Íslandsmeistari Berglind Rós Ágústsdóttir ætlar sér að verja Íslandsmeistaratitilinn með uppeldisfélaginu Val á komandi tímabili.
Íslandsmeistari Berglind Rós Ágústsdóttir ætlar sér að verja Íslandsmeistaratitilinn með uppeldisfélaginu Val á komandi tímabili. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Berglind Rós Ágústsdóttir ber fyrirliðaband knattspyrnuliðs Vals í fjarveru Elísu Viðarsdóttur sem er í barneignarfríi. Berglind skrifaði undir hjá uppeldisfélagi sínu á miðju síðasta tímabili er hún sneri heim eftir atvinnumennsku með Örebro í Svíþjóð og Huelva á Spáni

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Berglind Rós Ágústsdóttir ber fyrirliðaband knattspyrnuliðs Vals í fjarveru Elísu Viðarsdóttur sem er í barneignarfríi. Berglind skrifaði undir hjá uppeldisfélagi sínu á miðju síðasta tímabili er hún sneri heim eftir atvinnumennsku með Örebro í Svíþjóð og Huelva á Spáni.

Eins og fjallað er um á síðunni hér til hliðar er Val spáð toppsæti Bestu deildarinnar á komandi leiktíð af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum deildarinnar.

„Þetta er frábær spá. Það er geggjað að vera spáð fyrsta sæti, en við verðum að gera okkar og markmið okkar er að vinna. Við þurfum að sýna það að við eigum skilið að vera í fyrsta sæti. Við vitum af þessari spá, en við megum ekki spá of mikið í hana. Við tökum einn leik í einu og verðum á okkar vegferð,“ sagði Berglind við Morgunblaðið.

Valur tapaði fyrir Víkingi í Meistarakeppni KSÍ á þriðjudagskvöld í vítakeppni eftir 1:1-jafntefli á Hlíðarenda. Berglind viðurkennir að það hafi verið högg að tapa leiknum, en nú fer öll einbeitingin á Bestu deildina.

„Það var högg. Það var bikar undir og þetta var meistari meistaranna. Þetta var fyrsti alvöruleikurinn á tímabilinu og við töpuðum í vítaspyrnukeppni. Þetta var mjög leiðinlegt en okkar einbeiting fer á deildina. Markmið okkar þar er að vinna og við hugsum um það,“ sagði hún.

Valsliðið átti ekki góðan fyrri hálfleik gegn Víkingi og var undir í hálfleik, 0:1. Valur jafnaði snemma í seinni hálfleik en tókst ekki að skora annað mark, þrátt fyrir fjölmörg góð færi.

„Við vorum ekki góðar í fyrri hálfleik og vorum ólíkar sjálfum okkur. Í seinni hálfleik sýndum við hvað við getum, spiluðum vel og bjuggum til færi. Það gekk bara illa að koma helvítis tuðrunni inn,“ sagði Berglind og hló. „Við sköpuðum fullt af færum en þetta var ekki dagurinn okkar,“ bætti hún við.

Vilt hafa Amöndu í þínu liði

Amanda Andradóttir skoraði mark Vals í leiknum með stórkostlegri aukaspyrnu. Margir eiga von á að Amanda verði besti leikmaður Bestu deildarinnar á komandi tímabili og Berglind hrósaði landsliðskonunni í hástert.

„Hún er eitthvað annað. Hún kemur á óvart í hverjum einasta leik. Það er alltaf hægt að senda á hana, því hún veit alltaf hvað á að gera við boltann. Hún er með góðar sendingar, getur skorað úr aukaspyrnum og skorað úr opnum leik. Þetta er leikmaður sem þú vilt hafa í liðinu þínu. Þú getur alltaf treyst á að hún standi sig vel. Ég vona innilega að hún standi sig vel í sumar og ég hef ekki trú á öðru.“

Fjórtán farnir og ein meidd

Valsliðið er mikið breytt á milli ára og sterkir leikmenn horfnir á braut. Ásdís Karen Halldórsdóttir, Þórdís Elva Ágústsdóttir, Bryndís Arna Níelsdóttir og Málfríður Anna Eiríksdóttir, sem voru lykilmenn hjá Val, sömdu allar við erlend lið í vetur. Bryndís Arna varð til að mynda markadrottning deildarinnar á síðustu leiktíð.

Sterkir leikmenn eins og Katie Cousins, Jasmín Erla Ingadóttir, Helena Ósk Hálfdánardóttir, Nadía Atladóttir og Hailey Whitaker eru komnir inn í staðinn og því mikil leikmannavelta hjá Valsliðinu.

„Við erum búnar að missa fjórtán leikmenn en það hafa komið flottir leikmenn inn í staðinn. Ég er ánægð með alla leikmenn sem við höfum fengið inn. Við náum mjög vel saman og ég held að þetta eigi eftir að vera skemmtilegt. Þetta eru öðruvísi leikmenn að koma inn í hópinn, en ég held að liðið sé ekki síðra en það var í fyrra,“ sagði hún.

Mikil breyting er á varnarlínu Vals frá því á síðustu leiktíð. Arna Sif Ásgrímsdóttir sleit krossband á dögunum og verður ekkert með, áðurnefnd Hailey Whitaker er komin til félagsins og Lillý Rut Hlynsdóttir er komin aftur í Val eftir eitt tímabil að láni hjá FH. Þá hefur Anna Rakel Pétursdóttir jafnað sig á meiðslum sem voru að hrjá hana stóran hluta síðasta tímabils.

„Þær eru búnar að standa sig vel á undirbúningstímabilinu og eiga bara eftir að verða betri. Það er mikill missir að Örnu Sif en það kemur maður í manns stað og þær eru búnar að standa sig vel. Ég trúi ekki öðru en að þetta fari vel,“ sagði hún.

Verður skemmtilegt sumar

Berglind á von á að Breiðablik, sem er spáð öðru sæti, verði í titilbaráttu með Val og þá sagði hún nokkur lið geta komið á óvart. Þór/KA var spáð þriðja sæti og þá á hún von á að Þróttur endi ofar en spáin segir til um, sem er sjötta sæti. Nik Chamberlain hætti þjálfun Þróttar til að taka við Breiðabliki og Ólafur Kristjánsson tók við sem þjálfari Þróttar í staðinn.

„Þróttarar hafa litið vel út og ég held þær eigi eftir að vera ofarlega, ofar en spáin segir. Annars er spáin svipuð og ég bjóst við. Þór/KA og jafnvel Víkingur geta komið á óvart og verið ofar. Nik er búinn að gera vel hjá Þrótti og nú er hann kominn til Blika, sem er spennandi fyrir þá og Þróttur með nýjan þjálfara. Ég held að þetta eigi eftir að vera mjög skemmtilegt sumar,“ sagði Berglind Rós.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson