Kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar sem haldin var á Egilsstöðum nam um 90 milljónum króna. Þetta upplýsti Þóra Arnórsdóttir, samskiptastjóri fyrirtækisins, í samtali við mbl.‌is‌ í gær. Hún sagði jafnframt að starfsmannafélag hefði…

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

Kostnaður við árshátíð Landsvirkjunar sem haldin var á Egilsstöðum nam um 90 milljónum króna. Þetta upplýsti Þóra Arnórsdóttir, samskiptastjóri fyrirtækisins, í samtali við mbl.‌is‌ í gær. Hún sagði jafnframt að starfsmannafélag hefði tekið þátt í greiðslu kostnaðar og makar hefðu greitt 8.000 krónur á haus.

Kostnaður við árshátíðina hefur vakið mikla athygli en Þóra vill ekki meina að hann hafi verið óhóflegur. Það sé dýrt að halda árshátíð, sérstaklega þegar starfsmannahópurinn er búsettur víða á landinu. „Við gerum alltaf þá kröfu að fólkið sem vinnur úti á landi við það að búa til orkuna komi til Reykjavíkur og þegar þessu er snúið við þá verður allt brjálað,“ segir Þóra.

Þátttakendur hafi verið um 450 en alls eru 350 starfsmenn í 330 stöðugildum innan fyrirtækisins. Um helmingur starfsfólks býr utan höfuðborgarsvæðisins að sögn Þóru. Í gærkvöldi var Þóra ekki með á hraðbergi nákvæman fjölda þeirra sem flugu með þotu Icelandair austur. Ein ferð var klukkan 13.30 á föstudag og önnur seinnipartinn þann dag. Þá var þriðja ferðin farin á laugardag, allar frá Reykjavík.

Spurð hvort ekki sé um að ræða óhóflegan kostnað í ljósi almennrar eigandastefnu ríkisins svarar Þóra neitandi og segir mikilvægt að horfa til stærðar fyrirtækis hverju sinni og hvar starfsmenn séu búsettir. Þykir Þóru gagnrýni á háan kostnað viðburðarins ekki taka mið af því að stór hluti starfsfólks Landsvirkjunar sé búsettur út á landi enda fari öll framleiðsla fyrirtækisins fram þar. Það sé raunar tvískinnungsháttur í garð landsbyggðarfólks. „Hrokinn er svo yfirgengilegur. Það má ekki gera neitt fyrir utan Reykjavík.“

Hún segir það aftur á móti meðvitaða ákvörðun hjá Landsvirkjun sem sé ætluð til þess verja peningunum í nærsamfélagi stærstu aflstöðvar Landsvirkjunar sem reiði sig að miklu leyti á ferðaþjónustu – á árstíma þar sem er lægð í ferðamennsku.

Höf.: Iðunn Andrésdóttir