Ísrael Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, fundaði í gær með Netanjahú í Jerúsalem.
Ísrael Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, fundaði í gær með Netanjahú í Jerúsalem. — AFP/Gil Cohen-Magen
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í gær að Evrópusambandinu og bandamönnum þess bæri skylda til þess að herða á viðskiptaþvingunum sínum gegn klerkastjórninni í Íran eftir loftárás þeirra á Ísrael um síðustu helgi

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í gær að Evrópusambandinu og bandamönnum þess bæri skylda til þess að herða á viðskiptaþvingunum sínum gegn klerkastjórninni í Íran eftir loftárás þeirra á Ísrael um síðustu helgi. Vísaði Macron þar sérstaklega til refsiaðgerða gegn eldflauga- og drónaframleiðslu Írana.

Utanríkisráðherrar aðildarríkja ESB funduðu í gær í Brussel vegna árásarinnar og sammæltust þar um að herða á þeim refsiaðgerðum sem nú þegar hafa verið settar á Íran vegna sölu þeirra á sjálfseyðingardrónum til Rússlands.

Ráðherrarnir skoruðu einnig í yfirlýsingu sinni eftir fundinn á „alla aðila“ að sýna stillingu og forðast aðgerðir sem gætu ýtt undir frekari spennu í Mið-Austurlöndum.

Var yfirlýsingin túlkuð sem sérstök skilaboð til Ísraelsstjórnar, en ráðamenn á Vesturlöndum hafa reynt að letja þá til að hefna fyrir árásina á laugardaginn.

Ísraelar taki eigin ákvarðanir

Utanríkisráðherrar Bretlands og Þýskalands, þau Cameron lávarður og Annalena Baerbock, funduðu í gær með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í Jerúsalem.

Sagði Netanjahú á fundinum að hann væri þakklátur fyrir ráðgjöf beggja ríkja, en að Ísraelsmenn myndu taka sínar eigin ákvarðanir og gera allt sem þyrfti til þess að verja sig gegn árásum.

Cameron lávarður sagði eftir fundinn með Netanjahú að hann teldi augljóst að Ísraelsmenn hefðu ákveðið að svara loftárásinni og að Bretar vonuðust til að það svar myndi auka spennuna eins lítið og mögulegt væri. Sagði Cameron við blaðamenn eftir fundinn að Bretar litu á árásina sem tvöfaldan ósigur fyrir Írana.

„Ekki bara misheppnaðist árás þeirra nær algjörlega, heldur getur restin af heimsbyggðinni nú séð hversu slæm áhrif þeir hafa á heimshlutann,“ sagði Cameron.

Baerbock sagði eftir fundinn að Mið-Austurlönd mættu ekki lenda í aðstæðum þar sem niðurstaðan væri „algjörlega ófyrirsjáanleg“. „Allir verða nú að hegða sér af ábyrgð. Ég er ekki að tala um uppgjöf, ég er að tala um að sýna viðeigandi stillingu,“ sagði Baerbock.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson