Auður Björg segir ljóst að gervigreind muni auðvelda og breyta starfi lögmanna en tæknin kalli á auknar kröfur um skjölun, skráningu og eftirlit.
Auður Björg segir ljóst að gervigreind muni auðvelda og breyta starfi lögmanna en tæknin kalli á auknar kröfur um skjölun, skráningu og eftirlit. — Morgunblaðið/Eggert
Auður Björg hefur komið að mörgum umtöluðustu dómsmálum landsins undanfarin ár en hún kallar sig heppna að til hennar sé leitað með mjög fjölbreytt mál. Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin? Hvað lögmennskuna varðar eru helstu áskoranirnar tilkomnar vegna tækniframfara

Auður Björg hefur komið að mörgum umtöluðustu dómsmálum landsins undanfarin ár en hún kallar sig heppna að til hennar sé leitað með mjög fjölbreytt mál.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Hvað lögmennskuna varðar eru helstu áskoranirnar tilkomnar vegna tækniframfara. Bæði myndast ný réttarsvið og gervigreindin er líklega best í því sem lögfræðingar gera, þ.e. að taka saman upplýsingar, finna fordæmi og semja útdrætti og texta. Mikilvægt er að læra að nýta sér tæknina sem fyrirséð er að mun breyta starfi lögmanna en jafnframt auðvelda. Þá kallar tæknin á auknar kröfur um skjölun, skráningar, eftirlit og öryggi svo að meiri tími fer í slíka vinnu en áður.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég verð að nefna pabba minn, sem er með mér á stofu, sem mína helstu fyrirmynd þegar að starfinu kemur og þá sérstaklega að því leytinu að hann hefur alltaf lagt mikið upp úr því að við reynum að hafa gaman. Ég hef reynt að tileinka mér jákvætt hugarfar hans og ég held að það sé jafnvel enn mikilvægara í lögmennsku en mörgum öðrum störfum því viðfangsefnið er almennt ekki gleðilegt sem slíkt. Mikilvægt er að geta gantast og hlegið auk þess að vanda sig við að taka mál skjólstæðingsins ekki inn á sig, sem tekst alls ekki alltaf.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég hreyfi mig reglulega enda vil ég vera sterk og hafa gott þol. Við hjónin vöknum kl. 6 á virkum dögum og tökum æfingu í bílskúrnum, sem er orðinn mjög vel útbúinn af alls kyns æfingatækjum, auk þess sem ég fer reglulega í svokallaða hot fit-tíma í World Class. Hvað varðar næringu líkamans mætti ég líklega hugsa betur um hvað ég læt ofan í mig en ég er óspör á sykur, gervisætu og annað sem er af mörgum kallað eiturefni í dag. Ég vil þó njóta lífsins lystisemda og er ekki komin á þann stað að sé tilbúin til að endurskoða mataræðið.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Gallinn við rekstur lögmannsstofu er langir vinnudagar, mikið álag og þá er lögmaðurinn aldrei alveg í fríi þó að hann fari í frí. Þótt ég og kollegar mínir göntumst með að dómstólar virðist stundum hafa það að markmiði að við fáum magasár, t.d. með stuttum frestum okkur til handa, þá hentar það mér ágætlega enda vinn ég best undir álagi og tímapressu.

Kostirnir eru að það er alltaf nóg af verkefnum fyrir lögmenn hvernig sem árar, starfið er virkilega fjölbreytt og almennt mjög skemmtilegt.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég gæti nefnt fullt af ákvæðum sem mér finnst ósanngjörn og jafnvel vitlaus en fyrst verið er að spyrja út í rekstur myndi ég breyta því hvernig dómarar taka ákvörðun um fjárhæð dæmds málskostnaðar. Staðreyndin er sú að jafnvel þótt aðili vinni mál að öllu leyti þá fær hann ekki alltaf málskostnað sinn bættan úr hendi gagnaðila og sjaldnast að fullu. Það er auðvitað óskiljanlegt fyrir skjólstæðinginn að hann sitji sjálfur uppi með sinn kostnað, að öllu leyti eða hluta, og sér í lagi þegar það virðist stundum fara eftir dómara hverju sinni hver dæmdur málskostnaður er.

Þannig eru sumir dómarar þekktir meðal lögmanna fyrir að lækka málskostnað verulega frá því sem greinir í málskostnaðaryfirliti lögmanns, en aðrir, blessunarlega, fyrir að leggja yfirlit lögmanna til grundvallar og rökstyðja ef vikið er frá yfirlitinu svo einhverju nemi.

Þetta eru oft háar fjárhæðir og skiptir skjólstæðinginn miklu að hann gangi skaðlaus frá máli sem hann vinnur jafnvel að öllu leyti og slæmt að hann upplifi að um geðþóttaákvörðun dómsins sé að ræða. Því er mikilvægt að dómurum sé gert að rökstyðja málskostnaðarákvörðun sína.

Sama er með þóknanir fyrir réttargæslu- og verjendastörf. Þegar dómstóll leggur ekki til grundvallar tímaskýrslu lögmanna í sakamálum geta þeir sjaldnast krafið skjólstæðinginn um það sem umfram er. Lögmaðurinn er þá farinn að vinna endurgjaldslaust að hluta og því væntanlega færri lögmenn en ella sem eru tilbúnir til að taka að sér slík störf.

Ævi og störf:

Nám: Embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands 2005; héraðsdómslögmannsréttindi 2006 og hæstaréttarlögmannsréttindi 2014.

Störf: Hef starfað hjá JA Lögmönnum frá 2005 en er jafnframt formaður Kærunefndar húsamála og Mannanafnanefndar, sit í stjórnum fyrirtækja og er stundakennari við Lagadeild Háskóla Íslands.

Áhugamál: Skíði, golf, hjólreiðar, almenn heilsurækt, ferðalög og samvera með fjölskyldu og vinum.

Fjölskylduhagir: Gift Gísla Gonzales, viðskiptastjóra hjá ÓJ&K-ÍSAM og á þrjár dætur: Ólöfu Natalie, Sonju Sól og Silvíu Björgu, og uppkominn stjúpson, Atla Frey.