Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Söguhópurinn Kellingarnar, sem eru þrjár konur á Akranesi, undirbýr nú næstu sögugöngu, sem verður á sjómannadaginn 2. júní. „Við skrifum allan texta sem við flytjum og heimildaöflun og undirbúningur tekur mikinn tíma,“ segir Hallbera Fríður Jóhannesdóttir, fyrrverandi kennari og ein þremenninganna.
Bókasafn Akraness og Skagaleikflokkurinn fengu styrk til að minnast þess að 19. júní 2015 voru 100 ár frá því að íslenskar konur fengu fyrst kosningarétt til Alþingis. Halldóra Jónsdóttir þáverandi bæjarbókavörður fékk leikfélagskonurnar Hallberu og Guðbjörgu Árnadóttur, kennara og fyrrverandi formann Skagaleikflokksins, með sér í verkefnið og fóru þær í fyrstu gönguna 17. júní 2015. „Þá sögðum við frá nokkrum kjarnorkukonum á Akranesi sem höfðu verið áberandi í kvennabaráttunni,“ rifjar Hallbera upp.
Eftir að samstarfi bókasafnsins og leikflokksins lauk hafa Kellingarnar verið sjálfstæðar. Þær hafa skipulagt eina sögugöngu á ári og fengið styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands vegna kostnaðar, sem er meðal annars vegna búninga, hljóðkerfis og tónlistarflutnings fyrir utan veitingar í lok göngu, en þá hefur þátttakendum gjarnan verið boðið upp á kaffi, kleinur og konfekt.
Aðstoð og hirðskáld
„Allir eru velkomnir í göngurnar, aðgangur er ókeypis og við gerum þetta í sjálfboðavinnu með skemmtun í huga,“ leggur Hallbera áherslu á. Þær fái fleiri konur til liðs við sig við flutninginn og hafi Ásta Björnsdóttir, Gyða Bentsdóttir, Hulda Gestsdóttir og Unnur Sigurðardóttir verið atkvæðamestar í því efni. Þær séu einnig með hirðskáld, Auði Sigurðardóttur, leikfélagskonu og fyrrverandi bókavörð, sem geri fyrir þær vísu fyrir hverja göngu. „Við byrjum alltaf á því að syngja,“ segir Hallbera og hefur upp raust sína: „Þær ganga hér um göturnar/svo geysilega fróðar/á hátalara heldur ein/en hinar eru hljóðar.“
Til að byrja með voru tveggja tíma göngurnar á Írskum dögum og svo endurteknar á Vökudögum, en undanfarin tvö ár hafa þær skipulagt viðburð á sjómannadaginn. Yfirleitt hafa þær síðan verið með styttri útgáfu fyrir íbúa á Dvalarheimilinu Höfða. Ekki alls fyrir löngu voru Kellingarnar með sögustund um Báruhúsið á skemmtun Félags eldri borgara á Akranesi og endurfluttu hana á Höfða. Þær hlutu Menningarverðlaun Akraness 2022.
Ekkert er Kellingunum óviðkomandi. Fyrir utan sögur af öflugum konum á Akranesi hafa þær meðal annars fjallað um skáld, fullveldisárið 1918 á Akranesi, íþróttalífið, útgerð og verslun, gengið í fótspor Braga Þórðarsonar og gengið heim að Görðum. „Nú erum við að undirbúa sögugöngu um upphaf skólahalds á Akranesi,“ segir Hallbera um tíundu gönguna.