Eimreiðin Minør er komin á sinn stað á Miðbakka Gömlu hafnarinnar í Reykjavík. Venjan er sú að starfsmenn Faxaflóahafna sæki eimreiðina í geymslu nálægt sumardeginum fyrsta og komi henni fyrir á sínum stað

Eimreiðin Minør er komin á sinn stað á Miðbakka Gömlu hafnarinnar í Reykjavík.

Venjan er sú að starfsmenn Faxaflóahafna sæki eimreiðina í geymslu nálægt sumardeginum fyrsta og komi henni fyrir á sínum stað. Nú er eimreiðin mætt þar á fyrra fallinu enda var vetrarlegt þegar meðfylgjandi mynd var tekin í fyrradag. Hún verður á Miðbakka til sumarloka, börnum og fullorðnum til gleði og ánægju.

Liðin eru 107 ár síðan eimreiðarnar Minør og Pioner luku verki sínu við gerð Gömlu hafnarinnar, sem var geysimikil framkvæmd á sínum tíma. Eimreiðarnar voru keyptar hingað til lands vegna hafnargerðarinnar.

Járnbraut var lögð frá Öskjuhlíð að Reykjavíkurhöfn og síðar einnig frá Skólavörðuholtinu. Þar var tekið grjót sem sett var á vagna sem eimreiðarnar drógu niður að höfn.

Eimreiðin Minør er í vörslu Faxaflóahafna en eimreiðin Pioner er varðveitt á Árbæjarsafni. sisi@mbl.is