Sóttvarnir Kíghósti er ekki bráðsmitandi en ung börn eru viðkvæm fyrir einkennum. Bólusetningar skipta máli.
Sóttvarnir Kíghósti er ekki bráðsmitandi en ung börn eru viðkvæm fyrir einkennum. Bólusetningar skipta máli. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ólafur Pálsson olafur@mbl.is Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir embættið hafa vakið athygli lækna sérstaklega á því að kíghósti hafi greinst hér á landi nýlega. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að einkenni kíghósta séu með þeim hætti að læknar þurfi sérstaklega að hugsa til öndunarfærasýkingarinnar til þess að átta sig á því að prófa fyrir henni. „Í dag er kíghósti ekki inni í almennum „öndunarfærapanel“ en rætt er um að breyta því.“

Viðtal

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir segir embættið hafa vakið athygli lækna sérstaklega á því að kíghósti hafi greinst hér á landi nýlega. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að einkenni kíghósta séu með þeim hætti að læknar þurfi sérstaklega að hugsa til öndunarfærasýkingarinnar til þess að átta sig á því að prófa fyrir henni. „Í dag er kíghósti ekki inni í almennum „öndunarfærapanel“ en rætt er um að breyta því.“

Tvö smit en grunur um fleiri

Tvö staðfest smit tengdra einstaklinga greindust á höfuðborgarsvæðinu í fyrstu viku aprílmánaðar. Guðrún segir uppi grun um fleiri smit en ekkert sé staðfest í þeim efnum. Ekki sé talið að smitin megi rekja til ferðalaga milli landa.

Kíghósti berst með úðasmiti, til dæmis í gegnum hnerra eða hósta, líkt og aðrar öndunarfærasýkingar. Guðrún segir að oft geti liðið nokkur tími þar til einkenni koma fram eða allt að tvær vikur en þau geti verið viðvarandi í nokkrar vikur og allt upp í tvo mánuði.

Yngstu börnin viðkvæmust

Ung börn eru viðkvæm fyrir einkennum kíghósta að sögn sóttvarnalæknis. „Þessi hósti getur verið mjög slæmur og getur valdið öndunarstoppi, sérstaklega í litlum börnum þar sem öndunarvegurinn er þröngur. Börn geta líka fengið slæma lungnabólgu og einkennin geta haft áhrif á heilann.“ Þannig segir Guðrún aðaláhersluna vera á að verja yngstu börnin.

Gefa ráð og bólusetja

Guðrún segir að ekki sé viðhöfð mikil smitrakning í tilfelli kíghóstasmita. Segir hún sýkinguna ekki bráðsmitandi og bólusetningarþátttöku ágæta hér á landi. Þannig sé ekki tilefni til að hafa áhyggjur af mikilli dreifingu. „Við höfum frekar veitt ráðleggingar til þeirra sem greinast um hverja þeir umgangast með það fyrir augum að vernda ungu börnin.“ Heilbrigðisstarfsfólk beinir því svo til smitaðra að þau láti vita af sýkingunni í sínum innsta hring að sögn Guðrúnar og þá segir hún að gripið hafi verið til bólusetninga í völdum tilvikum. Sem dæmi um slík tilvik nefnir hún ef komin eru meira en tíu ár síðan fólk hefur fengið bóluefni, sérstaklega heilbrigðisstarfsfólk, sem umgengst nýbura og þungaðar konur. „Eins ef fólk hefur aldrei verið bólusett mælum við með því,“ segir hún.

Fimm bólusetningar

Guðrún segir ekki gott að segja hve smitandi kíghósti er í samanburði við aðrar sýkingar. Hún segir hann þó ekki jafn smitandi og til dæmis mislinga. „Kíghósti er smitandi en það fer eftir því hver samskiptin eru og það fer einnig eftir bólusetningarstöðu fólks,“ segir Guðrún. Þá segir hún ekki hægt að bólusetja fyrir þriggja mánaða aldur en í staðinn sé bólusett á meðgöngu og hafi verið gert síðan 2019. Sú ráðstöfun, segir sóttvarnalæknir, er til að að vernda börn fyrstu mánuði ævi þeirra. Bólusett er við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur, svo við fjögurra ára og 14 ára aldur. „Það þarf að gefa þetta nokkrum sinnum. Það er vörn þegar búið er að bólusetja en örvunarbólusetning fer fram til þess að bólusetningin endist betur,“ segir Guðrún að lokum.

Minni hrinur algengar

Færri smitast
frá 1960

Upp úr aldamótum 1900 og á fyrri hluta 20. aldar var mikið um kíghóstasýkingar hér á landi. Draga fór úr þeim upp úr 1960 þegar bólusetningar voru orðnar almennar en minni hrinur hafa komið reglulega eftir það. Árið 2017 greindust 19 einstaklingar og 15 greindust árið 2018. Árið 2019 greindust sex einstaklingar en enginn árin 2020-2023. Árin 2012 og 2013 smituðust á fjórða tug einstaklinga en árin á undan voru þær öllu færri. Sveiflurnar eru því þó nokkrar og enginn faraldur hefur riðið yfir á seinni tímum.

Höf.: Ólafur Pálsson