Meistarar Valskonur fagna Íslandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð en þeim er spáð titlinum fjórða árið í röð.
Meistarar Valskonur fagna Íslandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð en þeim er spáð titlinum fjórða árið í röð. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valur verður Íslandsmeistari kvenna í fótbolta fjórða árið í röð eftir harða baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er niðurstaðan í hinni árlegu spá Morgunblaðsins og mbl.is fyrir Bestu deild kvenna

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valur verður Íslandsmeistari kvenna í fótbolta fjórða árið í röð eftir harða baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er niðurstaðan í hinni árlegu spá Morgunblaðsins og mbl.is fyrir Bestu deild kvenna.

Stjörnunni er spáð þriðja sætinu og síðasta Evrópusætinu. Þróttur úr Reykjavík, Þór/KA og Víkingur úr Reykjavík koma þar á eftir og verða því öll í efri hluta deildarinnar samkvæmt spánni þegar hefðbundinni deildarkeppni lýkur og deildinni verður skipt upp.

FH endar í sjöunda sætinu og það verða því Fylkir, Tindastóll og Keflavík sem munu berjast við fallið í sumar. Litlu munar á neðstu þremur liðunum en Fylkir endar í áttunda sætinu samkvæmt spánni og landsbyggðarliðin Tindastóll og Keflavík falla.

1. umferðin hefst sunnudaginn 21. apríl kemur með tveimur leikjum þegar Íslandsmeistarar Vals taka á móti Þór/KA á Hlíðarenda og Tindastóll fær FH í heimsókn á Sauðárkrók.

1. umferðinni lýkur mánudaginn 22. apríl þegar Keflavík heimsækir Breiðablik á Kópavogsvöll, Stjarnan tekur á móti Víkingi í Garðabænum og Þróttur heimsækir Fylki í Árbæinn.

1. Valur – 204 stig

Valskonur mæta til leiks með mikið breytt lið frá síðustu leiktíð þegar Valur vann titilinn afar sannfærandi. Pétur Pétursson er að fara inn í sitt sjötta tímabil sem þjálfari liðsins og hefur hann gert liðið fjórum sinnum að Íslandsmeisturum.

Framherjinn Bryndís Arna Níelsdóttir er horfin á braut en hún varð markadrottning deildarinnar á síðustu leiktíð þar sem hún skoraði 15 mörk í 22 leikjum. Þá leikur Arna Sif Ásgrímsdóttir ekki með Valsliðinu í sumar eftir að hafa slitið krossband en hún hefur verið máttarstólpi í varnarleik Vals undanfarin ár og einn albesti leikmaður Íslandsmótsins. Þá eru þær Ásdís Karen Halldórsdóttir, Lára Kristín Pedersen og Þórdís Elva Ágústsdóttir allar horfnar á braut.

Valskonur hafa sankað að sér leikmönnum fyrir tímabilið og ber þar hæst að nefna Katie Cousins, Jasmín Erlu Ingadóttur, Helenu Ósk Hálfdánardóttur og Nadíu Atladóttur. Þá hefur landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir verið sterklega orðuð við Val að undanförnu en hún eignaðist sitt fyrsta barn á dögunum og reiknar með því að snúa aftur á völlinn í sumar þegar samningur hennar við París SG í Frakklandi rennur út.

2. Breiðablik – 193 stig

Nik Chamberlain er tekinn við þjálfarataumunum í Kópavogi eftir að hafa stýrt Þrótti úr Reykjavík frá árinu 2016. Nik náði frábærum árangri með Þrótt, kom liðinu upp um deild og hafa Þróttarar verið í toppbaráttu síðustu ár, ásamt því að leika til úrslita í bikarkeppninni. Edda Garðarsdóttir, sem var aðstoðarþjálfari Niks hjá Þrótti, fylgdi honum í Kópavoginn.

Blikar enduðu í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð eftir að hafa verið í brasi framan af tímabili. Toni Pressley, Helena Ósk Hálfdánardóttir, Linli Tu og Hafrún Rakel Halldórsdóttir eru horfnar á braut og munar líklega mest um Hafrúnu Rakel sem hefur verið lykilmaður í liðinu síðustu ár.

Blikar hafa hins vegar fengið til sín öfluga leikmenn á borð við Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur, Jakobínu Hjörvarsdóttur, Barbáru Sól Gísladóttur og Heiðu Ragneyju Viðarsdóttur. Allt leikmenn sem hafa skarað fram úr í deildinni á síðustu árum og verið á meðal bestu leikmanna hennar.

3. Stjarnan – 151 stig

Kristján Guðmundsson er á leið inn í sitt fimmta tímabil sem þjálfari Stjörnunnar en hann hefur náð góðum árangri með liðið. Liðið hefur blandað sér í toppbaráttuna á undanförnum árum en olli vonbrigðum í fyrra þegar Stjarnan endaði í fjórða sæti deildarinnar eftir að margir höfðu spáð þeim Íslandsmeistaratitilinum.

Stjarnan hefur misst marga lykilmenn og ber þar hæst að nefna þær Málfríði Ernu Sigurðardóttur, Heiðu Ragneyju Viðarsdóttur og Jasmín Erlu Ingadóttur. Allt leikmenn sem hafa verið í mjög stórum hlutverkum hjá Stjörnunni og myndað hryggjarsúlu liðsins.

Á sama tíma hefur Stjarnan bætt við sig tveimur útlendingum, þeim Hönnuh Sharts og Caitlin Cosme sem léku báðar með Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur og Erin McLeod hjá Orlando Pride. Óvíst er hvort Gunnhildur Yrsa spili með liðinu í sumar þar sem hún hefur lítið sem ekkert æft með Garðbæingum en það yrði mikið áfall fyrir Garðbæinga ef hún verður ekkert með.

4. Þróttur R. – 140 stig

Ólafur Kristjánsson er tekinn við stjórnartaumunum hjá Þrótti en hann tók við liðinu af Nik Chamberlain síðasta haust. Hann er að stíga sín fyrstu skref í kvennaboltanum en Þróttarar enduðu í 3. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

Þróttarar hafa misst bæði Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur og Kötlu Tryggvadóttur sem hafa verið lykilmenn í liðinu undanfarin ár. Katie Cousins fór í Val, sem og markvörðurinn Íris Dögg Gunnarsdóttir, og þá er varnarmaðurinn Elísabet Freyja Þorvaldsdóttir einnig horfin á braut. Þær voru allar í stórum hlutverkum hjá liðinu og munar svo sannarlega um minna.

Sigríður Theódóra Guðmundsdóttir er hins vegar gengin til liðs við Þróttara frá Val og þá hefur félagið einnig samið við erlendu leikmennina Leuh Maryann Pais, Mollee Swift og Caroline Murray fyrir komandi keppnistímabil.

5. Þór/KA – 126 stig

Jóhann Kristinn Gunnarsson tók aftur við stjórnartaumunum hjá Þór/KA haustið 2022 en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum í fyrsta sinn árið 2012. Hann er á leið inn í sitt annað tímabil með liðið og er hópurinn lítið breyttur frá síðustu leiktíð.

Melissa Anne Lowder og Jakobína Hjörvarsdóttir eru horfnar á braut en Jakobína hefur verið í lykilhlutverki í varnarleik liðsins síðustu ár.

Liðið hefur fengið til sín þrjá útlendinga, þær Lidiju Kulis, Laru Ivanusa og Gabriellu Batmani, en Jóhann Kristinn hefur verið þekktur fyrir það að fá til sín góða erlenda leikmenn. Þá framlengdi Sandra María Jessen samning sinn við félagið og ef hún sleppur við meiðsli í sumar og gætu Þórsarar vel blandað sér í toppbaráttuna.

6. Víkingur R. – 103 stig

John Andrews hefur stýrt Víkingsliðinu frá því í nóvember árið 2019 en hann gerði liðið að bikarmeisturum á síðustu leiktíð og þá fögnuðu Víkingar sigri í 1. deildinni og tryggðu sér þannig sæti í efstu deild.

Fyrirliðinn Nadía Atladóttir gekk mjög óvænt til liðs við Val á dögunum og þá er Kolbrún Tinna Eyjólfsdóttir horfin á braut en hún var lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá Víkingum á síðustu leiktíð.

Shaina Ashouri, sem var einn besti leikmaður FH á síðustu leiktíð, er gengin til liðs við Víkinga, sem og Ruby Diodati. Þá er Gígja Valgerður Harðardóttir mætt aftur í Fossvoginn og gæti hún leikið stórt hlutverk í varnarleik liðsins í sumar.

7. FH – 103 stig

Guðni Eiríksson hefur stýrt Hafnfirðingum frá því í október árið 2018 en liðið var nýliði í deildinni á síðustu leiktíð. Eftir að FH hafði verið spáð falli hjá öllum miðlum landsins kom liðið öllum á óvart og hafnaði í sjötta sætinu á síðustu leiktíð.

Shaina Ashouri er horfin á braut, sem og þær Colleen Kennedy, Rachel Avant, Elín Björg Norðfjörð og Esther Rós Arnarsdóttir.

Hafnfirðingar hafa hins vegar fengið til sín öfluga leikmenn á borð við Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur, Hönnu Kallmaier, Ídu Marín Hermannsdóttur og Örnu Eiríksdóttur. Þá hefur Breukelen Woodard einnig samið við FH, sem og Valgerður Ósk Valsdóttir.

8. Fylkir – 47 stig

Gunnar Magnús Jónsson hefur stýrt Fylkisliðinu frá því í október 2022 og er því á leið inn í sitt annað tímabil sem þjálfari liðsins en hann kom liðinu upp í efstu deild á nýjan leik á sínu fyrsta tímabili. Fylkir hafnaði í öðru sæti 1. deildarinnar síðasta sumar eftir harða baráttu við Víkinga og HK um sæti í efstu deild.

Leikmannahópurinn er svo gott sem sá sami og á síðustu leiktíð en liðið hefur þó fengið til sín tvo erlenda leikmenn, þær Abagail Boyan og Kaylu Bruster. Það mun mikið mæða á þeim og þá er Amelía Rún Fjelsted einnig gengin til liðs við Fylki frá Keflavík en hún á að baki 53 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað fimm mörk.

9. Tindastóll – 46

Halldór Jón Sigurðsson, betur þekktur sem Donni, er á leið inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Tindastóls en liðið hafnaði í sjöunda sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð og bjargaði sér frá falli í lokaumferðunum.

Murielle Tiernan, aðalmarkaskorari liðsins undanfarin ár, er horfin á braut og munar svo sannarlega um minna en hún hefur skorað 98 mörk í 102 leikjum með Tindastóli í efstu, 1. og 2. deildinni á tíma sínum á Sauðárkróki.

Melissa Garcia, Beatriz Parra og Marta Perarnau eru einnig horfnar á braut en félagið hefur fengið til sín þær Jordyn Rhodes og Gabriellu Johnson fyrir átökin í sumar.

10. Keflavík – 42 stig

Jonathan Glenn er á leið inn í sitt annað tímabil sem þjálfari Keflavíkur eftir að hafa tekið við liðinu í október árið 2022. Hann bjargaði Keflavík frá falli á síðustu leiktíð þegar liðið endaði í 8. sætinu.

Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Keflavíkur en Caroline Van Slambrouck, sem hefur verið máttarstólpi í varnarleik liðsins, hefur lagt skóna á hilluna. Dröfn Einarsdóttir, Ameera Hussen og Arndís Snjólaug Ingvarsdóttir eru allar farnar en bæði Arndís og Dröfn hafa verið í stórum hlutverkum hjá Keflavík í langan tíma.

Félagið hefur fengið til sín þær Eliönnu Beard, Saorlu Miller, Susonnu Friedrichs og Maríu Rún Guðmundsdóttur og mun mikið mæða á nýju erlendu leikmönnum Keflavíkur í sumar.

Spá Víkingum í neðri hlutanum

Í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna liða í deildinni, sem var opinberuð í höfuðstöðvum Deloitte á kynningarfundi deildarinnar í gær, var Valskonum einnig spáð Íslandsmeistaratitlinum.

Breiðabliki var spáð öðru sætinu, Þór/KA þriðja sætinu og Stjörnunni fjórða sætinu. FH er spáð fimmta sætinu og Þrótti úr Reykjavík sjötta sætinu.

Þessi sex lið leika því í efri hluta deildarinnar, þegar deildinni verður skipt upp, ef eitthvað er að marka spána.

Víkingur úr Reykjavík, Fylkir, Keflavík og Tindastóll verða þá í neðri hlutanum en Víkingum er spáð sjöunda sætinu, Fylki því áttunda og þá er Keflavík, í níunda sætinu, og Tindastóli, í tíunda sætinu, spáð falli í spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna deildarinnar.

Höf.: Bjarni Helgason