Sveinbjörn Sverrisson fæddist á Höfn í Hornafirði 25. júlí 1930. Hann lést 7. apríl 2024 á Hjúkrunarheimilinu Skjólgarði.

Foreldrar hans voru Sverrir Halldórsson verkamaður, f. 18.5. 1880 á Syðri-Fljótum í Meðallandi, d. 13.9. 1932, og eiginkona hans, Sigurbjörg Gísladóttir húsmóðir, f. 21.10. 1894 á Hnappavöllum í Öræfum, d. 25.12. 1989.

Systkini Sveinbjörns eru Gísli, f. 1923, d. 1941, Halldór, f. 1925, d. 2003, Ingibjörg, f. 1926, d. 2018, Ólöf, f. 1927, Svava, f. 1933.

Sveinbjörn kvæntist 20.7. 1957 Ásdísi Olsen frá Neskaupstað, f. 17.7. 1935. Foreldrar hennar voru Lárus Ingvar Olsen, f. 1901, d. 1980, og Árný Stefanía Stefánsdóttir, f. 1907, d. 1993. Fósturforeldrar Ásdísar voru Sveinn Kristinn Olsen, f. 1900, d. 1966, og Ingveldur Sveinsdóttir, f. 1904, d. 1979.

Börn Sveinbjörns og Ásdísar eru:

I) Inga Kristín, f. 1958, maki Björn Þór Ármannsson, börn: 1) Ólöf Þórhalla, maki Aðalsteinn Ingólfsson, börn: a) Siggerður, maki Sævar Knútur Hannesson, synir: Hilmar Örn og Aðalsteinn Ingi. b) Inga Kristín, sambýlismaður Bruno Andrade. c) Guðrún Ása. d) Aníta, sambýlismaður Hafþór Logi Heiðarsson. e) Aðalsteinn. 2) Ármann Smári, maki Guðrún Lind Gísladóttir, börn: a) Andrea Kristín, kærasti Andri Þór Einarsson. b) Elín Birna. c) Björn Elí.

II) Sigurbjörg, f. 1960. Börn hennar og Páls Ólafssonar: 1) Sveinbjörn, maki Hanna Rós Jónasdóttir, synir: Baldur Brynjar og Egill Hrafn. 2) Rósa Dröfn, maki Guðjón Birgir Jóhannsson, börn: Jóhann Páll og Elísa Dröfn. c) Ásdís, sambýlismaður Snorri Geir Ríkharðsson.

III) Svava Ingibjörg, f. 1967, maki Garðar Eðvald Garðarsson, börn: 1) Stella (móðir Sigrún Jónsdóttir). 2) Garðar, maki Asako Vera Berwert, sonur: Árni Tatsuru. 3) Ásbjörn, sambýliskona Magnea Haraldsdóttir. 4) Ásdís Olsen.

IV) Sverrir Hannes, f. 1969, maki Helena Rós Einarsdóttir. Dætur: María, Silja Hrönn og Freyja Rós.

Sveinbjörn ólst upp á Höfn í Hornafirði. Hann byrjaði í útgerð ásamt öðrum en fór síðan í Iðnskólann í Reykjavík við Tjörnina árið 1953. Þar stundaði hann nám í vélsmíði og kláraði það nám í nýbyggðum iðnskóla á Skólavörðuholtinu. Samninginn tók hann hjá Björgvini Friðriksen í Reykjavík og var meðal annars sendur víða um land til að setja upp frystitæki. Hann bjó í Reykjavík í 4 ár og eftir það flutti hann til Hafnar. Árið 1959 stofnaði Sveinbjörn vélsmiðjuna Neista ásamt öðrum en rak hana lengst af einn. Árið 1969 hætti hann verkstæðisrekstri og hóf störf hjá Fiskimjölsverksmiðju Hornafjarðar sem hann tók þátt í að byggja upp, meðal annars með því að taka niður búnað víðsvegar um land og setja upp á Hornafirði. Það sem eftir var af starfsævinni starfaði hann við fiskimjölsverksmiðjuna eða til 73 ára aldurs.

Sveinbjörn tók að sér ýmis verkefni í þágu samfélagsins, meðal annars var hann í slökkviliði Hornafjarðar, hreppsnefnd og sóknarnefnd ásamt því að vera lengi í stjórn verkalýðsfélagsins Jökuls í Austur-Skaftafellssýslu.

Útför Sveinbjörns fer fram frá Hafnarkirkju 18. apríl 2024 og hefst klukkan 14.

Elsku besti afi minn, þó að maður þekki lífsins gang þá er svo sárt að hugsa til þess og upplifa að manneskjan sem alltaf hefur verið hér er það ekki lengur. Það vantaði bara nokkra klukkutíma upp á það að þú myndir fylgja mér í nákvæmlega 49 ár. Mitt fyrsta lögheimili var hjá þér og ömmu á Kirkjubrautinni og svo seinna eftir að ég var flutt annað þá var ég nú ansi oft með annan fótinn hjá ykkur og stálumst við oft saman í búrið í smákökustaukana, suðusúkkulaði eða rúsínur. Mér fannst rosalega gaman að skreppa með þér á rúntinn á hinum ýmsu farartækjum, bæði þínum og úr bræðslunni, og þar voru grænu vörubílarnir í uppáhaldi. Og allar ferðirnar upp í land að líta eftir kindunum og gæsunum og svo að flytja fé út í Mikley á sumrin og sækja það á haustin. Þú passaðir alltaf upp á mig án þess að gera það með látum, eins og þegar ég var sex ára þá fórst þú einn daginn í járnvörudeildina og keyptir handa mér mitt fyrsta tvíhjól, appelsínugulan fák sem ég hjólaði á í mörg ár. Þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa ef ég bað þig, að tengja þvottavélar og annað.

Það gladdi þig mjög þegar ég fékk lóð á Litlatúni sem var tún sem þú og þín fjölskylda áttuð fyrir löngu, þú vildir byggja þitt hús á því túni en fékkst neitun frá hreppnum og fannst þér alveg frábært að mörgum árum síðar hefði ég fengið lóð á Litlatúni.

Megi allar góðar vættir hjálpa ömmu og öllum hinum í gegnum sorgina, við hittumst aftur síðar, elsku afi minn.

Þótt döpur sé nú sálin,

þó mörg hér renni tárin,

mikla hlýju enn ég finn

þú verður alltaf afi minn.

(Höf. ók.)

Ólöf Þórhalla.

Þá hefur hann lokið sinni löngu ævi, afi Sveinbjörn á Kirkjubrautinni.

Blessuð sé minning hans.

Ég var mikið búinn að brasa með afa í hinu og þessu bæði heima við og á flandri. Til dæmis á bát úti í firði, þar sem hann þuldi upp fyrir manni öll nöfn eyja og skerja í firðinum, kenndi manni helstu handbrögð við silungsveiði í net og að stýra bát með „rassmótor“. Þau amma voru líka með gæsakofa „uppi í landi“ og átti maður ófáar ferðirnar með þeim upp eftir, sitjandi aftur í bláu Súkkunni. Þá gáfum við gæsunum gamla bakarísbrauðið úr svörtum ruslapoka, en það var oft gæðaprófað af undirrituðum áður en gæsirnar fengu að smakka. Afi hafði gott lag á gæsunum og kallaði á þær úr móanum. Komu þær vaggandi og vissu að góðs væri að vænta.

Afi hafði alltaf sínar sterku sjálfstæðisskoðanir og gat rætt málin við gesti og gangandi. Á sinn mjög sannfærandi hátt lagði hann manni lífsreglurnar við eldhúsborðið heima, hvernig maður ætti að bera sig að við hitt og þetta. Maður var kannski ekki alltaf alveg á sömu skoðun í fyrstu, en svo varð þetta manni oft deginum ljósara þegar tíminn leið. Hann lagði mikla áherslu á að mennta sig, sem maður hefur búið að alla tíð. Afi var líka mjög frændrækinn, hafði mjög gaman af því að segja manni frá skyldmennum okkar, sem voru þá hin og þessi nöfn héðan og þaðan úr samfélaginu og þjóðfélaginu almennt. Það var oft ótrúlegasta fólk sem var skylt manni á einn eða annan hátt.

Það er mjög minnisstætt hvern háttinn afi hafði á því að kveðja eftir heimsóknir. Stundum, þegar afa fannst hann hafa lokið erindagjörðum sínum í ófáum heimsóknum hans til okkar, þá kvaddi hann heimafólk, skutlaðist fram í forstofu, í skóna, kallaði „Ásdís! ég er farinn!“ og rölti svo út í bíl. Ekki leið svo á löngu þar til það heyrðist jafnvel eitt til tvö bílflaut að utan, en þá fannst honum amma ekki vera nægilega fljót að kveðja.

Alveg fram á síðasta dag hafði hann mikinn áhuga á að heyra hvernig okkur vegnaði í lífinu. Það var honum mjög mikilvægt allir fjölskyldumeðlimir væru við góða heilsu, að við ættum okkar eigin húsnæði, hefðum góða vinnu og störfuðum með góðu fólki, eða „góðum körlum“ eins og hann orðaði það yfirleitt. Þegar þetta var allt klárt, þá snerum við okkur að öðrum málefnum.

Takk afi.

Sveinbjörn Pálsson.

Milli okkar Sveinbjörns frænda míns var eins og lægi ósýnilegur þráður. Frá barnæsku var ég meðvitaður um að þessi myndarlegi maður í bláum vinnugalla og með olíubletti á höndunum, bróðir hennar mömmu, væri einn af þeim sem maður gat treyst. En eðlilega þurfti maður að vinna fyrir því sjálfur að ná hans trausti. Við bræðurnir og vinir okkar tókum stundum glæfralegar ákvarðanir við smíði á flekum til þess að sigla um fjörðinn en Sveinbjörn fylgdist með okkur og tók ólánlegustu fleyin úr umferð áður en þeim var hleypt af stokkunum. Það var lærdómsríkt. Árni Stefán bróðir minn fékk sinn besta skóla með því að vinna með Sveinbirni í bræðslunni og sjálfur naut ég leiðsagnar hans þar um stund. Sveinbjörn ákvað sjálfur ungur að ganga menntaveginn sem ekki þótti sjálfsagt þá.

Sveinbjörn varð fljótt einn af máttarstólpum byggðarlagsins á Höfn og þátttakandi í atvinnuuppbyggingu, bæði til sjós og lands. Hann kom að útgerð um tíma, var einn af stofnendum Fiskiðjunnar og stofnaði vélsmiðju sem tók að sér vélaviðgerðir og nýsmíði. Var enda lærður vélsmiður og lagði miðstöðvarlagnir í ófá hús á Höfn og í sveitunum. Mestan hluta starfsævinnar helgaði hann sig þó starfi hjá Fiskimjölsverksmiðju Hornafjarðar.

En Sveinbjörn var einnig mikill félagsmálamaður þótt hæglæti og fáguð framkoma hans benti stundum til annars. Hann var líklega ekki einn af þeim sem halda þrumuræður í félagsstarfi sínu en þótti drjúgur og þrautseigur á margan annan hátt. Hann var um tíma í forystusveit Verkalýðsfélagsins Jökuls, sat í samninganefndum félagsins og tók þátt í að stofna sjómannadeild og síðar deildir iðnsveina og málmiðnaðarmanna. Sveinbjörn tók virkan þátt í félagsstörfum á vettvangi sveitarstjórnar og sat einnig lengi í sóknarnefnd. Honum var Hafnarkirkja kær og þótti vænt um að Sigurbjörg Gísladóttir móðir hans ánafnaði sóknarnefnd ræktunarland sitt undir kirkjubyggingu og kirkjugarð.

Þegar Ólöf og Svava systur hans réðust í það með eiginmönnum sínum Þórhalli Dan Kristjánssyni og Árna Stefánssyni að byggja nýtískulegt hótel á Höfn á sjöunda áratugnum var ekki ónýtt að hafa Sveinbjörn með í því verkefni. Hann sá alfarið um allar pípulagnir og lagði ómælda vinnu í verkefnið.

Það var gott að vita af Sveinbirni jafnvel þótt maður hefði getað ræktað sambandið við hann enn betur. Í seinni tíð fann ég oft fyrir stuðningi hans og áhuga á því sem ég var að gera. Það var mér ómetanlegt. Hann var líka ákaflega minnugur og gat miðlað mörgu um líf fólks um miðbik síðustu aldar. Hann þekkti alla gömlu sveitunga sína og gat sagt frá þeim af mikilli nákvæmni en talaði aldrei niðrandi um nokkurn mann.

Þótt þráðurinn sé nú slitinn er ég ekki í vafa um að Sveinbjörn Sverrisson verður mér lengi enn fyrirmynd um mannlega hegðun, samskipti og tilgang lífsins. Það kunni hann upp á tíu. Ekki spillir að eiga að þann frændgarð og þá mögnuðu fjölskyldu sem kveður nú hinn aldna höfðingja og ættföður. Við Guðrún flytjum Ásdísi Olsen og þeim öllum góðar kveðjur.

Gísli Sverrir
Árnason.