Dagþór S. Haraldsson
Dagþór S. Haraldsson
Það er örugglega einstakt í veröldinni að froða (verðbætur) sé notuð til að skerða ellilífeyri þegnanna.

Dagþór S. Haraldsson

Ég er þegar búinn að skrifa nokkrar greinar í blað allra landsmanna, þ.e. Moggann. Þær greinar voru allar um valdbeitingu hins opinbera til að takmarka launatekjur eldri borgara við 2,4 milljónir á ári.

En núna mun ég fjalla um aðra valdbeitingu ríkisins gagnvart TLEB (TLEB lesist sem „tekjulágir eldri borgarar“) og varðar skerðingar vegna fjármagnstekna. Ég tek fram að þetta varðar ekki mig, en í göngutúr með Korpúlfum (félagsskap eldri borgara í Grafarvogi) átti ég viðræður við eina dísina, sem er farin að nálgast eftirlaunaaldurinn og var auðvitað að velta framtíðinni fyrir sér. Þessi dís sagði mér að fjármagnstekjur myndu skerða ellilífeyri. Ég var ekki samþykkur og sagði að það væri frítekjumark fyrir tekjuskatt vegna fjármagnstekna (300 þús.). En þessi góða dís sagði að hún hefði fengið þessar upplýsingar í viðtali við TR.

Ég fór að skoða málið. Dísin hafði hárrétt fyrir sér. Fjármagnstekjur flokkast með lífeyristekjum og öðrum tekjum, sem hafa 25.000 kr. mánaðarlegt frítekjumark. Þannig að ég bjó til tilbúið dæmi. En vissulega verð ég að gera grein fyrir að það eru til tvennskonar eldri borgarar. Annars vegar þeir sem eru/voru á verðtryggðum/launatryggðum lífeyrissjóði, oftast opinberir starfmenn. Þetta fólk er svo lánsamt að vegna góðra lífeyrissjóðstekna fá þau engar greiðslur frá TR. Og við verðum að hafa í huga að þeir sem standa undir þeirra verð/launatryggðum sjóðum eru við sem störfuðum á hinum almenna vinnumarkaði. Við á hinum almenna vinnumarkaði vorum allt of mörg í lífeyrissjóðum, sem hrundu í hruninu. Hruninu sem máttlaus stjórnvöld áttu að vernda okkur gegn en gerðu ekki. Þeir sem lentu í að lífeyrissjóðir þeirra hrundu eru núna að fá lífeyri frá TR.

En byrjum á tilbúnu dæmi: Fjármagns/vaxtatekjur eru 10% sem gróflega má segja að 5% séu verðbætur en hin 5% raunávöxtun. Aðili eftir mikla vinnu um ævina á 10 milljónir á bankareikningi. Sá aðili fær 1 milljón í fjármagns/vaxtatekjur og þarf eftir frítekjumark (300 þús.) vegna skatta að greiða 22% af 700 þús eða 154 þús í skatt. Bara allt í lagi enda á það við um alla borgara þessa lands. En svo tekur misbeitingin við.

Aðilinn umræddi verður ellilífeyrisþegi og þá koma hinar óréttlátu skerðingar á ofangreindum skatti til viðbótar og dæmið verður ca. þannig:

Af því að aðilinn er TLEB að þá vegna 1 milljónar í fjármagnstekjur missir hann 45% af sínum ellilífeyri frá TR eða 450 þús. á ári, sem er 37.500 á mánuði. Og ekki nóg með það, ef sá hinn sami býr einn þá skerðist heimilisuppbótin um 11,9% áðurgreindu til viðbótar (segjum 6.300 kr. á mánuði). Jaðarskattur er því 525.600 kr. á ári! Og beinn fjármagnstekjuskattur er 154.000. Samtals jaðarskattur og beinn fjármagnstekjuskattur verða 679.600. Og miðað við að raunávöxtun var 500.000 þá rýrnar innistæðan að raungildi um 179.600 kr.

En núna förum við í annan fasa. Hvernig tókst þessum aðila að eiga 10 milljónir á bankareikningi? Svarið er með því að spara. Af þessum 10 milljónum á sparnaðarreikningi var aðilinn þegar búinn að borga 3,8 milljónir í tekjuskatt. Síðan heldur ríkið áfram og segir að af fjármagnstekjunum skuli greiða 22% í skatt. En lauslega er helmingurinn af þessum 22% skattur á verðbólgu (froðu). Það þýðir að skattlagningin á raunávöxtunina er 44%. Svo koma áður sagðar skerðingar frá TR sem taka bara til TLEB eða þess hóps sem hefur það verst. Það er örugglega einstakt í veröldinni að froða (verðbætur) sé notuð til að skerða ellilífeyri þegna sinna.

Allar vinnandi stéttir hafa fengið hækkanir að undanförnu og bara gott mál. LEB (Landssamband eldri borgara) sefur ljúfum svefni enda svæft með glærusýningunni á Hilton Nordica frá Guðmundi Inga og Willum Þór 5. des. 2022. Glærusýningu með tilþrifum að mati Rúv. og fólst í 4 ára áætlun um að stefna að „Gott að eldast“.

Við eldri borgarar eigum líka rétt á hækkunum. Enginn hefur talað um það. Lágmarkið hlýtur að vera að hækka allar þær skerðingar sem voru settar á tíma „norrænu velferðarstjórnarinnar“. 25 þús. frítekjumarkið er búið að vera óbreytt frá 2017, þrátt fyrir mikla verðbólgu. Námsmenn voru rétt í þessu að fá hækkun á frítekjumark vegna námslána, sem er auðvitað gott mál.

Ráðherra eldra fólks, Guðmundur Ingi, virðist elska grjót á hálendinu meira en fólkið í landinu. Sá hinn sami hunsaði að setja á fót embætti hagsmunafulltrúa eldra fólks!

Það á ekki að refsa TLEB umfram aðra þjóðfélagsþegna. Þeir eiga það síst skilið. Talað var um óvæntan bata á ríkissjóði 2022. Hann var skýrður með þeim rökum að um hefði verið að ræða tekjur af fyrirfram greiddum arfi (10%). Ég er hins vegar sannfærður um að þessi óvænti bati var vegna hækkunar fjármagnstekna vegna verðbólguþáttar vaxtatekna en það er froða en ekki eignaaukning.

Nýlega vegna „misskilnings“ í launagreiðslum fengu dómarar og einhverjir aðrir hálaunaembættismenn greidd hærri laun en þeim bar. Dómararnir dæmdu í eigin máli og það skyldi vera ólöglegt að leiðrétta „misskilninginn“! Það er ekki sama að vera Jón eða séra Jón. Svei attan.

Höfundur er leiðsögumaður með erlenda ferðamenn.

Höf.: Dagþór S. Haraldsson