Ásrún Matthíasdóttir
Ásrún Matthíasdóttir
Í dag veitir okkur ekki af að fá forseta sem getur sameinað ólíka hópa og jafnvel gert okkur ánægð með að vera Íslendingar

Ásrún Matthíasdóttir

Það getur verið flókið að velja sér forseta, sérstaklega þegar úr mörgum góðum kostum er að velja. Það er auðvelt að vinsa úr þá frambjóðendur sem þú vilt alls ekki, það er erfiðara að velja á milli nokkurra góðra kosta. Það er hægt að setja sér margs konar viðmið og skilyrði til að auðvelda valið, s.s. manngæska, hjartahlýja, réttsýni, skynsemi, góður húmor, skemmtileg framkoma, stuðningur við umhverfismál, þekking á stjórnsýslu og utanríkismálum eða einfaldlega bara góð manneskja. Síðan er hægt að máta frambjóðendur við skilyrðin og reyna að fækka þannig í hópnum þar til eitt stendur eftir.

Ég hef eins lengi og ég man stutt við konur þegar ég hef getað, hvort sem það eru nemendur mínir, samstarfskonur, rithöfundar, tónlistarkonur, stjórnmálakonur eða aðrar samferðakonur. Það eru frambærilegar konur í framboði núna og þótt mér lítist ekki vel á þær allar þá eru kannski ein til tvær sem kæmu til greina sem forseti að mínu mati. En það eru líka tveir frambærilegir karlar í framboði sem mér finnst vel koma til greina. Því er mér mikill vandi á höndum, það er erfitt að beina sjónum frá konunum yfir á karlana. Ég er ekki vön að þurfa að gera það.

En eftir að hafa skoðað frambjóðendur vel tók ég þá ákvörðun að kjósa Baldur á Bessastaði. Ég tel að Baldur hafi reynslu og þekkingu sem mun nýtast vel í starfi sem forseti og að hann verði okkur til sóma í því embætti. Störf hans og rannsóknir einkennast af metnaði og frumleika og hafa haft áhrif innanlands og utan. Í dag veitir okkur ekki af að fá forseta sem getur sameinað ólíka hópa og jafnvel gert okkur ánægð með að vera Íslendingar. Ég veit að Baldur muni stuðla að því.

Höfundur er lektor við Háskólann í Reykjavík.

Höf.: Ásrún Matthíasdóttir