<strong>Jarðborun </strong>Borinn Sleipnir að störfum við fyrstu tilraunaborholuna á Rockville-svæðinu. Búist er við að þar finnist 70 til 80 gráðu heitt saltvatn.
Jarðborun Borinn Sleipnir að störfum við fyrstu tilraunaborholuna á Rockville-svæðinu. Búist er við að þar finnist 70 til 80 gráðu heitt saltvatn. — Ljósmynd/ÍSOR/Auður Agla Óladóttir
Vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi hefur verið ákveðið að hefja tilraunaboranir eftir heitu vatni á Suðurnesjum. Hefur Kateco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, veitt heimild til að bora á nærsvæðum flugvallarins í Keflavík

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi hefur verið ákveðið að hefja tilraunaboranir eftir heitu vatni á Suðurnesjum. Hefur Kateco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, veitt heimild til að bora á nærsvæðum flugvallarins í Keflavík.

Pálmi Freyr Randversson framkvæmdastjóri Kadeco segir að félagið hafi veitt heimild til rannsóknarborana á svæðinu eftir að jarðeldarnir hófust á Reykjanesi, til þess að auka orkuöryggi á Suðurnesjum og skapa mikilvæga varaleið til þess að koma heitu vatni inn á veitusvæðið. Markmiðið er að hefja nýtingu á svæðinu og tryggja heitt vatn fyrir byggðina.

HS Orka stýrir verkefninu en ÍSOR hannar og staðsetur holurnar. Verkís hannar búnað til nýtingar á vatninu og Efla starfar fyrir hönd almannavarna við samræmingu.

Reynir Sævarsson, byggingaverkfræðingur hjá Eflu, segir ýmsar hindranir hafa verið í upphafi verksins en að nú sé búið að bora 800 metra djúpa holu. Eftir að ákveðnu dýpi er náð gengur borunin betur og eru afköstin um 100 metrar á sólarhring. Ráðgert er að bora á þremur svæðum. Á tveimur stöðum á Njarðvíkurheiði og svo nær Höfnum á Rockville-svæðinu.

„Þetta svæði var rannsakað í kringum 1960 en því svo hætt eftir að heita vatnið fannst í Svartsengi,“ segir Reynir. Um er að ræða lághitasvæði þar sem gert er ráð fyrir 70 til 80 gráðu heitu vatni. Vatnið er salt og því verður að hita upp ferskvatn eins og gert er í Svartsengi.

Gert er ráð fyrir því að hver hola geti orðið 1.200 metra djúp og kostnaður við hverja holu verði 200 til 300 milljónir, auk kostnaðar vegna búnaðar sem þarf til að nýta vatnið.

Höf.: Óskar Bergsson