Þrenna Viktor Jónsson skoraði þrjú mörk á tíu mínútum.
Þrenna Viktor Jónsson skoraði þrjú mörk á tíu mínútum. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
Viktor Jónsson sóknarmaður ÍA var besti leikmaðurinn í annarri umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins. Viktor fór hamförum á tíu mínútna kafla þegar ÍA vann HK, 4:0, í Kórnum á sunnudaginn og skoraði þá þrjú mörk

Viktor Jónsson sóknarmaður ÍA var besti leikmaðurinn í annarri umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.

Viktor fór hamförum á tíu mínútna kafla þegar ÍA vann HK, 4:0, í Kórnum á sunnudaginn og skoraði þá þrjú mörk. Þetta var hans fyrsta þrenna í efstu deild og sú fyrsta sem leikmaður ÍA skorar í deildinni í átta ár.

Þá eru sextán ár síðan leikmaður skoraði síðast þrennu á tíu mínútum í deildinni en það var danski framherjinn Iddi Alkhag sem skoraði þrennu á tíu mínútum fyrir HK í sigri á Val, 4:2, árið 2008.

Viktor er 29 ára gamall framherji, uppalinn hjá Víkingi í Reykjavík og lék þar til 2016. Hann hafði þá verið tvö tímabil í láni hjá Þrótti í Reykjavík og fór aftur þangað og spilaði með liðinu 2017 og 2018. Viktor hefur síðan leikið með ÍA frá 2019.

Tvisvar markakóngur

Hann hefur verið sérstaklega iðinn við markaskorun í 1. deild og varð markakóngur hennar með Þrótti árið 2018 þegar hann skoraði 22 mörk og aftur í fyrra þegar hann skoraði 20 mörk fyrir ÍA.

Annað mark Viktors í leiknum við HK var hans 100. mark í deildakeppninni. Þau eru nú 101 talsins, þar af 79 í 1. deild og 22 í úrvalsdeildinni.

Þetta var 99. leikur Viktors í efstu deild, frá því hann lék þar fyrst með Víkingi árið 2011, skömmu fyrir 17 ára afmælisdaginn, en hann á að baki 106 leiki í 1. deildinni.

Viktor Karl valinn aftur

Viktor fékk tvö M í einkunn hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína gegn HK og var eini leikmaður Bestu deildarinnar sem fékk þá einkunn í annarri umferð. Hann er að sjálfsögðu í fararbroddi í úrvalsliði 2. umferðar sem má sjá hér fyrir ofan.

Í liðinu er aðeins einn leikmaður sem var valinn i úrvalslið 1. umferðar, Viktor Karl Einarsson úr Breiðabliki. Samtals hefur því 21 leikmaður verið valinn í lið 1. og 2. umferðar til þessa.