Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Nesfréttir, eitt þriggja hverfablaða á vegum Borgarblaða, hafa ekki komið út síðan í desember. Kristján Jóhannsson, útgefandi og stjórnarformaður Borgarblaða, féll frá í október á síðasta ári, 81 árs að aldri.
Borgarblöð hafa einnig gefið út Vesturbæjarblaðið og Breiðholtsblaðið en ekkert blaðanna þriggja kom út í janúar og febrúar. Þórður Ingimarsson, ritstjóri Vesturbæjarblaðsins og Breiðholtsblaðsins, segir í samtali við Morgunblaðið að marsblöð Vesturbæjarblaðsins og Breiðholtsblaðsins hafi komið út og að von sé á aprílútgáfunni í vikunni. „Þau heita reyndar Hverfisblaðið Vesturbær og Hverfisblaðið Breiðholt í dag,“ segir Þórður.
Þá segir Þórður að engin hreyfing hafi verið á vef Borgarblaða, borgarblod.is, síðan í janúar og algjör óvissa ríki um afdrif hans. Enn er mikil óvissa um útgáfu Nesfrétta. „Ég sé ekki endilega að útgáfa þeirra fari af stað en svo getur það vel verið undir einhverjum merkjum.“
Segir Þórður að Nesfréttir hafi verið gefnar út í samstarfi við Má Guðlaugsson, sem meðal annars gefur út hverfisblaðið Miðborg og Hlíðar, en að ræða þurfi um framhaldið meðal annars við bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi.
Þór Sigfússon bæjarstjóri Seltjarnarness segir Seltirninga sakna Nesfrétta. „Það gefur vissan bæjarbrag að hafa svona blað. Nú er ekkert Fréttablað og Morgunblaðið kannski meira orðið á netinu, þannig að nú er kannski ekki almennur vettvangur til að dreifa til dæmis efni frá bæjarfélaginu. Seltjarnarnesbær var ágætis viðskiptavinur Nesfrétta,“ segir Þór.
Hann segir alla bæjarbúa hafa lesið Nesfréttir og að oft hafi verið áhugaverð viðtöl við bæjarbúa í blaðinu eða greinar um eitthvað sem tengist Nesinu með einhverjum hætti eða um einhverja að gera skemmtilega hluti, það vilji allir lesa svoleiðis. Þá fer Þór fögrum orðum um Kristján Jóhannsson heitinn, sem hann segir hafa byrjað að prenta blaðið heima hjá sér.
„Hann var mjög duglegur blaðamaður og frumkvöðull, ég heyrði í honum tveimur dögum áður en hann féll frá og hann var enn að hugsa um blaðið,“ segir Þór.
Þór segist vona að Nesfréttir komist aftur á legg í hvaða formi sem það verður. „Svo er mögulega hægt að útfæra það með öðrum hætti, kannski með vefútgáfu eða einhverju slíku. Það vantar svolítið þegar það vantar Nesfréttir.“
Þórður, sem ritstýrir í dag hverfablöðum Vesturbæjar og Breiðholts, segist hafa fundið fyrir miklum þrýstingi á að halda útgáfu blaðanna áfram og hafi að lokum ákveðið að láta slag standa.