Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Beck Á heimleið: Skörð og tinda skrýðir mjöllin skuggum sveipast jörðin, sólabláminn signir fjöllin sáir bliki í fjörðinn. Gunnar J. Straumland skrifar við ljósmynd af hrút: Í fjárhúsunum á Krossi í Lundarreykjadal hitti …

Á Boðnarmiði yrkir Guðmundur Beck Á heimleið:

Skörð og tinda skrýðir mjöllin

skuggum sveipast jörðin,

sólabláminn signir fjöllin

sáir bliki í fjörðinn.

Gunnar J. Straumland skrifar við ljósmynd af hrút: Í fjárhúsunum á Krossi í Lundarreykjadal hitti ég þennan töffara:

Móbotnuflekkóttur fýr,

ferhyrndur, stoltur og sver.

Árvökull, skarpleitur, skýr.

skæreygður, fallegur er.

Limrur eftir Jón Jens Kristjánsson:

Úr Lóni var lítið að frétta

að lokum samt gerðist þetta

að Hans náði flækjum

úr heyrnartækjum

og heyrði þá saumnál detta.

Er Þorvaldur hitti Hávarð

í hittifyrra þá varð

fáum um sel

er þeir fóru með vel-

flest ljóð eftir Byron lávarð.

Kristján Eldjárn orti:

Ljúft er að láta sig dreyma

og líða um heima og geima.

En það er helvíti hart

að hugsa svo margt

að það hafist ekki undan að gleyma.

Jóhann frá Flögu segir svo frá: Þegar Skálholtskirkja brann á dögum Ögmundar biskups var haft eftir kerlingu nokkurri, sem mun hafa þótt í meira lagi skrafgjörn: „Mörgum þótti ég málug. Þó gat ég þagað, þegar Skálholtskirkja brann.“ Er talið, að hún hafi vitað um eldinn, en ekki sagt frá. Um það var gerð þessi staka:

Margir kalla mig málugan mann.

– Mælti kerling orðskvið þann. –

Þagað gat ég þó með sann,

þegar hún Skálholtskirkja brann.

Mývargurinn er hin mesta plága í Mývatnssveit. Um hann kvað Sigmundur Árnason (Blót-Sigmundur) á Vindbelg:

Af öllu hjarta eg þess bið

andskotann grátandi.

Að flugna óbjarta forhert lið

fari í svarta helvítið.

Illugi Helgason orti einnig um mývarginn:

Gylfi hæða golhvassan

gefi vind á landnorðan

með ofviðri magnaðan

mývarginn svo drepi hann.