Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er hylltur á fundi í Hilton Nordica hóteli, 13. apríl 2024, en afadrengurinn Bjarni fagnaði honum þó jafnvel enn meira.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er hylltur á fundi í Hilton Nordica hóteli, 13. apríl 2024, en afadrengurinn Bjarni fagnaði honum þó jafnvel enn meira.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forgangsverkefnin liggja fyrir: Landamærin verða varin, hindrunum í vegi grænnar orku rutt úr vegi og markvisst byggt undir lækkun verðbólgu og vaxta.

Óli Björn Kárason

Ég ætla að byrja á fullyrðingu: Enginn annar stjórnmálaflokkur en Sjálfstæðisflokkurinn hefur burði eða getu til að boða til opins fundar með tveggja til þriggja daga fyrirvara þar sem um 800 manns mæta. Það var ekki ónýtt veganesti sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins fengu frá fundargestum síðastliðinn laugardag. Veganesti sem er nauðsynlegt þegar lagt er af stað í nýrri ríkisstjórn.

Á laugardaginn sannaðist enn og aftur að kraftur Sjálfstæðisflokksins liggur hjá almennum flokksmönnum sem eru reiðubúnir að taka til hendinni, leggja á sig vinnu og fyrirhöfn til að móta stefnu flokksins og berjast fyrir framgangi hennar. Pólitískt sjálfstraust styrkist án hroka eða yfirlætis.

Skilaboð forsætisráðherra voru skýr: Sjálfstæðisflokkurinn er byggður á sterkum hugmyndafræðilegum grunni. Hugmyndabaráttan verður á forsendum Sjálfstæðisflokksins en ekki á forsendum pólitískra andstæðinga. Sjálfstæðisfólk tekur þátt í þjóðfélagsumræðunni með málefnalegum hætti. „Pólitísk umræða þarf að vera grundvölluð á heilbrigðri lýðræðislegri umræðu. Ekki sleggjudómum, netárásum eða hvað þú vilt kalla það,“ sagði Bjarni Benediktsson í ræðu sinni á fundinum. Sjálfstæðisflokkurinn velji aldrei að standa á hliðarlínunni heldur sækist eftir ábyrgð til að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd.

Trúin á fólkið

Forsætisráðherra undirstrikaði að þrátt fyrir allt væri hvergi betra að búa en á Íslandi, þótt margir stjórnmálamenn væru feimnir að kannast við það:

„Það voru ekki borgaralaun, það voru ekki hærri skattar, það voru ekki aukin ríkisumsvif sem tryggðu að við færðumst úr því að vera fátækasta ríki álfunnar yfir í að vera þetta mesta velsældarríki. Nei. Það voru áherslur sem við höfum talað fyrir allan tímann – áherslur sem eru í grunngildum Sjálfstæðisflokksins. Og við lítum á það sem okkar hlutverk að máta stefnuna við ástandið í þjóðfélaginu hverju sinni og aðlaga okkur aðstæðum, bregðast við í samræmi við það sem fólkið í landinu kallar eftir. Við höfum aldrei þurft að skipta um kennitölu, aldrei breytt grunngildunum. Við erum einfaldlega að þessu fyrir fólkið í landinu eins og það þarf á að halda hverju sinni.

Það var einstaklingsframtakið – trúin á fólkið í landinu – sem skipti sköpum.“

Öllum fundargestum var ljóst að formaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar sem tóku til máls ætla að láta verkin tala á komandi vikum og mánuðum. „Boðskapurinn sem sameinar okkur sem aðhyllumst stefnu Sjálfstæðisflokksins er ekkert flókinn,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður flokksins.

Pólitísk sýn Þórdísar Kolbrúar endurspeglar vel grunnhugsjónir Sjálfstæðisfólks:

Við viljum ekki óþarfa ríkisumsvif, við viljum þvert á móti einfalda kerfin.

Við þurfum ekki hærri skatta heldur lægri skatta; við þurfum einfaldlega að fara betur með annarra manna fé.

Við þurfum ekki nýjar stofnanir, við þurfum að fækka þeim um a.m.k. helming.

Við þurfum ekki að eiga Póstinn, við þurfum að tryggja að fólk fái póstinn sinn.

Við þurfum ekki að eiga banka, við þurfum að tryggja að regluverkið sé öruggt, samkeppnishæft og skýrt.

Við þurfum ekki ríkisvætt tryggingafélag, við þurfum að selja banka.

Við þurfum ekki aukin útgjöld, við þurfum lægri útgjöld.

Við þurfum ekki flóknara regluverk, við þurfum miklu, miklu einfaldara regluverk.

Við þurfum ekki fleiri áætlanir um minni losun, við þurfum græna orku. Og mikið af henni, strax.

Við þurfum ekki meiri forræðishyggju, við þurfum meira frelsi.

Við þurfum sjálfstraust til að halda úti myndugri öryggis- og varnarmálastefnu. Við þurfum að vera verðugir bandamenn og tala um hlutina eins og þeir eru.

Fyrirheit gefin

Í mörgu minnti laugardagsfundurinn á landsfundi okkar Sjálfstæðismanna. Þeir eru ekki haldnir til að gára vatnið í stutta stund heldur til að móta stefnu öflugasta stjórnmálaflokks landsins og leysa úr læðingi ólýsanlegan kraft sem býr í Sjálfstæðisfólki um allt land.

Eðlilega hafa margir úr röðum Sjálfstæðisflokksins haft efasemdir um réttmæti þess að halda áfram samstarfi flokka sem tóku höndum saman árið 2017. Það skal játað að ég var einn þeirra. En tónninn sem Bjarni Benediktsson hefur slegið á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar – með skýra sýn á aðalatriðin – sannfærir flesta um réttmæti þess að halda samvinnunni áfram, undir hans forystu. Forgangsverkefnin liggja fyrir: Landamærin verða varin, hindrunum í vegi grænnar orkuöflunar rutt úr vegi og með markvissum aðgerðum verður byggt undir lækkun verðbólgu og vaxta.

Fyrirheit hafa verið gefin. Væntingar byggðar upp. Öllum er ljóst hvað er mikilvægast. Viljinn og staðfestan er fyrir hendi hjá forsætisráðherra og þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Og aðeins þannig næst árangur.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Óli Björn Kárason