Björg Ísaksdóttir fæddist á Bjargi á Seltjarnarnesi 31. mai 1928. Hún lést á Landspítalanum 8. apríl 2024.

Hún var dóttir hjónanna Helgu Sigríðar Runólfsdóttur, f. í Kanada 13.8. 1904, og Ísaks Kjartans Vilhjálmssonar, f. á Knútsborg 14.11. 1894. Björg var elst fimm systkina, næst var Arnfríður, f. 8.7. 1930, látin, 1930 gift Óskari Ólasyni. Sigrún, f. 3.10. 1932, látin, gift Ólafi Ólafssyni. Helga Vala, f. 13.8. 1934, gift Pétri Árnasyni. Yngstur var Runólfur Helgi, f. 18.1. 1937, látinn, giftur Valgerði Þórðardóttur.

Hún kynntist ung fyrri eiginmanni sínum, Jóhanni Einarssyni blikksmíðameistara, f. 15.9. 1927. Þau eignuðust fimm börn, þau eru: Helga Sigríður, f. 4. mars 1946, gift Guðjóni Helgasyni, þau eiga fjögur börn, sjö barnabörn og tvö barnabarnabörn; Guðfinna, f. 18.10. 1948, fyrri maður hennar var Guðmundur Eiríksson, þau áttu þrjú börn. Seinni maður er Henk Hoogland, hann á eina dóttur. Þau eiga samtals tíu barnabörn og tvö barnabarnabörn; Jóhanna, f. 6.11. 1950, gift Ingmari Furuvík. Þau eiga tvö börn og fjögur barnabörn. Einar Ingvar, f. 23.9. 1955, fyrri kona var Helga Eiðsdóttir, þau eiga eitt barn. Fyrir átti hann eitt barn. Barnabörnin eru fimm. Seinni kona hans er Malai Rattanaviset og á hún tvö börn; Ísak Vilhjálmur, f. 29.9. 1958, giftur Ingu Sigurjónsdóttur, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. Fyrir átti Ísak eitt barn.

Seinni eiginmaður Bjargar var Vilhjálmur Jónasson. Leiðir þeirra skildi.

Björg var nemandi í Mýrarhúsaskóla, Landakotsskóla og Kvennaskólanum í Reykjavík. Síðar fór hún í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún stundaði nám þar frá 1967 til 1977.

Björg hóf að mála myndir þegar hún var á fimmtugsaldri og vann við málaralist, glerlist, silkimálun, leirlist og teikningu. Fyrsta sýning Bjargar var í Bogasal Þjóðminjasafnsins þegar hún var 47 ára. Eftir það hélt hún fjölda sýninga. Björg sýndi verk sín víða, bæði hérlendis og erlendis. Björg var einn af stofnendum Myndlistarklúbbs Seltjarnarness sem starfaði frá árinu 1974. Björg fagnaði 90 ára afmæli sínu með sýningu í Gallerí Gróttu. Þar sýndi hún bæði ný og eldri verk. Hún málaði myndir fram í andlátið. Björg vann að mestu við gerð leikhúsbúninga og við alls kyns hönnun og saumaskap. Björg bjó á Selfossi og rak þar saumastofu. Hún starfaði sem verkstjóri hjá saumastofunni Dúki í nokkur ár og hún rak Bjargarbúð í Ingólfsstræti. Björg starfaði hjá Leikfélagi Reykjavíkur og var yfir saumastofunni. Hún starfaði einnig í Þjóðleikhúsinu. Björg fór til Svíþjóðar og starfaði á saumastofu Dramaten-leikhússins í Stokkhólmi og lærði þar búningahönnun. Hún fór síðan að starfa á saumastofu konungshallarinnar í Stokkhólmi. Hún starfaði í Svíþjóð í fimm ár. Hún fór síðan til New York og fór að starfa á Broadway á búningasaumastofu. Björg kom aftur heim eftir tveggja ára dvöl í heimsborginni.

Útför Bjargar fer fram frá Seltjarnarneskirkju í dag, 18. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku besta tengdamóðir mín, Björg Ísaksdóttir, hefur kvatt.

Hún var litrík manneskja sem kunni að njóta augnabliksins, þorði að feta nýjar slóðir og sagði sögur af veröld sem var.

Söguna af Arnfríði ömmu sinni sem fór til Kanada og kom ekki heim fyrr en löngu seinna. Hafði kynnst nýjum heimi og hafði aðra sýn.

Helga mamma Bjargar var þá tíu ára. Helgu er lýst þannig: Hún var ekki bara falleg og góð, hún var líka frumkvöðull og var ein af stofnendum kvenskátahreyfingarinnar á Íslandi. Helga dó síðan ung frá stórum barnahóp og þá var Björg aðeins tíu ára ára gömul. Missirinn var mikill og sár.

Björg ólst upp á Bjargi á Seltjarnarnesi, pabbi hennar Ísak var bóndi. Hann var opinn fyrir nýjum hlutum í landbúnaði og kom með margar nýjungar inn í búskapinn sem ekki voru algengar á þessum tíma eins og útungunarvél og svo ræktaði hann kalkúna.

Þetta var mannmargt heimili, oft líf og fjör og vinnufólk frá ýmsum löndum.

Björg gekk í Mýrarhúsaskóla, Landakotsskóla og Kvennaskólann og hugur hennar stóð til frekara náms.

Á þessum tímum var það þó ekki endilega einfalt. Hún giftist ung og átti fimm börn.

Það var ekki fyrr en seinna sem hún gat sinnt sínum hugðarefnum, listinni, sem hún stundaði síðan fram á síðasta dag.

Björg hóf myndlistanám fremur seint, var við nám í Myndlistaskólanum í Reykjavík 1967-1977. Hún lýsir þessu best sjálf í blaðaviðtali, í tilefni af opnun á málverkasýningu sem hún hélt á 90 ára afmælinu sínu. Hún sagði: „Ég datt út úr skóla kornung þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, þau urðu alls fimm og ég gat ekki haldið áfram í skóla fyrr en þau voru komin vel á legg.“ Þegar hún var um fimmtugt fór hún til Svíþjóðar, vann þar við búningagerð í konunglega leikhúsinu, Dramaten, og síðan á saumastofunni í sjálfri konungshöllinni. Hún talaði oft um hvað það hefði verið gaman að vinna þar. Hún sótti líka ýmis námskeið m.a. í Finnlandi og á Ítalíu og var með vinnustofu í New York um tíma. Hún var óhrædd við að feta nýjar slóðir.

Við kveðjum hana með söknuði og þökkum líka allar frábærar samverustundir.

Hún gaf lífinu lit.

Hennar verður sárt saknað.

Inga Sigurjónsdóttir

Elsku amma okkar, nú ertu komin í sumarlandið og ef við þekkjum þig rétt þá ert þú auðvitað búin að slá í gegn með þínum glæsileika, framkomu og skemmtilegu sögum. Já þú varst svo mikill heimsborgari, frumkvöðull, listamaður og búin að upplifa svo margt á þinni löngu og farsælu ævi. Þú kunnir svo sannarlega að lifa lífinu og varst alltaf að læra eitthvað nýtt og bæta við þig þekkingu, hvort sem það var á listasviðinu eða í tækninni. Það var alltaf svo skemmtilegt að vera í kringum þig, aldrei lognmolla og alltaf stutt í húmorinn, þá sérstaklega fyrir sjálfri þér. Þú tókst lífið ekki of alvarlega og varst á undan þínum samtíma í svo mörgu, það vita allir sem þekktu þig. Þú hafðir gaman að öllum veislum og mannfögnuðum, þar varstu hrókur alls fagnaður og tókst lagið á hinum ýmsu tungumálum ef þannig bar undir. Eftirminnilegar eru veislurnar með stórfjölskyldunni á Þingvöllum þar sem þú elskaðir að vera með öllum þínum afkomendum sem þú varst svo stolt af.

Minningarnar eru margar, við systur vorum mikið hjá þér á okkar uppvaxtarárum.

Heimilin þín voru mörg, já þér fannst gaman að flytja og fannst það ekki vera mikið mál, börnin þín kannski ekki alltaf sammála enda áttir þú ekkert lítið af dóti sem þurfti að flytja á milli staða. Fyrstu minningarnar voru á Vallarbrautinni, þar vorum við systur skírðar á heimili ykkar Villa, svo var það Bergþórugatan, Bjarg æskuheimilið þitt á Seltjarnarnesi, þú komst svo aðeins við í Hafnarfirðinum, Skipholtinu, Njálsgötunni, Nesveginum, Skólavörðustíg, Flókagötunni, Austurströndinni og endaðir svo í Hraunbænum. Síðan hafðir þú búið inni á milli í Svíþjóð og New York. Alltaf var hlýtt að heimsækja þig á öll þín heimili sem voru prýdd fallegum listmunum eftir þig sjálfa og aðra listamenn, gullborðunum frægu og öðrum einstökum húsbúnaði sem þú hafðir keypt á flakki þínu um heiminn. Allir afkomendur þínir kannast við að hafa verið leystir út með fallegum listmun, bókum eða borðbúnaði í lok heimsókna til þín, sérstaklega í seinni tíð. Það þykir okkur einstaklega vænt um í dag og drýpur saga af hverjum hlut sem þú áttir.

Þú varst alltaf dugleg að redda þér, leigðir út frá þér herbergi, réðir þig í uppvask á veitingastað í New York og spilaðir á gítar í Capri. Þú vildir vera frjáls og gerðir allt sem þig langaði til. Þú varst okkur mikilvæg fyrirmynd þar sem fátt stoppaði þig í að framkvæma það sem þig langaði til að gera. Dugnaður, þrautseigja og hugrekki er veganesti sem við tökum frá þér elsku amma. Hvíl í friði og takk fyrir að vera amma okkar í 52 ár.

Björg Ýr og Rakel Ýr Guðmundsdætur.

Prestur, býrð þú hjá Guði? Elsku Eiríkur minn, við búum öll hjá Guði sagði presturinn. Ekki ég, ég bý í Hraunbænum. Þessi skemmtilega saga frá því ég var þriggja ára kemur oft upp í hugann þegar ég hugsa um hana ömmu Björgu. Þessa sögu notaði amma mikið við alls konar tækifæri, það skipti engu hvort viðburðurinn var fyrir mig eða bara einhvern annan.

Að amma Björg, eða amma B eins og við barnabörnin kölluðum hana oft, hafi kvatt okkur er mjög skrýtin tilfinning. Ég hef lengi talið að amma væri ein af þessum ódauðlegu. Þessi kona hafði aldrei neinn tíma í að eldast, ekki einu sinni þegar hún var komin yfir nírætt.

Mínar fyrstu minningar um ömmu B eru þegar ég var að fara með henni í vinnuna niður í Iðnó, þar sem hún vann á saumastofunni. Þetta var mikill ævintýrastaður fyrir ungan dreng. Þarna hitti maður helstu hetjur leikhússins á þeim tíma. Það sem stendur t.d. upp úr í minningunni er þegar amma kynnti mig fyrir leikaranum sem lék pabba Emils í Kattholti, Anton.

Amma var frábær á saumavélinni og það næsta sem kemur upp í hugann er þegar hún fluttist til Svíþjóðar og fór að vinna í konungshöllinni, fyrir Kalla kóng. Þetta gerði ungan dreng afar montinn og flaggaði ég þessu óspart við vini mína, sem í fæstum tilfellum trúðu þessu. Það á enginn ömmu sem vinnur í konungshöll sögðu þeir grænir af öfund.

Amma B var mikill stuðbolti sem yndislegt var að vera með á góðri stundu, ófá Þingvallapartíin koma upp í hugann, þar sem söngurinn frá ömmu ómaði um Þingvallasveitina.

Amma B átti stórbrotna ævi sem nú er á enda, andi hennar mun þó alltaf vera með okkur sem hana þekktum. Elsku amma, hvíl í friði og takk fyrir allt sem þú kenndir mér um lífið. Ég er klárlega betri maður að hafa átt þig sem ömmu.

Eiríkur Guðmundsson.

Elsku amma.

Skrítið að segja þetta í síðasta sinn. Skrítið að hugsa til þess að við höfum í síðasta sinn hlustað á sögurnar þínar, hlegið saman á Þingvöllum, fagnað áramótunum saman eins og við gerðum öll árin, sungið saman í seinasta sinn (Ó Súsanna …).

Þú varst alltaf dugleg að passa okkur þegar við vorum yngri og það var ekkert skemmtilegra en að koma til þín og gramsa í öllu dótinu sem þú áttir frá öllum heimsálfum. Þú sýndir okkur alltaf mikla ást og við erum þakklátir fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Við gætum haldið lengi áfram, minningarnar eru endalausar og dýrmætar.

Á sama tíma og við syrgjum og minnumst ömmu okkar, þá viljum við líka fagna því ótrúlega lífi sem hún átti og þeim áhrifum sem hún hafði á líf okkar. Amma var töffari, húmoristi, litrík og veitti gleði hvert sem hún fór. Alltaf hress, alltaf stuð, og fór sínar eigin leiðir.

Takk fyrir allt amma, elskum þig. Þín barnabörn,

Sigurjón og Jóhann.

Amma Björg var ekki bara amma; hún var táknmynd ævintýra og lífskrafts. Hún var konan sem hafði áhrif alls staðar þar sem hún kom, verkfæri breytinga og fyrirmynd okkar frænkna. Í hennar huga var lífið ein stór ævintýraferð og hún lét ekkert, allra síst leiðindi, stöðva sig. Hún ferðaðist um heimsins höf, upplifði menningu, listir, varð ástfangin og kynntist skemmtilegu fólki. Oft sagði hún að öll smávandræði á ferðalögum væru bara hluti af stærra ævintýri og lærdómi. Hún var alltaf vel tilhöfð og smart til fara. Það smart að við frænkur fengum oft lánuð dress, eyrnalokka eða hælaskó á tyllidögum.

Frú Björg var sterk í skoðunum og hélt alltaf fast við sína lífssýn og var trú sjálfri sér. Hún var opin, hugrökk og dugleg, og gerði hvað sem hún tók sér fyrir hendur af eldmóð. Sérstaklega var hún vinkona okkar fyrst og síðast, og um leið ein mesta orkustöðin í lífi okkar. Það voru ófá hlátursköstin og trúnóin.

Áhrifin sem amma Björg hafði á okkur eru ómælanleg. Hún hafði djúp áhrif á komandi kynslóðir kvenna, á vini okkar og eiginmenn og á nærumhverfið. Hún hafði jafnvel áhrif á framtíðina og framþróunina í samfélaginu með sýn sinni og framkvæmdagleði.

Viskumolar hennar endurspegla persónuleika hennar vel. Hún sagði til dæmis: „Aldrei vera gift manni sem er leiðinlegur, þú getur séð um þig sjálf.“ og „Ef það er eitthvað að, þá er hægt að laga það í flestum tilfellum.“ Þessi orð og mörg fleiri munu lifa áfram með okkur.

Sögur úr lífi Bjargar eru jafn fjölbreyttar og hún var sjálf. Hún þvoði barnaföt í Elliðaá, söng á klúbb á Caprí til að borga fyrir dýran kvöldverð, vann í konungshöllinni í Svíþjóð og átti persónuleg bréf frá Karli Gústaf konungi og frú. Hún vann einnig með Vigdísi Finnbogadóttur í gamla Iðnó en þær kynntust fyrst í Landakotsskóla. Frú Björg var alltaf fyrst og síðust í og úr boðum, full af lífi og fjöri.

Eitt af hennar bestu ráðum var: „Ekki afsaka sig, heldur gera eitthvað jákvætt.“ Þessu reynum við að lifa eftir og láta draumana rætast. Góða ferð, elsku amma Björg. Takk fyrir að gefa okkur kærar minningar og góð ráð. Við munum halda áfram að gera þig stolta.

Eva & Katrín.

Við fluttum á Seltjarnarnesið í nóvember 1965. Fljótt eftir það kynntumst við Björgu, sem bjó í næsta húsi á Lindarbraut 8. Arnaldur sonur okkar byrjaði í Mýrarhúsaskóla í janúar 1966.

Björg fór snemma í vinnuna og kom því með Ísak son sinn til Rósu. Drengirnir fengu sinn hafragraut og urðu svo samferða í skólann. Oft fékk Rósa hárgreiðslu hjá Guðfinnu.

Björg varð fastur gestur hjá okkur þegar haldið var upp á afmæli eða önnur tilefni. Hún kom með okkur í Eyjafjörðinn og einu sinni til Barcelona þar sem Arnaldur hefur búið sl. 40 ár.

Við heimsóttum Björgu þegar hún var að vinna hjá kónginum í Svíþjóð. Björg var engin venjuleg kona. Hún var listakona, hjartahlý og varð einn af okkar traustu vinum. Nú kveðjum við þessa vinkonu okkar og þökkum henni samfylgdina í meira en hálfa öld.

Við vottum afkomendum hennar innilega samúð.

Rósa og Örn Smári.

Mig minnir það hafa verið árið 1987, sem ég sá auglýst sníða- og saumanámskeið hjá Björgu, sem hún hélt heima hjá sér á Bjargi. Þar sem ég hafði alltaf haft áhuga á slíku og kunni eitthvað fyrir mér í því, þá vildi ég læra meira og ákvað því að skrá mig í það. Þar með hófst margra áratuga löng vinátta okkar Bjargar.

Mér líkaði ákaflega vel við hana, og hún var flinkur og góður kennari, sem ég lærði heilmikið af og hef búið að síðan, alltaf viljug að hjálpa mér, ef ég lenti í einhverjum vandræðum, og koma manni á rétt spor. Það var auðfundið, að þarna fór mjög vön manneskja, enda komst ég fljótlega að því, að hún hafði verið kjólameistari hjá sænsku hirðinni, hvorki meira né minna. Mér fannst því mikill fengur að því að læra hjá svo góðum kjólameistara.

Eftir að námskeiðinu lauk, þá hafði ég alltaf samband við hana öðru hverju, enda höfðum við alltaf nóg að tala um. Ég leitaði líka oft ráða hjá henni vegna þess sem ég var að sauma í hvert skipti, ef ég var ekki viss um eitthvað. Það flosnaði því miður upp með árunum, en ég minnist hennar alltaf með hlýju og þakklæti.

Þegar hún er nú hofin yfir móðuna miklu, þá þakka ég henni kærlega fyrir góða viðkynningu og vináttu og kennsluna, og bið henni allrar blessunar Guðs, þar sem hún er nú. Fjölskyldu hennar votta ég innilega samúð.

Blessuð sé minning Bjargar Ísaksdóttur.

Guðbjörg Snót
Jónsdóttir.