Togararall Togararall hefur farið fram tvisvar á ári frá 1985, en niðurstöður þess eru meðal þeirra gagna sem notuð eru við mat á stofnstærð botnfiska.
Togararall Togararall hefur farið fram tvisvar á ári frá 1985, en niðurstöður þess eru meðal þeirra gagna sem notuð eru við mat á stofnstærð botnfiska. — Ljósmynd/Hafrannsóknastofnun/Svanhildur Egilsdóttir
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Það er eins fjarri og hugsast getur að við séum bara að nota togararallið við mat á stofnstærð botnfiska,“ segir Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í samtali við Morgunblaðið, en hann bregst þannig við grein Guðlaugs Jónssonar sjómanns sem birtist í blaðinu í gær og vísar gagnrýni hans algerlega á bug.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það er eins fjarri og hugsast getur að við séum bara að nota togararallið við mat á stofnstærð botnfiska,“ segir Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar í samtali við Morgunblaðið, en hann bregst þannig við grein Guðlaugs Jónssonar sjómanns sem birtist í blaðinu í gær og vísar gagnrýni hans algerlega á bug.

Þar vefengir Guðlaugur veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í botnfiski sem hann segir byggjast alfarið á niðurstöðum togararalla sem fram fara árlega. Hann bendir m.a. á að Norðmenn telji botntroll eitt og sér ekki nothæft til slíkra mælinga.

Þorsteinn segir að nákvæmlega sömu aðferðum sé beitt hér við land og Norðmenn gera, eins og um 90% þeirra sem meta stofnstærð botnfiska í heimshöfunum geri. Hann segir að notast sé við niðurstöður úr tveimur röllum og einnig stuðst við gögn úr veiðum skipa. Þessar upplýsingar séu metnar saman.

„Það að eitthvað af fiskinum fari undir fótreipið og bobbingana er ekki stóra málið, heldur erum við að nota sama veiðarfærið í ár og við notuðum fyrir 40 árum,“ segir hann og vísar til þess að farið hefur verið í togararöll frá árinu 1985.

„Við erum þannig með sama tommustokkinn í ár og 1985. Ef það sleppur fiskur undir, eins og gerist vissulega, þá gerum við ráð fyrir að það sé í sama hlutfalli á milli ára,“ segir hann.

Þorsteinn bendir og á að togararall fari alltaf fram í sömu mánuðum, en togað er á 1.000 stöðum á tveimur tímabilum yfir árið, 600 að vori og 400 að hausti. Hann bendir á að í ljósi fjölda togstöðvanna sé ekki hægt að vera á hverri og einni á sömu mínútunni ár eftir ár, enda séu margar breytur í þessu máli. Af því að fjöldi stöðvanna sé jafn mikill og raun ber vitni jafnist breytileiki út.

„Við tökum þúsund stöðvar kringum landið til að reyna að átta okkur á þessu og við göngum út frá því að breytileiki í veðri, tungli og dagsetningum jafnist út í ljósi þess hve verkefnið er umfangsmikið. Væru stöðvarnar tvær eða tíu þyrftum við að horfa á þetta með öðrum augum,“ segir Þorsteinn Sigurðsson.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson