Orkuveitan Sævar Freyr Þráinsson tók við starfi forstjóra í fyrra og réðst í kjölfarið í stefnumótunarvinnu.
Orkuveitan Sævar Freyr Þráinsson tók við starfi forstjóra í fyrra og réðst í kjölfarið í stefnumótunarvinnu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Ísland hefur gífurlega möguleika á því að laða til sín framúrskarandi og alþjóðleg fyrirtæki sem geta tekið þátt í því að efla íslenskt samfélag og efnahagslíf með fjölbreyttari orkuframleiðslu en við höfum áður staðið að.“ Þetta segir…

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

„Ísland hefur gífurlega möguleika á því að laða til sín framúrskarandi og alþjóðleg fyrirtæki sem geta tekið þátt í því að efla íslenskt samfélag og efnahagslíf með fjölbreyttari orkuframleiðslu en við höfum áður staðið að.“

Þetta segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir að rekstur Orkuveitunnar gangi vel um þessar mundir og að efnahagsreikningur félagsins sé sterkur.

„Í öllum rekstri eru þó tækifæri til að gera betur. Stjórn félagsins vildi, í kjölfar þess að ég var ráðinn sem forstjóri í byrjun síðasta árs, stefna á nýjar áherslur og nýja stefnu til framtíðar, skoða hvar hægt væri að sækja fram. Það var því ráðist í stefnumótunarvinnu og við erum nú að kynna afrakstur þeirrar vinnu,“ segir hann.

Kynna nýja framtíðarsýn

Hann segir að mikil áhersla hafi verið lögð á það að móta framtíðarsýn fyrir félagið og niðurstaðan sé setningin „Við erum aflvaki sjálfbærrar framtíðar.“ Orkuveitan stendur í dag fyrir viðburði í Hörpu þar sem þessi nýja framtíðarsýn verður kynnt.

„Aflvaki er kröftugt orð og felur það í sér að örva fólk til dáða og vinna að árangri fyrir aðra,“ segir Sævar Freyr.

„Hvað sjálfbærnihlutann varðar, þá snýst það ekki bara um það hvernig við förum með náttúruauðlindir heldur líka hvernig við þjónustum viðskiptavini og eigendur. Það má taka dæmi af rekstri sveitarfélaga, en til að þau geti verið sjálfbær þurfa þau atvinnustarfsemi og til að byggja upp atvinnu þarf orku. Við höfum sett okkur skýr markmið um það hvernig við ætlum að ná árangri með aukinni orkuöflun, þá sérstaklega grænni orkuöflun.“

Sævar Freyr segir að hægt sé að auka framleiðslu á grænni orku en samhliða þurfi að efla rannsóknir og nýsköpunarstarf og horfa til ýmiss konar samstarfsverkefna.

„Við þurfum að komast út úr því að tala um raforkuskort, horfa til lengri tíma og fara að tala um tækifærin sem eru fyrir framan okkur,“ segir Sævar Freyr, spurður nánar um þetta.

„Við þurfum að fara í þá vegferð að búa til meiri orku. Það gerum við með ýmsum hætti, en þá getum við hætt að tala um orkuskort og nýtt aukna orku í orkuskipti og til atvinnuuppbyggingar. Við erum líka að horfa til tækifæra sem við köllum straumhvörfin, og það snýr að því sem ég nefndi hér í upphafi með samstarfi við alþjóðleg fyrirtæki. Við erum í samtölum við fyrirtæki sem eru að taka framleiðsluaðferðir, sem eru í dag mengandi, og umbreyta þeim þannig að framleiðsluaðferðirnar verði hreinar. Metnaður okkar og þessa fyrirtækja er svo aðgangur að hreinni orku sem er liður í því að öll starfsemin verði græn. Þess vegna þurfum við að vinna að uppbyggingu á aukinni jarðvarmanýtingu, huga að djúpborunarverkefnum, rannsaka vindorku en við erum einnig að skoða samstarf við aðra um rannsóknir á birtuorku og ölduorku. Þar erum við að stíga inn á svið sem við höfum ekki verið á áður og viljum því afla okkur þekkingar með því að vera í samstarfi við aðra sem þegar búa yfir þeirri þekkingu.“

Þurfum að virkja meira

Má ekki heyra á þessum orðum þínum að það þarf einfaldlega að virkja meira?

„Jú, það þarf að gera það,“ svarar Sævar Freyr að bragði.

„Við ætlum að auka umtalsvert sjálfbæra og fjölbreytta orkuframleiðslu í markvissum skrefum. Í því felst aukning í varmaorku og raforku. Við ætlum jafnframt að ráðast í rannsóknarverkefni á nýjum aðferðum eins og ég var að nefna. Aukin orkuframleiðsla kemur ekki bara til með nýjum virkjunum. Við getum sótt meiri varma í háhitaholur í Hellisheiðarvirkjun, svo dæmi sé tekið. Við erum einnig að vinna í rannsóknarverkefni þar sem við sjáum fyrir okkur að blanda saman orku úr lághita- og háhitasvæðum sem mun, ef allt gengur eftir, gefa okkur 30% aukningu í jarðvarma. Við erum að vinna í djúpborunar-rannsóknum þar sem markmiðið er að búa til 40 MW aukalega úr hverri holu. Ef þessi verkefni og fleiri til ganga eftir felur það í sér mikla framför, ekki bara fyrir Orkuveituna heldur fyrir samfélagið í heild sinni enda styður þetta við heimili og fyrirtæki í landinu.“

Nýjar áherslur með nýju fólki

Það verður ekki hjá því komist að benda á að ummæli þín um aukna orkuöflun stangast á við ummæli forvera þíns í starfi sem hélt því fram að það þyrfti ekki aukna orkuframleiðslu í landinu. Hefur þá orðið breyting þarna á?

„Við skulum orða það þannig að samhliða því sem ég kom hér inn urðu einnig breytingar á stjórn félagsins að hluta til. Það var ráðist í þessa stefnumótunarvinnu sem við höfum hér fjallað um og þetta er niðurstaða hennar. Nýju fólki fylgja áherslubreytingar og nú horfum við fram á veginn,“ segir Sævar Freyr. Hann bætir þó við að sækja þurfi fram með ábyrgum hætti, hvort sem horft sé til virkjunarkosta, fjármögnunar verkefna, umhverfisins eða annarra þátta.

Hér má einnig nefna að nú standa yfir breytingar á höfuðstöðvum Orkuveitunnar, en engin starfsemi hefur verið í hluta hússins frá 2017 vegna myglu. Sævar Freyr segir að þær breytingar verði nýttar til hagræðingar og horft verði til þess að leigja hluta þess út.

„Við sjáum m.a. fyrir okkur að leigja til fyrirtækja sem eru að vinna að nýsköpun í orkumálum. Við vitum af og getum fengið í hús frumkvöðlafyrirtæki sem eru að vinna að þessum málum, það eru jafnvel fyrirtæki sem við sjáum fyrir okkur að vinna með í framtíðinni. Við þurfum ekki að gera allt sjálf, heldur getum við vel unnið með öðrum – enda er það líklegra til árangurs,“ segir hann.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson