Helga Ingvarsdóttir fæddist í Selhaga í Stafholtstungum 17. ágúst 1935. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 29. mars 2024.

Foreldrar Helgu voru Ingvar Magnússon, f. 1. desember 1905, d. 1986, og Sigrún Einarsdóttir, f. 5. júní 1893, d. 1981.

Systkini hennar: Ingólfur, f. 1930, d. 1998. Stúlkubarn, f. 1931, d. 1931, Ingunn, f. 1933, d. 2010 og Júlíus, f. 1938, d. 1995.

Árið 1954 giftist Helga Þorvaldi Sigurjóni Helgasyni frá Kollsá í Hrútafirði, f. 29. desember, 1931, d. 29. júlí, 2022. Foreldrar hans voru Helgi Hannesson smiður, f. 1. desember 1901, d. 1989, og Sólveig Tómasdóttir húsmóðir, f. 24. febrúar 1900, d. 1973.

Helga og Þorvaldur eignuðust fimm börn. Þau eru: 1) Ingvar Sigurjón, f. 1955, giftur Önnu Maríu Bjarnadóttur og eiga þau börnin Huldu Björgu og Bjarna Rúnar, barnabörnin eru 5. 2) Helgi Benedikt, f. 1957, giftur Elínu H. Ragnarsdóttur og eiga þau Ragnar Má, Helgu Dögg og Andra Þór, barnabörnin eru 6. 3) Rúnar Sólberg, f. 1960, giftur Helgu J. Karlsdóttur, börn þeirra eru Sigurður Karl, Þórunn Valdís og Rúnar Freyr, barnabörnin eru 10. 4) Valdimar Tómas, f. 1965, giftur Adrian Estorgio. 5) Sólveig Þrúður, f. 1974, gift Reyni Þór Valgarðssyni, dætur þeirra eru Sóldís Birta, Kolfinna Bjarney og Emma Sóllilja, barnabörnin eru 2. Fyrir á Reynir soninn Arnór Gísla.

Helga vann lengst af hjá Kópavogsbæ, fyrst sem gangbrautarvörður og síðar sem baðvörður í íþróttahúsi Digraness.

Á árunum 1966-1972 bjuggu Helga og Þorvaldur á Borðeyri við Hrútafjörð. Þar sá Helga um heimilið á meðan Þorvaldur rak búvélaverkstæði. Árin á Borðeyri voru þeim báðum afar hugleikin og áttu þau yndislegar minningar þaðan. Hestamennska átti alltaf hug Helgu og var hún ekki gömul þegar hún var farin að fara í langa útreiðartúra með pabba sínum um Borgarfjörðinn. Helga var mjög félagslynd og þekkti næstum alla, hún var í kórastarfi og söng í ömmukórnum í mörg ár. Söngur, tónlist og gítarspil var henni afar kært og spilaði hún á gítarinn við hvert tækifæri sem gafst. Helga var ásamt Þorvaldi virkur þátttakandi í hestamannafélaginu Gusti og rak þar kaffisölu til hestamanna í mörg ár. Helga og Þorvaldur fóru mikið í hestaferðir og sá Helga þá um að trússa, elda, passa upp á að allir fengju næturstað og halda uppi skemmtuninni á kvöldin með gítarspili og söng.

Helga og Valdi byggðu sér sumarhús að Hofsstöðum í Borgarfirði sem átti eftir að vera þeim mikill unaðsreitur. Á Hofsstöðum bjuggu foreldrar Helgu sem og systir hennar Ingunn sem var gift bróður Þorvaldar, Tómasi. Í bústaðnum sem þau kölluðu Þrúðarsel áttu þau óteljandi stundir við leik og störf. Helga bjó lengst af í Kópvogi, nánar tiltekið á Hraunbraut 2 í húsi sem tengdaforeldrar hennar byggðu. Bjó hún á Hraunbrautinni til ársins 2014 þegar hún flutti í Sunnuhlíð þar sem heilsu hennar og getu hafði hrakað.

Helga verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag, 18. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku mamma mín, nú er komið að því að kveðja þig og veit ég ekki alveg hvort ég er tilbúin til þess. Margs er að minnast og er ég viss um að ég átti bestu mömmu í heimi. Ég var yndið þitt yngsta og besta sem þýddi auðvitað að ég fylgdi þér hvert sem var. Alveg sama hvort um væri að ræða vinnuna þína eða kóræfingar í ömmukórnum, alltaf fylgdi ég með. Það eru ófáar stundirnar sem við áttum saman í sveitinni okkar í sumarbústaðnum ykkar pabba, Þrúðarseli, sem pabbi byggði þegar ég var nýfædd. Þessi staður var sko okkar og þarna vorum við saman ég og þú og stundum pabbi. Ég minnist þess að þegar við fórum að sofa á kvöldin í Þrúðarseli vafðir þú mig alltaf inn í lopateppi og breiddir svo yfir mig sæng og við hjúfruðum okkur saman og þú fórst með vísuna um Gilsbakkagilið. Oft á tíðum var kalt hjá okkur því að ekki var kynding í bústaðnum til að byrja með.

Þú barst alltaf hag minn fyrir brjósti og verndaðir mig mjög mikið, passaðir upp á að mér væri hlýtt og ég fengi nóg að borða. Ég meira að segja fékk sjóðheita flösku til fóta í rúmið mitt á hverju kvöldi langt fram eftir aldri. Meira umvefjandi og verndandi mömmu en þig er erfitt að finna og er ég heppin að þú varst mamma mín. Þú varst með hlýjasta og stærsta faðminn sem alltaf var opinn fyrir mig og bara alla. Þú lagðir mikið upp úr því að börnin þín væru heiðarleg og þekktu muninn á réttu og röngu, þér tókst það bara furðu vel.

Þú varst ekki bara besta mamma í heimi heldur líka amma og tengdamamma. Stelpurnar mínar Sóldís Birta, Kolfinna Bjarney og Emma Sóllilja fengu svo sannarlega að kynnast því. Eins fékk Reynir minn (Baddi þinn) að kynnast hversu góð tengdamamma þú varst og fannst mér stundum nóg um þar, þú varst jú mamma mín, ekki hans.

Þú áttir einn vin sem ég var ekkert alltaf of hrifin af fyrr en ég varð eldri en það var gítarinn þinn. Á hann spilaðir þú eins og vindurinn og söngst með. Gítarinn tókstu með þér við hin ýmsu tækifæri – misvinsælt hjá mér. Mamma mín þekkti alla og talaði við alla, það að fara með mömmu í búðina gat tekið tímann sinn. Stundum var erfitt fyrir intro-barnið mig að eiga extro-mömmu.

Skilaðu kveðju til pabba sem og allra annarra sem ég þekki í sumarlandinu.

Ég ætla að kveðja þig elsku mamma mín með orðunum sem við kvöddumst alltaf með og voru sögð með miklum tilburðum:

„Ææææ loooooof jú!“

Þín

Sólveig Þrúður.

Takk amma. Takk fyrir að vera besta amma i öllum heiminum. Ég veit að þú varst ekki heima lengi eftir að ég fæddist því ég var bara eins árs þegar þú fórst á Sunnuhlíð.

En þetta ár var bara nóg. Ég man þegar þú bauðst mér alltaf að gista á Sunnuhlíð en ég sagði alltaf bara nei og skildi ekkert. Ég gat ekki gist á Sunnuhlíð. Seinna varð ég eldri og skildi þetta og sagði bara já.

Ég man allar góðu minningarnar með þér eins og þegar ég fór með skólanum upp á Sunnuhlíð að syngja. Þá var notalegt að fá risaknús frá þér. Ég man líka þegar ég sat í hjólastólum og margt margt annað. Ég elska þig meira en allt og sakna þín enn meira.

Núna ertu á frábærum stað með öllu fólkinu þínu, þú ert engillinn minn sem passar upp á mig. Ég elska þig amma mín alla leiðina út í geim og aftur heim.

Þín

Emma Sóllilja.

Elsku hjartans amma mín, ég veit ekki hvað ég get sagt. Ég vissi að þessum tíma þínum með okkur myndi ljúka, en ég leiddi það alltaf hjá mér því ég var ekki tilbúin að hugsa líf mitt án þín.

Takk fyrir vináttuna, áheyrnina, skilninginn, styrkinn, leiðsögnina og að lokum þakka ég þér af öllu hjarta fyrir að hafa elskað mig eins og ég er, takmarkalaust.

Ég orti lítið kvæði fyrir þig dagana sem ég sat yfir þér. Mér þykir vænt um að hafa fengið að fara með það fyrir þig, og ennþá vænna þykir mér um að þú opnaðir annað augað þegar ég lauk við lesturinn.

Það er viðeigandi að kveðja þig með því, þar sem þú kunnir alltaf vel við góðan kveðskap.

Elsku amma nú Guð þig tekur,

þú fléttar ei lengur mitt þykka hár.

Þá harmur og grátur mína tilveru skekur,

Mun ég ylja mér við ást þína um ókomin ár.

Í himnasal þú býrð og syngur,

með þeim sem þú unnir hér.

Glitrar um höfuð ljóssins hringur,

ást þín býr í hjarta mér.

Við hittumst aftur elsku vina,

þegar að sólin sest hjá mér.

Þá mun ég hitta alla hina,

sem syngja í gleði við hliðina á þér.

Ég bið að heilsa afa, lífið verður ekki eins án ykkar.

„Ælovjú.“

Þín dótturdóttir,

Birta (Sóldís Birta).

Þá hefur hún Helga frænka mín kvatt. Ekki veit ég hvernig hún var skyld mér en aldrei kölluðum við hvor aðra annað en frænku. Hún Helga var einstök. Lífið framan af fór ekki um hana mjúkum höndum og hún þurfti svo sannarlega að hafa fyrir því. En hún dvaldi nú ekki við það heldur var einhver lífsglaðasta manneskja sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Kynni okkar fjölskyldnanna hófust með sleppitúrum í Borgarfjörðinn, það var ÁG-fjölskyldan og svo var það Hofstaðahyskið eins og hún kallaði það sjálf. Það tók mig marga sleppitúra að læra öll nöfn, og kannski lærði ég þau aldrei öll. En í áningum stoppuðu nýir og nýir bílar og út kom hópur fólks sem allir tengdust Helgu minni. Við hlógum oft að því að þetta gætu bara ekki verið venjulegir fólksbílar með öllu þessu fólki. Helga laðaði svo sannarlega að sér fólk og til hennar voru allir velkomnir.

Sleppitúrar og hestaferðir skiptu tugum og vináttan var traust. Helga jóðlandi með gítarinn var ómissandi þáttur af hverri hestaferð og allflestum partíum. Margt er eftirminnilegt úr hestaferðum. Þegar hún steig á bak Krumma sínum og reið niður Mælifellsdalinn og allir með öndina í hálsinum þá hafði hún ekki farið á bak í mörg ár en leysti það eins og allt annað. Eftirminnilegast er samt þegar við vorum stödd í Áfanga. Þegar við komum í náttstað voru þar á ferð miklir höfðingjar úr Eyjafirði og þótti þeim heldur lítið til þessara Gustara koma. Í grein sem Reynir Hjartarson skrifaði nokkru seinna sagði hann að þarna hefðu farið saman í einni konu allir þeir kostir sem hver og einn þeirra Eyfirðinga væru heimsfrægir fyrir. Þetta kvöld fór Helga á kostum. Ég held að stundum hafi hún samið textana um leið og hún söng lögin og mikið var hlegið og að lokum var okkur meira að segja boðið Grundarvatn. Hún stóð með gítarinn og jóðlaði og söng svo undir tók.

En Helga var ekki bara partíljón og allra manna skemmtilegust. Hún var líka djúp og hlý. Ég á frá henni svo falleg kort þar sem hún mærði mig og þakkaði vináttu, þá skrifaði hún gjarnan undir Helga frænka og kallinn hennar. Ég sit líka hér og skrifa þessi fátæklegu orð vafin í heklað ullarteppi sem hún heklaði og gaf mér. Hún var líka ein af afar fáum vinkonum mömmu sem áttu hennar trúnað og með þeim var mjög sterkt og gott samband sem aldrei féll skuggi á. Helga var enda ein þeirra sem tóku fráfall mömmu afar nærri sér.

Nú eru þau öll einhvers staðar í sumarlandinu, Helga og Valdi og mamma og pabbi. Þar er örugglega margt skrafað og sungið um Blakk og „hvað hefur orðið um manninn minn“. Það var mannbætandi að kynnast Helgu.

Börnum, barnabörnum og öllum hennar afkomendum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur svo og Hofstaðahyskinu öllu.

Þóra Ásgeirsdóttir.