Varnargarðarnir sem reistir voru nálægt Grindavík eru einstakir á heimsvísu og beindu flæði hraunsins fram hjá húsunum í bænum. Þá tókst einnig að verja mikilvæga orkuinnviði gegn skemmdum.
Varnargarðarnir sem reistir voru nálægt Grindavík eru einstakir á heimsvísu og beindu flæði hraunsins fram hjá húsunum í bænum. Þá tókst einnig að verja mikilvæga orkuinnviði gegn skemmdum. — Ljósmynd/Verkís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verkfræðistofan Verkís verður að vanda með bás á sýningunni Verk og vit en fyrirtækið hefur tekið þátt í viðburðinum frá upphafi. Hulda Sigrún Sigurðardóttir er kynningarstjóri Verkís og segir hún hefð fyrir því að í hvert skipti endurspegli básinn…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Verkfræðistofan Verkís verður að vanda með bás á sýningunni Verk og vit en fyrirtækið hefur tekið þátt í viðburðinum frá upphafi. Hulda Sigrún Sigurðardóttir er kynningarstjóri Verkís og segir hún hefð fyrir því að í hvert skipti endurspegli básinn nýtt þema: „Að þessu sinni ætlum við að leggja áherslu á varnir innviða, og kynnum fyrir gestum verkefni sem við höfum komið að s.s. á sviði snjóflóðavarna og gerð ýmiss konar varnargarða,“ upplýsir Hulda en Verkís hefur m.a. útbúið sérstakt kynningarmyndband fyrir sýninguna og gefur gestum á básnum líka kost á að fræðast um verkefni Verkís í sýndarveruleika.

Varnir innviða hafa verið mikið í sviðsljósinu að undanförnu og þykir t.d. hafa verið unnið þrekvirki við byggingu varnargarða í nágrenni Grindavíkur. Hulda segir varnir innviða snúa að fleiri þáttum og þannig kalli loftslagsbreytingar á aðgerðir til að bregðast við meiri úrkomu. „Þetta eru breytingar sem þeir innviðir sem fyrir hendi eru ráða ekki endilega við og aðstoðum við viðskiptavini okkar við að bregðast við nýjum aðstæðum með sérhæfðri ráðgjöf,“ útskýrir Hulda en breytt mynstur rigningar og snjókomu getur t.d. reynt á getu snjóflóðavarnargarða og fráveitukerfa.

Fjölbreytt verkefni eru á borði Verkís og má finna viðskiptavini félagsins um allan heim. Hulda segir sýningarbásinn í ár einnig fjalla um þróunina sem á sér stað í sjálfbærum orkuskiptum. „Þar leiðir Verkís stórt nýsköpunarverkefni sem snýr að orkuskiptum í sjóflutningum,“ útskýrir Hulda en verkefnið hlaut liðlega 2,5 milljarða króna Evrópustyrk. Verkefnið hefur fengið heitið GAMMA sem stendur fyrir „Green ammonia and biomethanol fuel maritime vessels“ en samtals koma 16 aðilar að verkefninu. Líkt og nafnið gefur til kynna verður skoðað hvernig nýta má ammoníak og metanól, framleitt með grænum aðferðum, til að knýja skip og þannig draga úr olíunotkun skipaflotans. „Þá vinnum við að ýmsum verkefnum á sviði framleiðslu rafeldsneytis og beislunar vindorku, auk þess að við höfum veitt fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf við orkuskipti fyrir vinnuvéla- og bílaflota þeirra.“

Frá Kenía til Indónesíu

Verkís byggir á 90 ára reynslu og hefur á að skipa um 400 manna starfsliði, og á mörgum sviðum eru sérfræðingar félagsins leiðandi á heimsvísu. Þannig hefur Verkís komið að mjög spennandi verkefnum erlendis á sviði virkjunar vatnsafls, jarðhita og annarra grænna orkugjafa í löndum á borð við Indland, Indónesíu, Kenía og Georgíu.

Sérþekking íslenskra verkfræðinga á sviði virkjunar jarðhita er að margra mati eitt mikilvægasta framlag Íslands til umhverfismála en engin önnur þjóð framleiðir jafnhátt hlutfall heildarorkunotkunar sinnar með jarðhita. Þau verkefni sem Verkís kemur að snúa bæði að hönnun hitaveitukerfa og virkjun jarðhita til framleiðslu á rafmagni, og það á svæðum þar sem aukið orkuframboð mun verða mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið og hafa greinileg áhrif á lífskjör og verðmætasköpun heimamanna.

„Í Póllandi höfum við komið að hitaveituverkefni og verkefnum á sviði blágrænna ofanvatnslausna,“ segir Hulda en lesendum til glöggvunar snúast blágrænar ofanvatnslausnir (e. sustainable drainage systems) um að nýta leiðir náttúrunnar við meðhöndlun ofanvatns innan byggðar. Hafa blágrænar ofanvatnslausnir rutt sér til rúms víða um heim og þykja m.a. skipta sköpum við að auka getu byggðar til að bregðast við öfgum í veðurfari og auka viðnámsþrótt gegn aukinni úrkomu sem fylgt getur loftslagsbreytingum.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson