Taka þarf áætlunum og áformum með varúð á ótryggum tímum

Sigurður Ingi Jóhannsson kynnti fimmáraáætlunina á þriðjudag, þó rétt sé að minna á að hinn nýbakaði fjármálaráðherra ber minnsta ábyrgð á henni. Þetta var svona þegar hann kom.

Það er sjálfstætt athugunarefni, hvers vegna þessi langþráða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029 tafðist svo ákaflega. Hvort sem ástæðan er pólitísk eða fjárhagsleg, þá er hana ekki að finna í áætluninni, þar kemur fátt á óvart.

Ekkert lát er þannig á ríkisútgjöldum í fjármálaáætlun, en þrátt fyrir að þar sé boðað ótilgreint aðhald upp á heila 25 milljarða króna er gert ráð fyrir frekari hallarekstri ríkisins til ársins 2028.

Við blasir að ekki verður gengið til alþingiskosninga síðar en haustið 2025, mögulega fyrr. Ráðherrar hins nýja ráðuneytis Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra keppast því við að minna á að stjórnin hafi lítinn tíma til stefnu en mörg brýn verkefni.

Þegar þeir tala um eigin málaflokka og ráðuneyti virðist þeim þó ekki duga að láta hendur standa fram úr ermum, heldur skal teygja lúkurnar alla leið ofan í vasa skattgreiðenda, að því er virðist undir kjörorðunum „Það er nóg til.“

Margur hyggur auð í annars garði og hugsanlega lætur ríkisstjórnin stýrast af því. Væri henni þó nær að taka almenning sér til fyrirmyndar, því heimilin í landinu hafa brugðist vel og skynsamlega við aðsteðjandi efnahagsóvissu, verðbólgu og háum vöxtum. En þau eru örugglega ekki að herða ólina til þess að stjórnmálamenn dæli fé í gæluverkefni sín.

Það var ekki traustvekjandi að heyra ráðherra í hinu nýja ráðuneyti fara í liðinni viku með stuttan formála um ábyrgð í ríkisfjármálum og viðureign við verðbólgu, en útskýra í næstu setningu að tugmilljörðum til viðbótar yrði varið til enn dýrari borgarlínu en nokkru sinni, eins og kostnaðurinn sé orðinn markmiðið í því misheppnaða verkefni. Að ógleymdri þjóðarhöllinni sem enn einu sinni er kynnt til sögunnar.

Sagt er að stjórnmál séu listin að múta kjósendum með þeirra eigin peningum, en af biturri reynslu þekkja menn að það er á kosningavetri sem stjórnvöldum er útbærast fé með kosningavíxlum sem falla á borgarana síðar. Slík atkvæðakaup eru auðvitað sérstaklega freistandi ef fylgi stjórnarflokkanna er dræmt. Líkt og nú er raunin.

Aðeins af þeirri ástæðu þarf að taka fjármálaáætluninni, svo sem hún nú er, af nokkurri varúð ef ekki tortryggni.

Lítið er gert úr nýjum skattbreytingum í fjármálaáætluninni, þær hafi flestar verið áður kynntar. Þó er nefnt í framhjáhlaupi að stjórnvöld hafi samþykkt að innleiða svokallaðan „alheimslágmarksskatt“ hér á landi á síðari hluta næsta árs. Það er 15% lágmarksskattur á fjölþjóðafyrirtæki, óháð því hvar þau starfa.

Gott er til þess að vita að skattalögsagan skuli þá ekki aðeins bundin við okkar litla sólkerfi, en skattur þessi er lagður á samkvæmt samkomulagi fjölda ríkja, að sögn fjármálaráðherra í þeim tilgangi að „koma í veg fyrir að fjölþjóðafyrirtæki geti lágmarkað skattgreiðslur með tilfærslu hagnaðar til lágskattaríkja og jafna þannig stöðu fyrirtækja almennt.“

Ekki er að efa að það er allt gert af góðum hug um jafna stöðu fyrirtækja almennt, þó að vísu játi fjármálaráðherra að gert sé ráð fyrir að innleiðing skattsins skili ríkinu auknum skatttekjum á árinu 2026.

En það má gera athugasemdir við það að hér séu innleiddir skattar samkvæmt alþjóðlegu samkomulagi, sem er eilítið á skjön við stjórnarskrána og fjárveitingavaldið. Af hverju ættu 15% skattar að vera ófrávíkjanlegt lágmark á skatti á slík fyrirtæki? Kynni það ekki að skapa samkeppnisvandamál?

Að ekki sé minnst á siðferðislegar spurningar um í hvaða krafti ríkisvaldið viðhafi víðtækar valdheimildir til þess að sporna við samkeppnishömlum og fákeppni, en bindist svo alþjóðasamtökum við önnur ríki um samkeppnishömlur og verðstýringu í krafti einokunar og hringamyndunar þegar kemur að skattheimtu.

Úr því sem komið er kann þó að vera rétt að láta reyna á alheimsskattinn, en til þess að jafna stöðu fyrirtækja almennt þyrfti jafnframt að færa tekjuskatt lögaðila að hinu alþjóðlega viðmiði um 15%. Það væri efni í aðra og betri fjármálaáætlun.