[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ítalski miðillinn Tuttosport skýrði frá því í gær að ítalska stórveldið Juventus væri að undirbúa tilboð í íslenska knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson, sóknarmann Genoa. Juventus er reiðubúið að láta argentínska miðjumanninn Enzo Barrenechea fara …

Ítalski miðillinn Tuttosport skýrði frá því í gær að ítalska stórveldið Juventus væri að undirbúa tilboð í íslenska knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson, sóknarmann Genoa. Juventus er reiðubúið að láta argentínska miðjumanninn Enzo Barrenechea fara í hina áttina sem hluta af tilboðinu.

LeBron James og félagar í Los Angeles Lakers eru komnir í úrslitakeppni NBA-körfuboltans í Bandaríkjunum eftir 110:106-útisigur á New Orleans Pelicans í umspili í fyrrinótt. LeBron var stigahæstur hjá Lakers með 23 stig, tók níu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Lakers mætir ríkjandi meisturum Denver Nuggets í 1. umferð úrslitakeppninnar. Sacramento Kings tryggði sér leik við New Orleans um síðasta sætið í úrslitakeppninni með 118:94-heimasigri á Golden State Warriors, sem er komið í sumarfrí.

ÍBV hefur fengið tvo leikmenn lánaða frá liðum úr Bestu deildinni fyrir baráttuna í 1. deild karla í fótbolta en Eyjamenn féllu úr Bestu deildinni síðasta haust. Miðjumaðurinn Bjarki Björn Gunnarsson, sem er 23 ára gamall, snýr aftur til ÍBV frá Víkingi. Hann var einnig í láni hjá Eyjamönnum í fyrra og skoraði þá eitt mark í tíu leikjum liðsins í Bestu deildinni. Varnarmaðurinn Eiður Atli Rúnarsson kemur til ÍBV frá HK. Eiður er 22 ára og lék 17 leiki með HK í Bestu deildinni í fyrra.

Bosníski handknattleiksmarkvörðurinn Petar Jokanovic hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við ÍBV. Jokanovic gekk til liðs við ÍBV sumarið 2019 og er því á sínu fimmta tímabili í Vestmannaeyjum. Á síðasta ári varð hann Íslandsmeistari með ÍBV auk þess að verða bikarmeistari á sínu fyrsta tímabili í mars árið 2020.

Romário, fyrrverandi heimsmeistari í knattspyrnu með Brasilíu, hefur ákveðið að taka skóna af hillunni, 58 ára að aldri, til þess að spila með syni sínum Romarinho. Romário er búinn að fá leikheimild til þess að spila með America Football Club, sem leikur í B-deild svæðiskeppni Ríó de Janeiro. Er hann forseti félagsins.

Handknattleikskonan Svala Júlía Gunnarsdóttir hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við uppeldisfélag sitt Fram. Svala Júlía er 24 ára og leikur í stöðu línumanns. Hefur hún leikið með liði Fram frá unglingsaldri og einnig þjálfað hjá yngri flokkum félagsins.

Ítarlegar læknisrannsóknir á knattspyrnumanninum Evan Ndicka, varnarmanni Roma, hafa leitt í ljós að annað lunga hans féll saman í leik gegn Udinese í ítölsku A-deildinni um síðustu helgi. Er búið að útskrifa Ndicka af sjúkrahúsi.