Það þarf enga mastersgráðu til að sjá að þetta er fullkomlega ósjálfbært ástand og því miður eru yfirgnæfandi líkur á að þetta komi fram í mun hærri verðbólgu á næstu árum ...

Efnahagsmál

Daði Kristjánsson

Framkvæmdastjóri Visku Digital Assets ehf. og M.Sc. í fjármálahagfræði frá Háskóla Íslands

Erfitt virðist reynast að ná niður verðbólgu um þessar mundir, bæði á Íslandi og víða erlendis. Verðbólga í helstu hagkerfum heims hefur verið langt yfir markmiði seðlabanka síðustu misseri. Verðlag á Íslandi hefur hækkað um 6,8% sl. 12 mánuði og er það langt umfram markmið Seðlabanka Íslands sem er 2,5%.
Í síðustu viku voru birtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum þar sem verðbólgutakturinn hækkaði og stendur 12 mánaða verðbólga þar í landi í 3,5% sem er vel yfir 2% markmiði bandaríska seðlabankans.

Gegndarlaus hallarekstur og skuldasöfnun

Hvers vegna er verðbólga vandamál í öllum helstu hagkerfum heims um þessar mundir? Getur verið að gegndarlaus hallarekstur og skuldaaukning hjá flestum ríkjum heims undanfarin ár hafi áhrif til hækkunar á verðbólgu?

Peningaprentvélarnar hafa verið á fleygiferð í Bandaríkjunum frá fjármálahruninu á haustmánuðum 2008 eins og sjá má á peningamagni í umferð (M2) sem hefur nær þrefaldast frá þeim tíma. Skuldasöfnun bandaríska ríkisins hefur aukist enn hraðar og standa skuldir þess í yfir 34.500 milljörðum dollara en voru einungis 10.000 milljarðar dollara í september 2008. Þetta væri kannski eðlileg þróun ef landsframleiðsla væri að vaxa jafn hratt en svo hefur aldeilis ekki verið og er nú svo komið að skuldir Bandaríkjanna eru yfir 120% af landsframleiðslu en þetta hlutfall var um 60% haustið 2008.

Óráðsía í ríkisrekstri kyndir undir verðbólgu

Um þessar mundir er hallarekstur bandaríska ríkisins 6-7% af landsframleiðslu sem eru tölur sem við sjáum jafnan ekki nema á stríðstímum eða þegar hagkerfi lendir í áfalli eins og covid. Fjárlagaskrifstofa Bandaríkjaþings gerir ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri ríkisins samfellt næstu 30 árin og að skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu aukist áfram verulega. Það þarf enga mastersgráðu til að sjá að þetta er fullkomlega ósjálfbært ástand og því miður eru yfirgnæfandi líkur á að þetta komi fram í mun hærri verðbólgu á næstu árum en við höfum áður séð á Vesturlöndum.

Þessi ósjálfbæra þróun sem hér er lýst er nefnilega kunnugleg. Þetta er einmitt sú þróun sem við höfum séð hjá ríkjum eins og Argentínu, Tyrklandi og fleiri löndum sem hafa orðið verðbólgunni að bráð undanfarin ár.

Verðbólga í bitcoin fer undir 1%

Óhætt er að segja að bitcoin-kerfið hagi sér með mjög ólíkum hætti samanborið við hefðbundin peningakerfi. Bitcoin-kerfið keyrir eftir fyrirframákveðinni útgáfuáætlun sem sett var fram við upphaf kerfisins árið 2008. Það var einmitt sú staðreynd sem heillaði mig hvað mest þegar ég fyrst fór á fá áhuga á bitcoin, en kerfið er öruggasta netkerfi í heimi sem er tryggt af milljónum tölva um allan heim. Kerfið er þannig öruggt, dreifstýrt og fyrirsjáanlegt. Það liggur nákvæmlega fyrir hversu margar einingar eru útistandandi og hversu hratt þeim fjölgar í framtíðinni.

Á fjögurra ári fresti helmingast nýmyndun í bitcoin og nú í apríl er einmitt slík helmingun. Eftir breytingu verða því einungis til 450 ný bitcoin á dag, en nýmyndun hefur verið 900 á dag sl. fjögur ár. Þessi breyting felur í sér að verðbólgan í bitcoin-kerfinu fer undir 1% og verður þannig næstu fjögur árin og lækkar svo enn frekar við næstu helmingun.

Vörn gegn verðbólgu

Vísitala neysluverðs á Íslandi hækkaði um 0,8% í mars sl. (breyting á einum mánuði!) og er það sambærileg hækkun og útistandandi magn í bitcoin-kerfinu eykst á heilu ári nú eftir helmingun. Sífellt fleiri sjá hag sinn í að setja hluta af sínum sparnaði í bitcoin enda hefur kerfið eiginleika sem eru eftirsóknarverðir, sérstaklega á tímum þar sem verðbólguáhætta er mikil. Larry Fink, forstjóri stærsta eignastýringarfyrirtækis heims, BlackRock, sagði einmitt í viðtali í fyrra að bitcoin væri vörn gegn verðfalli gjaldmiðla og verðbólgu og nú hefur fyrirtækið byrjað að fjárfesta í bitcoin fyrir sjóði í rekstri þess.