Sýningarrýmið „Verk Hildigunnar snúast í raun um að varpa ljósi á öll þessi ósýnilegu ferli og þær ákvarðanir sem liggja að baki einföldustu hlutum sem oftar en ekki enda í ruslinu,“ segir Dan Byers sýningarstjóri.
Sýningarrýmið „Verk Hildigunnar snúast í raun um að varpa ljósi á öll þessi ósýnilegu ferli og þær ákvarðanir sem liggja að baki einföldustu hlutum sem oftar en ekki enda í ruslinu,“ segir Dan Byers sýningarstjóri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýning Hildigunnar Birgisdóttur á Feneyjatvíæringnum verður formlega opnuð í dag. Sýningin ber heitið Þetta er mjög stór tala og er meginviðfangsefni hennar að vekja okkur til umhugsunar um neyslumenningu með því að draga athygli að litlum hlutum á…

Viðtal

María Margrét Jóhannsdóttir

skrifar frá Feneyjum

mariamargret@mbl.is

Sýning Hildigunnar Birgisdóttur á Feneyjatvíæringnum verður formlega opnuð í dag. Sýningin ber heitið Þetta er mjög stór tala og er meginviðfangsefni hennar að vekja okkur til umhugsunar um neyslumenningu með því að draga athygli að litlum hlutum á borð við vöruumbúðir sem oft enda í ruslinu og þeim kerfum og ferlum sem maðurinn býr til utan um framleiðsluna. Blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af Hildigunni og Dan Byers sýningarstjóra í Feneyjum fyrir opnun sýningarinnar.

Hildigunnur segir það vera stórkostlega upplifun að taka þátt í Feneyjatvíæringnum og að mikil vinna liggi að baki sýningu sem þessari. „Það er búið að ganga á ýmsu. Það til dæmis eyðilagðist eitt verk á leiðinni hingað svo fátt eitt sé nefnt. En þetta er alltaf svoleiðis. Það er hyldýpi af vinnu sem fylgir svona sýningu,“ segir Hildigunnur.

Undrun yfir kapítalísku kerfi

„Um er að ræða verk sem hafa verið að koma til mín. Þau eru alltaf úr þessum heimi, þessari undrun yfir hinu kapítalíska kerfi sem hefur tekið yfir allan heiminn hægt og rólega. Þá er eftirtektarvert að skoða það með Ísland í huga en breytingarnar gerðust þar mjög hratt, nánast á einni nóttu. Sérstaklega ef við berum saman kynslóðirnar. Amma var frá tímum torfbæja en ég lék mér í Gameboy. Ég er því mjög meðvituð um þessa yfirtöku sem kapítalisminn er. Hugmyndafræði mín er sú að vera ég sjálf en þannig held ég að flestir listamenn vinni að mestu leyti. Við erum bara manneskjur hér á þessari jörð í samhengi við náttúruna. Ég vakna á morgnana og er hlessa yfir að þetta sé ástand heimsins. Sérstaklega þetta mennska ástand. Við erum í raun svo hjákátleg í stóra samhenginu en lítum svo á okkur sem drottnara. Þetta finnst mér áhugavert og ég leitast við að deila því sem mér finnst áhugavert í heiminum og það getur tekið á sig alls konar form.“

Afhjúpar sig smátt og smátt

Sýningin lætur lítið yfir sér við fyrstu sýn en þegar betur er að gáð liggur mikil hugsun að baki hverju verki. Eftir því sem sýningargestir verja meiri tíma í rýminu afhjúpast ýmis falin smáatriði og áleitnar spurningar vakna um gildi hins manngerða í samfélaginu í dag. Stærsta verkið, „Infoxication“, er samsett úr tuttugu 26 cm breiðum renningum sem eru 2,5 metrar að lengd. Það þurfti að handlíma þá á og krafðist það mikillar nákvæmnisvinnu í tvo heila daga. Þar koma fram allar upplýsingar um sýninguna og vörumerki allra fyrirtækja sem koma að sýningunni með einhverjum hætti. Þá vísar lögun verksins í grunnskipulag sjálfs sýningarsvæðisins, Arsenale.

„Mig langaði að draga fram allar ósýnilegu hliðarnar á sýningunni. Venjulega er t.d. veggtextinn ekki hluti af sýningum en í þessu tilfelli er hann stærsti hlutinn. Eins með yfirsetuborðið sem er fyrir miðju sýningarrýmisins. Hér verður yfirsetufólk í átta mánuði og ég vildi hafa það með í þessu. Á borðinu eru síðan blautþurrkur sem má taka með sér. Þær eru smá absúrd. Það er of mikið af þeim, þær vella út um allt og minna á ofgnóttina sem við könnumst við úr lífinu.“

Streymt frá auglýsingaskilti

Á einum veggnum er stór gluggi sem Hildigunnur notar sem hluta af sýningunni. Fyrir utan gluggann má sjá verkið „Um það bil 7%“. Um er að ræða skjá sem er tengdur við lifandi streymi frá auglýsingaskilti á Suðurlandsbraut en í Feneyjum fáum við þó bara að sjá sjö prósent af skiltinu. „Ég gerði tilraunir með upplausnina og komst að því að flestar stillimyndirnar voru orðnar að huggulegri abstrakt í sjö prósentum. Einstaka sinnum kemur upp risastórt auga eða annað sem maður gæti kannski borið kennsl á en annars næ ég að dansa á þessari óhlutbundnu línu. Fæst okkar líta á auglýsingar sem eitthvað fallegt. Þær geta vissulega gripið mann en með þessum hætti næ ég að fanga ákveðna fegurð,“ segir Hildigunnur, en hún bindur vonir við að glugginn verði nokkurs konar áningarstaður og fái fólk til þess að staldra við og njóta.

Braut gat í vegginn

Við hlið gluggans er verk sem kallast skemmtilega á við hann. Það heitir „19:1 (Window Piece)“ og er stækkað bakspjald af andlitsmálningu. Fyrir aftan verkið er búið að brjóta stórt gat í vegginn og þar leynist því annar gluggi. „Gatið er gert viljandi. Það er gróft og að mestu falið á bak við verkið. Það er alltaf gaman að koma fólki á óvart og með þessu er maður aðeins að kippa fótunum undan því. Fólk verður hugsandi yfir hvort þetta eigi að vera svona. Ég vil leyfa fólki að fatta sjálft að þetta sé hluti af sýningunni. Eins þegar sólin skín, þá koma geislar á bak við þetta verk.“

Stækkuð plastleikföng eru einnig áberandi á sýningunni. Titlar verkanna gefa til kynna að þau hafi verið stækkuð upp í ákveðnum hlutföllum auk þess sem þeir vísa í litakerfið. Til dæmis heitir leikfangapitsan „6:1 (orange)“. „Mér finnst áhugavert að matur sé búinn til í plastformi í tonnavís til þess eins að leika sér með. Þetta er smættaðasta mynd pitsunnar og hún er með fullkomnar sneiðar sem hún er auðvitað ekki í raunveruleikanum. Með þessari stækkun verða leikföngin næstum skúlptúrísk,“ segir Hildigunnur.

Hildigunnur einn áhugaverðasti listamaðurinn

Dan Byers sýningarstjóri íslenska skálans á tvíæringnum segir Hildigunni vera einn áhugaverðasta listamanninn um þessar mundir og hafa náð að fanga eitthvað alveg einstakt. „Hennar verk líkjast á engan hátt verkum annarra. Þó að það sé ekki endilega markmið í sjálfu sér að vera fullkomlega frumlegur þá kemur þetta í hennar tilfelli frá tilfinningu og næmi sem hún á algerlega sjálf. Við höfum unnið vel saman og ég hef lært mikið af henni, eins og til dæmis þegar kemur að því að veita hlutum athygli og hvernig má setja þá fram til þess að breyta viðhorfum fólks,“ segir hann.

Byers er bandarískur en þekkir Ísland og íslenska listamenn vel og hefur til dæmis unnið með Ragnari Kjartanssyni. Byers segist afar ánægður með sýninguna sem er á margan hátt óvenjuleg. „Sýning Hildigunnar er mjög frábrugðin öllu öðru sem við sjáum hér á tvíæringnum. Það er ákveðin hógværð í sýningunni en það eru svo margir hér sem ætla sér að gera eitthvað stórt. Þetta er sýning sem gefur manni meira eftir því sem maður dvelur lengur við hana. Sjálfur hef ég verið að fylgjast með fólki og viðbrögðum þess. Fyrst gengur það bara í gegn en svo snýr það við og skoðar sýninguna betur. Þá fer það að taka eftir smáatriðunum, eins og til dæmis glugganum. Meira að segja veggirnir eru orðnir að listaverkum, það hvernig þeir halda á verkunum. Málningin á veggjunum er til dæmis hrímuð gulhvít málning sem notuð er á heimilum og stofnunum því hún þykir ekki skítsæl. Hún er svo venjuleg að hún verður í þessu samhengi óvenjuleg. Verk Hildigunnar snúast í raun um að varpa ljósi á öll þessi ósýnilegu ferli og þær ákvarðanir sem liggja að baki einföldustu hlutum sem oftar en ekki enda í ruslinu,“ segir Byers.

7. konan fyrir Íslands hönd

Ísland hefur tekið þátt í Feneyjatvíæringnum með hléum frá árinu 1960. Hildigunnur er sjöunda konan til þess að fara fyrir Íslands hönd en fyrst var það Steina Vasulka árið 1997. Til samanburðar hefur 21 karl tekið þátt og einn tvisvar en það var Sigurður Guðmundsson árin 1976 og 1978. „Ég veit að þetta hefur breyst talsvert undir það síðasta t.d. af því að við erum orðnar fleiri virkar í þessum bransa og því vel við hæfi að þetta taki snörum breytingum. Síðan ég hef verið virkur áhorfandi á tvíæringnum hefur kynjahlutfallið verið í ágætu jafnvægi og það er bara sjálfsagt að konur, og vonandi í framtíðinni kvár, fari fyrir hönd Íslands,“ segir Hildigunnur að lokum.

Höf.: María Margrét Jóhannsdóttir