Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, getur huggað sig við það að álagningin á Hamborgarabúllu Tómasar er ekki að valda verðbólgu.
Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, getur huggað sig við það að álagningin á Hamborgarabúllu Tómasar er ekki að valda verðbólgu. — Morgunblaðið/Eggert
Fáar vísbendingar eru um að álagning fyrirtækja hafi aukist á undanförnum árum. Þá benda einfaldar athuganir á hlutdeild launa og rekstrarafgangs fyrirtækja í þróun á verðvísitölu landsframleiðslunnar til þess að álagning fyrirtækja hafi ekki orðið til þess að drífa áfram verðbólgu síðustu þrjú ár

Fáar vísbendingar eru um að álagning fyrirtækja hafi aukist á undanförnum árum. Þá benda einfaldar athuganir á hlutdeild launa og rekstrarafgangs fyrirtækja í þróun á verðvísitölu landsframleiðslunnar til þess að álagning fyrirtækja hafi ekki orðið til þess að drífa áfram verðbólgu síðustu þrjú ár. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra sem birt var í vikunni um „hlut fyrirtækja í hagnaðardrifinni verðbólgu“ sem unnin var að beiðni þingmanna Pírata og Flokks fólksins. Þessi niðurstaða er í samræmi við greiningar Seðlabankans, sem m.a. hafa verið birtar í Peningamálum, þar sem komið hefur fram að álagning innlendra fyrirtækja hafi ekki drifið áfram verðbólgu.

Þetta þýðir á einföldu máli að ekki er hægt að rekja aukna verðbólgu síðustu ára til verðlagningar fyrirtækja, hvorki smásölufyrirtækja né annarra, þrátt fyrir að öðru hafi ítrekað verið haldið fram í opinberri umræðu. Þar hafa fyrrnefndir þingmenn verið framarlega í flokki, en þeim til varnar þá hafa þeir ekki verið einir heldur notið stuðnings ráðherra og annarra þingmanna, forystumanna verkalýðsfélaga og annarra hagsmunasamtaka. Fyrirtækjunum hefur mörgum verið legið á hálsi fyrir að hækka verð, jafnvel þótt hækkanirnar hafi verið hóflegar, og mörg hafa fallið í þá gryfju að „frysta“ verð á vörum til að kaupa sér frið. Sá friður er að vísu bara keyptur með tapi fyrir hluthafa, sem í tilviki smásöluverslana eru að miklu leyti lífeyrissjóðir.

Í skýrslu ráðuneytisins kemur þó fram að yfirstandandi verðbólgutímabil megi rekja til framboðsskella og sterkrar eftirspurnar í kjölfar tímabils þar sem saman fór lágt vaxtastig og mikill hallarekstur hins opinbera. Ráðuneytið bendir því að hluta til á sjálft sig, eða öllu heldur Alþingi, sem tekur að lokum ákvarðanir um ríkisútgjöld. Þetta var einnig vitað, ósjálfbær rekstur ríkissjóðs leiðir til verðbólgu og auknar verðbólguvæntingar leiða til þrálátari verðbólgu.

Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins og stofnandi Hamborgarabúllu Tómasar, er einn þeirra þingmanna sem óskuðu eftir fyrrnefndri skýrslu. Með einföldum hætti mætti segja að ekki sé hægt að rekja hærri verðbólgu til þess að Tilboð aldarinnar hafi hækkað á Búllunni, heldur af því að núverandi samstarfsfélagar hans eru að eyða of miklu.

Annar þáttur sem er þó ekki síður mikilvægur er að hækkandi húsnæðisverð leikur stórt hlutverk í því að ýta undir og viðhalda verðbólgu hér á landi. Orsakir fyrir hækkandi húsnæðisverði má að mestu leyti rekja til opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Þar vegur skortur á lóðaframboði þungt en það á einnig við um flókið regluverk við byggingu íbúðarhúsnæðis, tafir á afgreiðslu mála, íhlutun með hlutdeildarlánum og uppbyggingu óhagnaðardrifinna leigufélaga sem og annarra þátta. Listinn yfir afskipti hins opinbera af íbúðamarkaði er óþægilega langur.