Grá skífan á nýja Santos-úrinu er lágstemmd og lekker.
Grá skífan á nýja Santos-úrinu er lágstemmd og lekker.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýningin Watches and Wonders hefur náð að stimpla sig rækilega inn sem aðalhátíð svissneskra úraframleiðenda. Viðburðurinn, sem tók við af Baselworld-vörusýningunni, var haldinn í fjórða sinn dagana 9

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sýningin Watches and Wonders hefur náð að stimpla sig rækilega inn sem aðalhátíð svissneskra úraframleiðenda. Viðburðurinn, sem tók við af Baselworld-vörusýningunni, var haldinn í fjórða sinn dagana 9. til 15. apríl og notuðu framleiðendur tækifærið til að frumsýna ný og spennandi úr af öllum mögulegum toga.

Af mörgum merkilegum úrum þetta árið eru nokkur sem bera höfuð og herðar yfir öll hin, og ættu að geta freistað þeirra lesenda ViðskiptaMoggans sem vilja leggja sitt af mörkum til að auka vöruskiptahallann á milli Íslands og Sviss:

Á tveimur stöðum í einu

Það er erfitt að standast Santos-úrið frá Cartier. Kassalaga hönnunin og þykk keðjan skera sig úr og ekki að furða að Santos skuli vera í uppáhaldi hjá mörgum söfnurum. Santos fæst þegar í ýmsum útfærslum en nú hefur Santos kynnt til sögunnar nýtt gangverk sem getur sýnt tímann á tveimur stöðum í einu. Er hér komið fjölhæft úr fyrir heimshornaflakkara sem kunna að meta sígilda naumhyggju.

Vindingin verður að athöfn

Yndislegu nördarnir hjá Grand Seiko létu ekki sitt eftir liggja og kynntu til leiks nýtt gangverk. Hálf öld er liðin síðan Grand Seiko hannaði gangverk sem vinda þarf handvirkt og eins og Japananna er von og vísa er úrið afar nákvæmt og óhætt að láta 80 klukkustundir líða á milli vindinga.

Fyrsta úrið til að fá nýja gangverkið er framleitt úr vandlega pússuðum títaníummálmi og búið að skera fíngert mynstur í skífuna sem vísar til áferðarinnar á birkitrjánum sem vaxa í norðurhluta Japans.

Græni liturinn fer gullinu vel

Þau hjá Vacheron Constantin sýndu að oft þarf ekki mikið til að fá hjartað til að slá örar. Meðal þess sem fyrirtækið sýndi á Watches and Wonders í ár var ný lína af sportúrinu Overseas, úr rósagulli með grænni skífu. Fæst úrið bæði með einföldu dagatali, með skeiðklukku og með skífu sem sýnir tvö tímabelti.

Dagarnir taldir í tvöþúsund ár

Verkfræðiafrek sýningarinnar í ár hlýtur að vera Portugeiser Eternal Calendar with Moon Phase frá IWC Schaffhausen. Úrsmiðir félagsins notuðust við ofurtölvu til að hanna gangverk sem leiðréttir fyrir hlaupári af slíkri nákvæmni að ekki þarf að eiga við dagatal úrsins fram til ársins 3999. Þann hluta gangverksins sem sýnir gang tungslins þarf ekki að stilla fyrr en eftir 45 milljón ár sem er nýtt met og rúmlega það.

Út fyrir öll velsæmismörk

Nýjungarnar frá Rolex voru ekki alveg jafn spennandi í ár og í fyrra. Þó verður að minnast á nýjan Rolex Deepsea úr gulli. Þetta volduga kafaraúr er vatnshelt niður á allt að 3.900 metra dýpi – sem er miklu dýpra en nokkur kafari gæti þolað. Deepsea er mikill hlunkur, eins og við er að búast, og því freistandi að halda að það sé einhvers konar svissneskur húmor að setja á markað útgáfu úr gegnheilu 18 karata gulli enda er gullmálmurinn um 2,5 sinnum þyngri en stálið sem Rolex hefur notast við til þessa. Gull-Deepsea er því úr sem ekki mun fara fram hjá neinum, síst af öllum þeim sem hefur það á úlnliðnum.

Blár og gylltur léttleiki

Það var margt um áhugaverða gripi á básnum hjá Tag Heuer, en eitt eigulegasta úrið frá þeim þetta árið er gullútgáfa af Carrera Chronograph Skipper. Þetta úr var þegar fáanlegt í stáli, en rósagullið gerir heilmikið fyrir þennan 39 mm kostagrip og rímar afskaplega vel við bláa litinn í skífunni og ólinni. Eini gallinn er sá að gullið kostar sitt og gerir úrið meira en þrefalt dýrara.

H. Moser hnyklar vöðvana

Það var mikið gæfuspor þegar athafnamenn tóku sig til árið 2005 og endurvöktu merkið H. Moser & Cie. Þetta tiltölulega litla fyrirtæki framleiðir í kringum 3.000 úr ár hvert og er slegist alveg sérstaklega um karlmannlegu Streamliner-sportúrin. Ný beinagrindarútgáfa af Streamliner var frumsýnd í Genf fyrr í mánuðinum og er þetta kröftuga úr löðrandi í testósteróni og túrbillon-gangverkið er punkturinn yfir i-ið.