— Morgunblaðið/Eggert
Fyrri hluti apríl hefur verið kaldur. Þetta kemur fram á bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings. Á öllu svæðinu frá Breiðafirði, norður og austur um að Austurlandi að Glettingi, er þessi aprílbyrjun sú kaldasta það sem af er þessari öld

Fyrri hluti apríl hefur verið kaldur. Þetta kemur fram á bloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Á öllu svæðinu frá Breiðafirði, norður og austur um að Austurlandi að Glettingi, er þessi aprílbyrjun sú kaldasta það sem af er þessari öld. Að tiltölu hefur verið hlýjast á Suðurlandi þar sem hitinn raðast í 20. hlýjasta sæti (af 24).

Hiti er neðan meðallags síðustu tíu ára á öllum veðurstöðvum, minnst -1,4 stig í Önundarhorni undir Eyjafjöllum, en mest -5,4 stig í Svartárkoti.

Meðalhiti í Reykjavík er +0,9 stig, -2,0 neðan meðallags 1991-2020 og -2,6 stigum neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta er næstkaldasta aprílbyrjun það sem af er öldinni í Reykjavík, kaldara var 2006, meðalhiti þá 0,4 stig. Hlýjastur var fyrri hluti apríl í fyrra, +5,3 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 117. hlýjasta sæti (af 152). Hlýjasta aprílbyrjun þess tímabils var 1929, meðalhiti þá +6,6 stig. Kaldast var hins vegar 1876, meðalhiti -4,1 stig.

Á Akureyri er meðalhiti það sem af er mánuði -2,0 stig og hefur sjö sinnum verið lægri síðustu 89 árin (en aldrei á þessari öld).

Úrkoma hefur verið lítil í Reykjavík, aðeins 7,4 millimetrar, fimmtungur meðalúrkomu, en hefur samt 13 sinnum mælst minni sömu daga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 40,2 mm, ríflega tvöföld meðalúrkoma. Á Dalatanga hafa mælst 47,3 mm, rúmlega 10 prósent neðan meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 105,4 í Reykjavík, um 30 fleiri en í meðalári og hafa aðeins 10 sinnum mælst fleiri sömu daga. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 58,7.

sisi@mbl.is