Áttstrendingur Kirkjan á Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu.
Áttstrendingur Kirkjan á Auðkúlu í Austur-Húnavatnssýslu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Starfsskyldur prófasts eru margvíslegar, svo sem að hafa tilsjón með kristnihaldi í héraði. Vera auga og eyra biskups, eins og þar stendur,“ segir sr. Sigríður Gunnarsdóttir sem nú í vikunni tók við embætti prófasts í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi

„Starfsskyldur prófasts eru margvíslegar, svo sem að hafa tilsjón með kristnihaldi í héraði. Vera auga og eyra biskups, eins og þar stendur,“ segir sr. Sigríður Gunnarsdóttir sem nú í vikunni tók við embætti prófasts í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi. Jafnhliða er hún sóknarprestur í sameinuðu Skagafjarðarprestakalli sem til varð í byrjun síðasta árs. Þá hafði hún áður þjónað prestakallinu á Sauðárkróki frá 2006.

Prófastsdæmið sem sr. Sigríður mun sinna spannar svæðið frá Hrútafjarðarbotni og norður í Fljót. Í þessum landshluta er á fjórða tug kirkna, þar af 19 í Skagafirði, frá ystu nesjum til innstu dala.

„Kirkjustarf hér á Norðurlandi er öflugt og rætur safnaðarstarfs sterkar,“ segir sr. Sigríður. „Fólk lætur sig þennan þátt í samfélaginu miklu varða. Slíkt á ekki síst við um tónlistina og þátttöku í kirkjukórunum sem eru mikilvægur þáttur í félagslífi í sveitunum. Og sjálf er ég prestur af köllun og gleði; mögulega á íhaldssömu línunni.“

Sigríður er frá Flatatungu á Kjálka í Skagafirði. Hún er auk guðfræðinnar með meistarapróf í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Er gift Þórarni Eymundssyni, tamningamanni og lektor við Háskólann á Hólum, og búa þau í Hjaltadal. Börn þeirra eru þrjú. sbs@mbl.is