Heimild afurðastöðva í kjötvinnslu til samvinnu gerir þeim kleift að nýta stærðarhagkvæmni og þar með lækka framleiðslukostnað og vöruverð.

Ragnar Árnason

Með breytingu á búvörulögum sem samþykkt var á alþingi 21. mars sl. var afurðastöðvum í kjötvinnslu veitt undanþága frá þeim ákvæðum samkeppnislaga sem lúta að sameiningu, samvinnu og verkaskiptingu fyrirtækja. Þessi breyting hefur vakið hörð viðbrögð vissra hagmunasamtaka sem og Samkeppniseftirlitsins. Þá hefur matvælaráðherra stigið það óvenjulega skref að senda atvinnuveganefnd alþingis sérstakar athugasemdir vegna málsins.

Ég tel að ofangreind viðbrögð sniðgangi meginatriði málsins og ofmeti auk þess áhrif samkeppni á vöruverð. Í þessari grein leitast ég við að útskýra þetta nánar.

Meginatriði málsins

Það er samfélagslegt grundvallaratriði að reka alla atvinnuvegi á eins hagkvæman hátt og unnt er. Það hámarkar tekjur landsmanna og auðlegð þjóðarinnar. Hagkvæmasti rekstur þýðir jafnframt lægsta mögulega framleiðslukostnað og þar með lægsta mögulega vöruverð í landinu.

Alkunna er að nútímatækni í framleiðslu er oft þannig að lægsti mögulegi framleiðslukostnaður krefst tiltölulega stórra fyrirtækja miðað við stærð viðkomandi markaðar. Til að ná sem lægstu vöruverði er því af tæknilegum ástæðum óhjákvæmilegt að notast við tiltölulega stór fyrirtæki.

Stór fyrirtæki geta haft markaðsstöðu umfram það sem fullkomin samkeppni gerir ráð fyrir. Það væri hins vegar þjóðhagslegt glapræði að banna stór fyrirtæki af þessari ástæðu. Þegar fyrirtæki öðlast markaðsaðstöðu í krafti stærðarhagkvæmni eða annarra hagkvæmnisyfirburða þarf einungis að gæta þess að sú markaðsstaða sé ekki misnotuð. Þetta er einmitt verkefni samkeppnisyfirvalda.

Framleiðslukostnaður, samkeppni og vöruverð

Framleiðslukostnaður setur vöruverði neðri mörk. Samkeppni fyrirtækja getur stuðlað að lægra vöruverði en aðeins niður að þessum neðri mörkum. Vöruverð getur aldrei til lengdar verið lægra en framleiðslukostnaður, sama hvað samkeppni er mikil. Nauðsynleg forsenda fyrir lágu vöruverði er því lágur framleiðslukostnaður. Samkeppni er á hinn bóginn hvorki nauðsynleg né nægileg fyrir lágu vöruverði. Í þessum skilningi er lágur framleiðslukostnaður mikilvægari þáttur í að skapa lágt vöruverð en samkeppni.

Það er af þessum ástæðum sem skynsöm samkeppnisyfirvöld beita sér fyrir lækkun framleiðslukostnaðar og forðast að koma í veg fyrir að stærðarhagkvæmni sé nýtt. Þegar markmiðið er sem lægst vöruverð eru það einfaldlega mistök að einblína á samkeppni.

Aðstæður í landbúnaði

Ofangreind lögmál eiga við um íslenskan landbúnað. Í mörgum úrvinnslugreinum landbúnaðar er framleiðslutækni þannig að stærðarhagkvæmni er mikil. Þetta á m.a. við um mjólkurvinnslu og kjötvinnslu. Í báðum þessum greinum lækkar framleiðslukostnaður á hverja einingu stórlega með stærri framleiðslueiningum. Af sögulegum ástæðum hafa afurðastöðvar í þessum greinum til skamms tíma verið smáar og dreifðar um landið. Til að unnt sé að nýta kosti stærðarhagkvæmni og lækka vinnslukostnað er því nauðsynlegt að þessum afurðastöðvum sé ekki bannað að hafa með sér samstarf og sameinast.

Samstarf vinnslustöðva í mjólkurvinnslu

Í upphafi þessarar aldar var mjólkurvinnslan í landinu í svipaðri stöðu og kjötvinnslan er nú. Mjólkurvinnslur voru margar og smáar og framleiðslukostnaður á einingu óþarflega hár. Um mitt ár 2004 var fyrirtækjum í mjólkurvinnslu veitt undanþága frá samkeppnislögum til samstarfs, verkaskiptingar og sameiningar. Afleiðingin var mjög mikil lækkun framleiðslukostnaðar. Hagmælingar benda til þess að á árabilinu 2006-2018 hafi framleiðni (á mælikvarða heildarþáttaframleiðni) í mjólkurvinnslu vaxið um nær 4% árlega að jafnaði. Með tilliti til þess að árleg framleiðniaukning upp á 1% þykir góð er þetta mjög mikil framleiðniaukning yfir svo langt tímabil.

Bæði bændur og neytendur hafa notið góðs af þessari framleiðniaukningu. Bændur hafa fengið miklu hærra verð fyrir innlagða mjólk. Neytendur hafa hagnast með tvennum hætti. Annars vegar hafa þeir notið lægra verðs fyrir mjólkurvörur en ella hefði verið. Hins vegar hefur opinber stuðningur við mjólkurbændur, sem neytendur greiða auðvitað með sköttum, lækkað stórlega á hvern lítra mjólkur.

Undanþága til samvinnu í kjötvinnslu

Engin ástæða er til að ætla að hliðstæð undanþága frá ákvæðum samkeppnislaga hafi aðrar afleiðingar í kjötvinnslu en hún hefur haft í mjólkurvinnslu. Fyrirliggjandi gögn sýna að með samvinnu og verkaskiptingu kjötvinnslustöðva sé unnt að lækka framleiðslukostnað mjög verulega. Hlutlægar aðstæður málsins benda sterklega til þess að þessum ávinningi verði veitt til bænda og neytenda með líkum hætti og gerst hefur í mjólkurvinnslunni. Bændur eru eigendur meginhluta afurðastöðvanna og ráða úrslitum um það verð sem þær bjóða bændum. Á neytendamarkaði eru aðstæður þannig að stór hluti kjötvörunnar er nú þegar innfluttur. Þar að auki er nóg af öðrum staðgönguvörum fyrir kjöt á innlendum neyslumarkaði. Hugsanlegar tilraunir til að hækka verð á kjöti leiða því til miklu minni sölu og eru því ekki vænlegar fyrir kjötvinnslufyrirtækin.

Komi engu að síður í ljós að endurskipulagðar afurðastöðvar leitist við að nota aðstöðu sína til verðstýringar er auðvitað sjálfsagt að Samkeppniseftirlitið grípi í taumana. Samkeppnislög gilda áfram og þar með talið bann við að nýta markaðsstöðu til að lækka verð til birgja og hækka til neytenda. Slíkt verður jafnólöglegt eftir sem áður.

Lokaorð

Málið snýst um það hvort gefa eigi íslenskum landbúnaði tækifæri til að nýta sér nútímatækni og lækka framleiðslukostnað landi og þjóð til heilla, eða hvort negla eigi landbúnaðinn í viðjar úreltra og ósamkeppnishæfra framleiðsluhátta sem mun hækka vöruverð til neytenda. Í þessu samhengi er hugsanlega sterkari markaðsstaða kjötvinnslunnar algjört aukaatriði, enda hægðarleikur fyrir Samkeppniseftirlitið að grípa í taumana sé hún misnotuð.

Höfundur er prófessor emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands.

Höf.: Ragnar Árnason