Hvolsvöllur Íbúatalan þar nú stendur í tæplega 1.100 manns, skv. Hagstofu.
Hvolsvöllur Íbúatalan þar nú stendur í tæplega 1.100 manns, skv. Hagstofu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hreppsnefnd Ásahrepps hefur óskað eftir óformlegum viðræðum um mögulega sameiningu við önnur sveitarfélög í Rangárvallasýslu, það er Rangárþing eystra og Rangárþing ytra. Fulltrúar þessara sveitarfélaga hafa hist á einum fundi þar sem skoðanir voru settar fram og ýmsar sviðsmyndir ræddar

Hreppsnefnd Ásahrepps hefur óskað eftir óformlegum viðræðum um mögulega sameiningu við önnur sveitarfélög í Rangárvallasýslu, það er Rangárþing eystra og Rangárþing ytra. Fulltrúar þessara sveitarfélaga hafa hist á einum fundi þar sem skoðanir voru settar fram og ýmsar sviðsmyndir ræddar. „Fundurinn skilaði því að ekkert var útilokað og sveitarstjórnir í Rangárvallasýslu tilbúnar til frekari viðræðna varðandi sameiningarmál,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra, í pistli á vef sveitarfélagsins.

Jafnhliða kosningum til Alþingis haustið 2021 voru greidd atkvæði um tillögu um sameiningu sveitarfélaga á austanverðu Suðurlandi. Sú var öllu víðtækari en núverandi hugmyndir. Þá var undir að sameina öll sveitarfélög milli Þjórsár og Lómagnúps; þau þrjú í Rangárvallasýslu sem fyrr eru nefnd svo og Mýrdal og Skaftárhrepp. Sú tillaga var hins vegar felld afgerandi af íbúum í Ásahreppi, þaðan sem frumkvæðið í sameiningarmálum kemur nú.

Í kjölfar atkvæðagreiðslunnar haustið 2021 var kannað í Rangárþingi eystra hvert viðhorf fólks þar til sameiningarmála almennt væri. Sú könnun leiddi í ljós að um 2/3 aðspurðra vildu sameina sveitarfélögin í Rangárvallasýslu.

Í Ásahreppi hefur verið boðað til íbúafundar þar sem sameiningarmál verða rædd. Sá fundur verður á Laugalandi í Holtum næstkomandi mánudag, 22. apríl, kl. 17.

Rangæingar nú 4.167

„Ásahreppur á næsta leik; væntanlega skýrist á íbúafundinum þar hvaða útfærsla á sameiningu verður tekin fyrir. Hins vegar verður að segjast að í sveitarstjórnum hér í sýslunni eru allir opnir fyrir öllu. Verði svo eftir undirbúningsvinnu sett fram tillaga um sameiningu þarf að vinna málið þannig að um hana verði greidd atkvæði á næsta ári. Verði tillagan samþykkt yrði svo kosið til sveitarstjórnar i sameinuðu sveitarfélagi vorið 2026,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings ytra.

Sameinuð Rangárvallasýsla yrði afar víðfeðmt sveitarfélag, sem ná myndi frá sjó og inn á reginfjöll miðhálendisins. Íbúar í Áshreppi, sem liggur að Þjórsá í vestri, eru í dag 293. Í Rangárþingi ytra, þar sem Hella er þéttbýlið, búa í dag 1.867 manns og í Rangárþingi eystra, sem spannar svæðið milli Eystri-Rangár og Jökulsár á Sólheimasandi, eru íbúarnir 2.007. Summa þessa er 4.167, skv. tölum Hagstofu. Flestir eru íbúarnir á Hvolsvelli; tæplega 1.100. Á Hellu eru þeir um hundraðinu færri. sbs@mbl.is