Stjórnarandstaðan á ekki að misnota tæki þingræðisins

Þingflokkar Flokks fólksins og Pírata lögðu í gær fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Það verður tekið á dagskrá Alþingis síðdegis í dag og það er útrætt og afgreitt í einni umræðu, sem staðið getur fram á nótt.

Vantraust er mikilvægt tæki þingræðisins, sem undirstrikar að framkvæmdarvaldið sitji aðeins í friði og skjóli þingsins. Missi ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar traust þingsins getur þingið fellt viðkomandi af stalli fljótt og örugglega.

Segja má að það sé neyðarhemill þingsins ef stjórnina þrýtur umboð þingmeirihlutans, hvort heldur er vegna þess að þingmenn skipi sér beinlínis í raðir stjórnarandstöðunnar eða sitji hjá.

Slíkan neyðarhemil þarf, líkt og aðra neyðarhemla, að nota sparlega; aðeins þegar slík hætta er á ferðum að stöðva verði löggjafarlestina og þá aðeins að líkur séu á að vantrauststillagan nái fram að ganga.

Stjórnarandstaðan má ekki leggja fram vantrauststillögu af því bara eða af því að hún vantreysti stjórninni sérlega mikið þann daginn, það gerir hún alla daga. Vantraustið snýst enda ekki um vantraust stjórnarandstöðunnar, heldur vantraust þingsins.

Er eitthvað sem bendir til annars en að ríkisstjórnin hafi jafntraustan meirihluta nú en í síðustu viku? Hefur einhver stjórnarþingmaður gefið til kynna að hann styðji stjórnina ekki lengur?

Nei, og þess vegna er þessi vantrauststillaga tímaeyðsla og sýndarmennska. Til þess eins fallin að grafa undan trausti á vantraustsleiðinni sem mikilvægu tæki þingræðisins. Sæmst væri að draga hana til baka.