Ingólfur Gíslason, bókbindari og kennari, fæddist í Reykjavík 28. janúar 1971. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 4. apríl 2024 eftir hetjulega baráttu við krabbamein.
Foreldrar Ingólfs eru Gísli Ingólfsson, f. 13. október 1942 á Djúpavogi, og Sigríður Sigurðardóttir, f. 15. október 1946 í Reykjavík. Systkini Ingólfs eru Sigurður Jónas, f. 8. febrúar 1967, giftur Margréti Guðjónsdóttur, og Ellen, f. 4. janúar 1970, gift Gunnari Rafni Guðjónssyni.
Eftirlifandi eiginkona Ingólfs er Valgerður Ósk Hjaltadóttir, f. 12. júní 1970. Foreldrar hennar voru Hjalti S. Örnólfsson, f. 26. ágúst 1922, d. 26. apríl 2007, og Guðrún Valgarðsdóttir, f. 14. júlí 1931, d. 24. febrúar 2019.
Ingólfur og Valgerður eiga tvö börn, Gísla, f. 2. september 1994, og Guðrúnu Birtu, f. 7. október 2002. Ingólfur ólst upp í Reykjavík en bjó sín fullorðinsár í Hafnarfirði með eiginkonu og börnum. Hann og eiginkona hans hófu búskap árið 1993 en giftu sig 2. júlí 2005.
Alla hans starfstíð vann hann í Svansprenti í Kópavogi, lengst af sem verkstjóri í bókbandi. Hann kenndi bókband við Tækniskólann í Reykjavík, var formaður sveinsprófsnefndar í bókbandi, var í trúnaðarráði hjá Grafíu og var í stjórn PKU-félagsins á Íslandi.
Útför hans fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, 17. apríl 2024, klukkan 13.
Elsku pabbi minn.
Þú varst besta manneskja sem ég hef nokkurn tímann kynnst, rólegur, yfirvegaður, með góða nærveru og mikið jafnaðargeð. Þú komst svo sannarlega vel fram við alla sem þú kynntist og áttir miklu betra skilið en að fara langt fyrir aldur fram vegna erfiðra veikinda. Ég veit og ég trúi því að þú verðir alltaf hjá okkur og munir passa upp á okkur eins og þú sagðir nú sjálfur á sínum tíma.
Að lifa lífinu án þín er ekki eins og er lífið tómt án þín því þú varst svo sannarlega ljósið í lífi mínu. Þú varst minn helsti stuðningur í einu og öllu ásamt því að vera minn besti vinur. Mér finnst svo ósanngjarnt að ég skyldi ekki fá lengri tíma en 21 ár með þér þar sem þú varst besta manneskja í heimi og elska ég þig mest í heimi. Mér finnst einnig svo ósanngjarnt að þú fékkst aldrei að upplifa hluti sem annað fólk fær að upplifa eins og að verða afi, að vera viðstaddur giftingu barnanna þinna og að verða gamall, sem er algjör forréttindi að fá að upplifa á einn eða annan hátt. Þrátt fyrir að þú sért nú farinn frá okkur veit ég að þú átt eftir að vera hjá okkur og styðja okkur á stórum augnablikum í lífi okkar þegar að því kemur.
Elsku pabbi, ég á eftir að sakna alls spjallsins, allra brandaranna, allra utanlandsferðanna, allra ráðanna og sérstaklega þess að fá að knúsa þig. Ég ég veit að nú ertu kominn á betri stað og í burtu frá veikindunum en tilfinningin að lifa lífinu án þín er óhugnanleg og óhugsandi þar sem þú varst og verður alltaf minn allra besti vinur og ég sakna þín meira en allt.
Elsku besti pabbi, ég elska þig og sakna og verður markmiðið í lífinu að gera þig stoltan þangað til ég sameinast þér á ný. Ég mun passa að varðveita þína minningu eins lengi og ég lifi.
Elsku besti paps, ég elska þig mest.
Þín músa,
Guðrún Birta.
Elsku Ingó okkar, það er komið að ótímabærri kveðjustund. Að kveðja þig er þungbærara en nokkuð annað. Þú varst góður drengur, ljúfur, umhyggjusamur og glaðlyndur. Þú hefur alla tíð verið stolt okkar og yndi. Hvíl í friði elsku drengurinn okkar.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Mamma og pabbi.
Í dag kveðjum við ástkæran bróður minn Ingólf Gíslason. Ljúfur drengur ljós og fagur eru orð sem lýsa Ingó bróður mínum einkar vel. Hann var fallegt barn, glaðlyndur og betri bróður er ekki hægt að óska sér. Ingó okkar bjó yfir afar góðum mannkostum. Hann var skarpgreindur, bóngóður og hvers manns hugljúfi og það var alltaf gott að leita til Ingós hvort sem það var til að fá álit hans á tækni eða til að fá aðstoð fyrir börn systur sinnar í stærðfræði. Hann fann út úr því og alltaf átti hann tíma. Ingó talaði fallega um samferðafólk sitt og dæmdi engan. Á milli okkar systkina eru rétt rúmir tólf mánuðir og ég held ég fari rétt með að það hafi vart fallið styggðaryrði okkar á milli í þessi 53 ár.
Ingó gladdist þegar vel gekk hjá öðrum en bauð fram styrk og stuðning þegar á þurfti að halda. Bróðir minn hafði einstaklega góða nærveru, rósemi, hógværð og jafnlyndi og þegar á móti blés tók hann því af æðruleysi og hugrekki.
Missir okkar í fjölskyldunni er mikill, það er ósanngjarnt að þurfa að sjá á eftir okkar besta manni hverfa á braut í blóma lífsins, skarð er höggvið í fjölskyldunni sem ekki verður bætt. Ingó naut þess að ferðast, fylgjast með boltanum og þá sérstaklega liðinu sínu Manchester United en hann var dyggur stuðningsmaður frá unga aldri. Hann var vel lesinn og fróður, sagði skemmtilega frá og húmoristi. Ingó var þó fyrst og fremst fjölskyldufaðir sem var einkar annt um fólkið sitt og var hagur þeirra og velferð alltaf hans helsta markmið. Hann var stoltur af börnunum sínum og Völu sinni sem staðið hafa við hlið hans dag og nótt í erfiðum veikindum. Missir Völu, Gísla og Guðrúnar Birtu er mestur og sárastur. Það lýsir vel hvaða mann bróðir okkar hafði að geyma að þegar hann veiktist beindust áhyggjur hans að velferð Völu, barnanna og foreldra okkar.
Við fjölskyldan syrgjum sárt og söknum, yljum okkur við góðar og ljúfar minningar og þar er af nógu af taka. Til dæmis mun ég í hvert sinn sem ég finn lykt af bræddri ostasamloku minnast þín, það var ótrúlegt hve miklu þú gast torgað af ostasamlokum á uppvaxtarárunum. Við munum líka fylgjast grannt með liðinu þínu Manchester United sem var í uppáhaldi frá því að þú varst lítill polli. Þú naust þess að ferðast og við eigum góðar minningar frá ferðum fjölskyldunnar innan lands sem utan en en fyrst og fremst minnumst við góða og heilsteypta drengsins sem þú varst alla tíð. Hvíl í friði kæri bróðir, þín er sárt saknað.
Ellen (Ella) systir.
Ingólfur bróðir minn er látinn og verður jarðsettur í dag. Ingólfur, alltaf kallaður Ingó, fór alltof snemma frá okkur eftir frekar stutta en harða baráttu við krabbamein. Ingó var yngstur okkar systkina og fyrstu minningar mínar um hann snúast um lítinn ljóshærðan dreng, glaðlyndan og fjörugan. Hann fékk snemma áhuga á fótbolta, spilaði með ÍR fram á unglingsár en lét sér síðan nægja að horfa á enska boltann, elta landsliðið eitthvað út í heim og beintengja símann sinn þannig að það klingdi í honum þegar einhver skoraði mark einhver staðar úti í heimi.
Ingó var einstaklega vandaður drengur, geðgóður, sanngjarn og talaði aldrei illa um neinn, heldur sá alltaf það góða í hverjum og einum, bóngóður og viljugur að taka til hendinni þegar einhvern vantaði hjálp. Ingó var vel lesinn, hafði mörg áhugamál og það var einstaklega gaman að ræða við hann um stjórnmál, sagnfræði, heimspeki og allt milli himins og jarðar. Á yngri árum hafði hugur hans stefnt á að læra viðskiptafræði en fyrir tveimur árum eða svo hafði hann breytt um stefnu og hugði á háskólanám í sagnfræði. Ingó hafði ekki mikinn áhuga á bílum framan af og var þokkalega sáttur ef bíllinn kom honum á milli A og B. Þetta breyttist með rafbílavæðingunni og allt í einu vorum við bræður farnir að ræða kosti og galla rafbíla í tíma og ótíma. Það var einkennandi fyrir hann að þegar hann fékk áhuga á einhverju þá var hann „all inn“ eins og sagt er.
Þegar Ingó og Vala byrjuðu saman og eignuðust Gísla og síðan Guðrúnu Birtu var gaman að fylgjast með þeim. Þau voru samstiga í lífsins ólgusjó. Hjónaband þeirra var gott og farsælt og þau helguðu sig börnunum og gerðu þeim gott og fallegt heimili. Þegar við Magga fluttum aftur í bæinn enduðum við á að flytja í næsta hús við Ingó og Völu og bjuggum þar í 14 ár og við sáumst nær daglega, spjölluðum saman á bílastæðinu, unnum saman í garðinum og ræktuðum vinasamband okkar. Ingó studdi börnin sín með ráðum og dáð og hafði alltaf tíma fyrir þau, hvort sem var að hjálpa þeim með lærdóm eða sækja og skutla.
Síðustu ár ferðuðumst við saman bæði innan- og utanlands. Það er ekki hægt að kveðja Ingó án þess að nefna jafnaðargeðið sem hann hafði, hann kvartaði aldrei yfir sjúkdómi sínum, hann þurfti að fara í nýrnaskipti, hann missti auga og fékk síðan þær fréttir að hann væri með ólæknandi krabbamein. Þessu mætti hann með æðruleysi og jafnaðargeði, hafði meiri áhyggjur af fólkinu í kringum sig og fannst erfiðast að þurfa að segja öðrum slæmar fréttir af heilsu sinni, sönn hetja. Allir þeir sem þekktu hann vita hvaða mannkosti hann hafði og þar sem hann bað mig í banalegunni að það yrðu ekki miklar lofræður þegar hann yrði allur, þá set ég punkt hér.
Elsku Vala, Gísli og Guðrún Birta, missir ykkar er mikill en Ingó mun lifa í hjörtum okkar.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum)
Kveðja,
Jónas og Margrét (Magga)
í Hamrakoti.
Í dag kveð ég elskulegan mág minn, Ingólf Gíslason.
Mig langar til að skrifa nokkrar fátæklegar línur til minningar um Ingó, eins og hann var alltaf kallaður.
Ingó var giftur litlu systur minni, Völu. Oft kemur upp í huga mér þegar Vala kom með Ingó sinn fyrst í heimsókn til okkar í Njarðvík. Mér leist vel á strákinn, ljóshærður og myndarlegur. Ég sá strax að þarna var góður drengur, einstaklega dagfarsprúður og þægilegur í alla staði. Alla tíð hefur verið mikill samgangur hjá okkur systrum.
Elsku Vala, Gísli og Guðrún Birta, ég veit að missir ykkar er mikill. Drottinn vaki yfir ykkur á þessum erfiðu tímum.
Ég fann þetta erindi í afmælisbók fyrir daginn hans Ingós:
Andi þinn á annað land
er nú fluttur burt frá mér.
Bandað hef ég bleikan gand
- ber hann mig á eftir þér.
(Valdimar Benónýsson)
Guðbjörg Þóra Hjaltadóttir.
Elsku Ingó.
Ég er svo þakklátur fyrir að hafa haft þig sem hluta af okkar fjölskyldu og fengið það tækifæri að kynnast þér. Þetta er allt svo óraunverulegt og ósanngjarnt. Þú sem hefur fengið alltof margar krefjandi heilsufarslegar áskoranir í lífinu.
En góðar minningar hverfa ekki, þær munu lifa endalaust og í hjörtum okkar. Þar er úr nægu að taka þegar kemur að þér. Við höfum þekkst í rúm þrjátíu ár eða frá því að þið Vala frænka fóruð að rugla reytum saman. Samverustundir okkar hafa verið ófáar, enda við fylgst mikið að þar sem ég flutti til ömmu og afa á menntaskólaárum. Vala eins og systir mín, enda búandi á sama heimili og stutt á milli okkar í aldri.
Þú varst í alla staði einstakur og með vandaðri mönnum sem ég hef kynnst, mikill fjölskyldumaður og reyndist fjölskyldu þinni vel. Hjálpsemin þér svo eðlislæg og alltaf tilbúinn að hjálpa til ef á þurfti að halda. Sama á hverju gekk, þá hélstu alltaf ró þinni og skiptir ekki skapi. Sagðir samt þína meiningu. Ég mun geyma minningu um mann sem talaði aldrei illa um nokkurn mann, sama hver átti í hlut eða hvað gengið hafði á. Við áttum ófá samtöl um allt á milli himins og jarðar, málefni líðandi stundar. Aldrei tókst þú þátt í kjaftasögum eða barst út slúður, það var bara ekki þú. En fylgdist vel með og komst með áhugaverða punkta inn í umræður af einstakri yfirvegun og vel athuguðu máli. Yfirleitt með jákvæðni að leiðarljósi og uppbyggilega umræðu.
Til ykkar elsku Vala, Gísli og Guðrún þá veit ég að þið munuð eiga dýrmætar og góðar minningar um einstakan mann sem er saknað en gleymist aldrei.
Hugur okkar er hjá ykkur á þessari erfiðu stundu.
Sævar og fjölskylda.
Skarðið er djúpt sem er nú höggvið í þéttan starfsmannahóp Svansprents. Við minnumst Ingólfs sem ljúfs vinar og samstarfsmanns sem leysti öll verkefni af yfirvegun og fagmennsku. Ingólfur var iðulega hrókur alls fagnaðar þegar við lyftum okkur upp í starfsmannagleði innan sem utan landsteinanna. Við hugsum til allra þeirra dýrmætu stunda með hlýju og þakklæti. Minningarnar styrkja okkur í sorginni.
Elsku Vala, Gísli og Guðrún Birta, innilegar samúðarkveðjur sendum við ykkur og fjölskyldunni allri. Minningin um ljúfan dreng lifir.
Með þökkum fyrir allt,
Fyrir hönd Starfsmanna Svansprents,
Sigríður Ólafsdóttir.
Það er sárt og einkennilegt að skrifa minningargrein um kæran vin og vinnufélaga sem kveður alltof snemma. Í rúm 30 ár starfaði Ingólfur Gíslason hjá okkur í Svansprenti og verður hans sárt saknað á fleiri en einn hátt. Hann var lausnamiðaður í starfi sínu sem bókbindari. Starfaði í umhverfi þar sem mikið gekk á en það var eins og það hefði engin áhrif því oftast gekk allt upp á endanum og verkin leyst af sömu yfirvegun og annað sem hann tók sér fyrir hendur. Skipulagning, dugnaður og vinnusemi eru orð sem koma upp í hugann. Að gera við vélar og jafnvel bíla var ekkert mál, oft fékk hann aðstöðu í Svansprenti til þess að gera við bíla Gísla eða Guðrúnar Birtu. Oft reyndist það erfitt en það leystist. Mörgum var hann góð fyrirmynd bæði í vinnu og utan hennar. Hann kenndi mörgum rétt vinnubrögð hvort sem það var við vélar eða handverk. Ingólfur hóf að kenna í Tækniskólanum seinni ár, það kom okkur vinnufélögum hans ekki á óvart því hann var góður í því að leiðbeina. Rólyndi, æðruleysi og húmor voru hans einkennandi þættir. Það var margt hægt að ræða á kaffistofunni um atburði gærdagsins og líðandi stundar og ýmislegt annað. Ingólfur hafði mikinn áhuga á íþróttum. Í seinni tíð kepptum við í því að leysa skákþrautir í símanum og yfirleitt hafði hann mig á þeim vettvangi.
Kæri vinur, takk fyrir allt hið liðna og far í guðs friði.
Sverrir Salberg
Magnússon.
Ég kynntist Ingólfi fyrir réttum tuttugu og fimm árum þegar ég hóf störf sem bókbindari hjá Svansprenti. Við unnum svo saman næstu sextán árin þar til ég hætti þar sumarið 2015. Ég hef verið svo lánsöm að eignast marga góða vinnufélaga í gegnum tíðina en það er á engan hallað þegar ég segi að Ingó var einn af þeim albestu. Yfir rólegu yfirbragði bjó mikill húmoristi sem gat séð spaugilegu hliðarnar á samferðamönnum og málefnum, ekki síður hjá sjálfum sér en öðrum. Hann hafði góða nærveru og var einstaklega traustur, sem varð til þess að honum voru falin ábyrgðarstörf innan fyrirtækisins. Ingó var úrræðagóður og lausnamiðaður, hann eyddi ekki tíma í að finna blóraböggul ef upp komu vandamál, heldur einbeitti sér að því hvernig best væri að leysa málin. Jafnaðargeði hans var viðbrugðið og furðaði ég mig oft á því hversu mikið langlundargeð hann gat sýnt í ýmsum aðstæðum.
Ingólfur var mikill fjölskyldumaður, þau Vala konan hans voru alla tíð einstaklega samhent og flestum stundum utan vinnutíma kaus hann að verja með fjölskyldunni, þeirra missir er mestur.
Fyrir nokkrum árum tók Ingólfur sæti í sveinsprófsnefnd í bókbandi og síðar tók hann að sér, samhliða öðrum störfum, kennslu og umsjón með bókbandsnemum hjá Tækniskólanum. Á vettvangi sveinsprófsnefndarinnar hefur Steve, maðurinn minn, starfað með Ingó undanfarin ár og var gaman þegar við kíktum til hans fyrir nokkru í Tækniskólann þar sem hann sinnti kennslustörfum.
Ingólfur tókst á við veikindi sín af ótrúlegu æðruleysi, með jákvæðni að vopni og studdur af sínu nánasta fólki þegar hvert áfallið af öðru reið yfir.
Við Steve vottum fjölskyldu Ingólfs, Völu, Gísla og Guðrúnu Birtu, okkar dýpstu samúð sem og foreldrum hans og systkinum. Minningin um góðan dreng mun lifa.
Sigrún Gautsdóttir.
Ég kynntist Ingó þegar ég hóf störf í Svansprenti fyrir rúmlega 25 árum en þá hafði hann þegar starfað þar átta árum lengur. Það tókst fljótt á með okkur ágætis kunningsskapur en traust vinátta myndaðist svo hægt og rólega með árunum. Það var hvorki flókið né leiðinlegt að umgangast Ingó því annað eins jafnaðargeð í bland við skemmtilegan og oft lúmskan húmor er vandfundið.
Það er óhætt að segja að Ingó hafi fengið sinn skerf af áskorunum í lífinu og var magnað að sjá hvernig hann tókst á við þær líkt og hvert annað verkefni á lausnamiðaðan hátt og af einstöku æðruleysi.
Þær eru á annan tug utanlandsferðirnar sem við fórum saman. Óhætt er að segja að þær séu hver annarri skemmtilegri á sinn hátt, meira að segja Frankfurt og er það mér til efs að ég kynnist þægilegri ferðafélögum en ykkur hjónum.
Ferðalög til borga sem höfðu mikla sögu að geyma voru oft sérstaklega áhugaverð, það skipti engu máli hvað maður þóttist vita mikið um viðkomandi stað, Ingó hafði yfirleitt alltaf einhverja skemmtilega sögu um staðinn frá einhverju allt öðru sjónarhorni en maður átti von á.
Það er alltaf sárt að kveðja í síðasta skiptið en ferðalögunum er víst lokið í bili.
Takk fyrir: Dublin, Madrid, Búdapest, Düsseldorf, Berlín, Frankfurt, Brighton, Glasgow, Varsjá, Tenerife, Porto, Hellu, Prag og New York.
Takk fyrir 25 ára samstarf. Takk fyrir ógleymanlega vináttu.
Þorgeir Valur Ellertsson.
Mildi og húmor er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við rifjum upp kynni af Ingólfi Gíslasyni sem nú er fallinn frá langt fyrir aldur fram eftir bráð veikindi.
Ingólfur var harðduglegur og einstaklega jákvæður maður sem gaf gott af sér í öllu faglegu starfi og reyndist öllum sem unnu með honum góður og traustur félagi. Ingólfur átti farsælan feril í starfi sínu og vann sér verðuga virðingu á vettvangi bókbands og félagsmála. Hann öðlaðist mikla reynslu og tók sæti í sveinsprófsnefnd í bókbandi árið 2015 og var formaður nefndarinnar síðustu ár. Einnig starfaði hann við kennslu bókbands í Tækniskólanum, sat í trúnaðarráði GRAFÍU frá 2018 fyrir hönd félaga sinna.
Við rifjum upp góðar minningar frá ferðalagi okkar í Iðunni, GRAFÍU og Tækniskólanum til Álaborgar og Kaupmannahafnar á síðasta ári. Það var gott að við gáfum okkur þá tíma til að eyða góðum tíma saman. Við erum þakklát fyrir það. Munum að gleðjast með samstarfsfólki okkar og félögum, lífið er of stutt.
Fjölskyldu hans, vinum og öðru samstarfsfólki vottum við okkar dýpstu samúð.
Georg Páll Skúlason formaður GRAFÍU
og Kristjana
Guðbrandsdóttir,
Iðunni fræðslusetri.
Ég kynntist Ingó fyrir um 30 árum þegar Vala byrjaði að hitta hann, þau urðu mjög fljótt par og nokkrum árum seinna yndisleg hjón, enda pössuðu þau saman eins og flís við rass. Ingó var ljúfur maður með mikla og góða nærveru, frábær pabbi og traustur og góður vinur og eiginmaður, mikill fjölskyldumaður og algjör klettur í þeirra lífi. Ingó og Vala voru mjög samrýnd hjón sem gott var að vera í kringum. Það er óhætt að segja að Vala og Ingó unnu lottóið í ástum, alltaf svo sátt í sínu lífi. Þau eignuðust tvö börn, Gísla og Guðrúnu Birtu, sem bæði eru mjög vönduð og vel gerð.
Það eru forréttindi að eignast vini eins og þau, bæði mjög traust og trú. Það verða allir að eiga einn Ingó og eina Völu í lífinu, það gerir lífið miklu betra og skemmtilegra. Okkar dýrmætasta minning með þeim var brúðkaupið þeirra, fallegasta og fámennasta brúðkaup sem við höfum verið viðstödd, Ingó, Vala og börnin þeirra og ég, Gunni og okkar börn. Svo var haldið til London að fagna og hafa gaman, þetta var yndislegur tími.
Við gerðum margt skemmtilegt saman á þessum 30 árum, en við hefðum gjarna viljað eiga fleiri stundir með þeim. Við kveðjum þennan yndislega vin okkar með miklum söknuði. Elsku besta Vala okkar, Gísli og Guðrún Birta, megi allir englar alheimsins styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum og ykkur öll sem elskuðuð Ingó og saknið.
Rósa og Gunnar
(Gunni).