að gríðarlega mikið sé lagt upp úr góðri vinnustaðamenningu hjá Expectus.

„Það hefur áunnið okkur viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki hjá VR á hverju ári allt frá 2016.“

Um tíma stundaði félagið eigin hugbúnaðarþróun og bjó til Exmon-hugbúnaðinn.

„Exmon var gert að sjálfstæðu félagi árið 2014. Það var selt í lok síðasta árs til danska upplýsingatæknifyrirtækisins TimeXtender. TimeXtender er einn af okkar traustustu samstarfsaðilum og við höfum lengi notað lausnir þeirra. Þau sáu að Exmon féll vel að þeirra eigin hugbúnaði og ákváðu að bæta Exmon við sitt lausnaframboð. Við erum áfram samstarfsaðili og söluaðili fyrir þau á Íslandi en höfum sjálf hætt þeirri hugbúnaðarþróun.“

Spurður um ástæðu þess að Expectus fór yfir í hugbúnaðarþróun á sínum tíma segir Reynir að þar hafi í raun tilviljun ráðið för.

„Við vorum að vinna fyrir samheitalyfjafyrirtækið Actavis við að safna saman miklu magni af gögnum frá starfsstöðvum alls staðar að úr heiminum og setja fram á skipulegan hátt fyrir stjórnendur. Gagnakeyrslurnar áttu það til að brotna. Þá þurfti m.a. að eyða mörgum klukkustundum í að keyra gögnin aftur saman til að bjarga málum. Við bjuggum til Exmon-búnaðinn til að ráða bót á þessu, vakta gagnakeyrslurnar og yfirfara þær samhliða. Þá urðu gögnin rétt á öllum tímum. Lausnin óx og þróaðist svo í gegnum árin og er í dag notuð í flestum af stærstu fyrirtækjum landsins, en nýtist einnig smærri fyrirtækjum.“

Hjá Expectus starfar margt ungt fólk og kynjahlutföll eru jafnari en gengur og gerist víða í tæknifyrirtækjum.

„Við tókum meðvitaða ákvörðun um það fyrir nokkrum árum að ráða inn margt ungt fólk beint úr meistaranámi. Við erum líka með margt reynslumikið fólk hér innanhúss en þegar unga fókið bætist við verður dýnamíkin önnur og meiri. Þau koma inn með öðruvísi hugmyndir, nálgun og pælingar. Í þessu felst mikið tækifæri og má nefna sem dæmi að tveir ungir starfsmenn hafa bæst við í eigendahópinn á síðustu mánuðum.“

Annar hugsunarháttur

Reynir segir að hver ný kynslóð á vinnumarkaði færi með sér nýja hluti sem hinir eldri á vinnustaðnum geti lært af.

„Unga fólkið sem við höfum verið að ráða inn er allt öðruvísi en kynslóðin á undan. Það þarf að halda öðruvísi utan um það, hlúa að því á annan hátt. En það hvernig þau hugsa og nálgast hlutina gagnast okkur rosalega vel í því hvernig við nálgumst viðskiptavininn. Það er gaman að sjá unga fólkið og það reynslumikla blandast saman. Hugsunarhátturinn er ólíkur og það er mjög ánægjulegt að fylgjast með því.“

Spurður um ástæður þess að þetta fólk er öðruvísi segir Reynir að þessi kynslóð hafi alist upp við internetið og samfélagsmiðla og allt það áreiti sem því fylgir. Þau átti sig á að heimurinn er stafrænn og gagnadrifinn. Það hafi átt þátt í að móta þau.

Um kynjahlutföll í fyrirtækinu og í tæknigeiranum almennt segir Reynir að áður fyrr hafi færri konur sótt í þennan geira en mikil breyting hafi orðið á. Frábært sé að sjá aukninguna sem orðið hefur á síðastliðnum árum. Þannig hafi gengið mun betur undanfarin ár að jafna kynjahlutföllin innan Expectus.

„Þegar við auglýstum eftir fólki hér áður fyrr vorum við ekki að fá nógu margar umsóknir frá konum. Við ákváðum því að breyta orðalagi atvinnuauglýsinganna og nálguðumst starfslýsinguna á annan hátt. Þessi nálgun hafði þau áhrif að umsóknum frá konum fjölgaði umtalsvert. Hvort sem það var beinlínis út frá breyttri nálgun eða fjölgun kvenna í geiranum almennt þá náðum við okkar markmiðum í þessum málum,“ segir Reynir að lokum.

Mátti ekki sækja um starf hjá fyrirtækinu

Talið berst nú að framkvæmdastjóranum sjálfum og aðdraganda ráðningar hans í starf framkvæmdastjóra Expectus.

„Ég útskrifaðist sem hagfræðingur frá Háskóla Íslands vorið 2009 sem var líklega einn versti tími Íslandssögunnar til að klára nám í hagfræði,“ segir Reynir og hlær enda var fjármálahrunið í október árið 2008 þá nýafstaðið og fjöldi reyndra hagfræðinga án vinnu á markaðinum. „Konan mín var samferða mér í hagfræðinni og við með lítið barn þannig að útlitið var heldur dökkt hvað fyrstu skref á atvinnumarkaði varðaði. Staðan bauð ekki upp á að við færum beint í meistaranám og ég var þá svo heppinn að fá þá vinnu hjá Nóa Síríusi í sölu og dreifingu. Það er fyndið hvernig hlutir þróast stundum því í dag er Nói Síríus einn af mínum viðskiptavinum. Það þykir mér mjög vænt um þar sem ég átti mjög góða tíma hjá fyrirtækinu. Ég vann í Nóa Síríusi uns við hjónin fórum saman í meistaranám til Danmerkur árið 2013. Þá voru börnin orðin tvö.“

Reynir segir það hafa verið mjög krefjandi skref fyrir þau hjónin á þessum tíma að fara bæði í nám erlendis með tvö börn fjarri stuðningsnetinu á Íslandi.

„Við vorum hins vegar heppin að hafa fengið íbúð á kollegíu sem heitir Solbakken. Þar var lítið Íslendingasamfélag þar sem allir hjálpuðust að og hlupu í skarðið hver fyrir annan. Hvort sem það var að sækja í leikskóla eða skóla eða passa börnin svo hægt væri að fara í próf eða redda málunum þegar voru starfsdagar hjá kennurunum. Þarna eignuðumst við nýja „fjölskyldu“ sem við höldum enn þann dag í dag miklu sambandi við. Öll börnin í hópnum eru náin eins og systkini.“

Reynir segir skemmtilega sögu af því þegar honum var bannað að sækja um starf hjá Expectus.

„Ragnar Guðgeirsson, einn af stofnendum fyrirtækisins og frændi minn, var á ferðalagi um Skandinavíu að skoða verslanamiðstöðvar. Hann sat þá í stjórn Kringlunnar. Hann kíkti við í kaffi hjá okkur hjónunum í Danmörku er við vorum í þann mund að útskrifast. Hann óskaði þá vinsamlegast eftir því að við sæktum aldrei um starf hjá Expectus. Þar væri mjög stíf regla um að ráða ekki fjölskyldumeðlimi. Það gæti bara valdið vandræðum og leiðindum. Þegar við komum til Íslands leituðum við því annað eftir störfum og ég var ráðinn í fjármálaráðgjöf hjá ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte og konan mín Rebekka fékk starf sem áhættustjóri hjá Gildi lífeyrissjóði. Ég stoppaði reyndar stutt við hjá Deloitte, eða bara í 9 mánuði. Ástæðan var sú að ég hitti einn af eigendum Expectus í Krónunni og við áttum stutt spjall. Nokkrum dögum síðar hringir hann og spyr hvort ég hefði áhuga á að koma yfir til Expectus. Ég sagði að það væri ekki hægt því það væri búið að leggja blátt bann við slíku. Hann sagðist vita af umræðunni sem átt hafði sér stað en hann væri búinn að ræða þetta innanhúss og sagðist myndu bera fulla ábyrgð á því að reka mig ef til þess kæmi. Það myndi því ekki reyna á fjölskylduregluna.“

Reynir segir að síðan þá hafi hann þróast hingað og þangað í starfi hjá Expectus. Þegar þáverandi framkvæmdastjóri, Sindri Sigurjónsson, sem Reynir hafði unnið náið með, hvarf til annarra starfa, stóð Reyni framkvæmdastjórastóllinn til boða.

„Ég er stoltur af því að hafa verið boðið að taka við af Sindra. Ég nýt góðs af þeim grunni sem hefur verið lagður af forverum mínum í starfi. Expectus er ótrúlega öflugt fyrirtæki með frábært starfsfólk sem gerir það að því sem það er.“