Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Aðeins rúmlega tíu þúsund tonnum af ufsa var landað á tímabilinu 1. janúar til 1. apríl og er það 703 tonnum minna en á sama tímabili í fyrra og heilum 4.536 tonnum minna en á sama tímabili árið 2022. Vangaveltur eru uppi meðal skipstjóra um hvort heimildir í ufsa séu langt umfram það sem forsvaranlegt er.
Aðeins hefur tekist að landa um 30% af þeim 68.546 tonnum sem veiðiheimildir eru fyrir í ufsa á þessu fiskveiðiári, 2023/2024, sem hófst 1. september síðastliðinn. Á síðasta fiskveiðiári var veiðihlutfallið aðeins 51,2% sem er töluvert minna en fiskveiðiárið 2021/2022 þegar það var 65,7%. Fiskveiðiárið 2020/2021 veiddist upp í 59,8% af úthlutuðum veiðiheimildum.
Ef litið er til fiskveiðiáranna 2020/2021 til 2022/2023 hefur fiskiskipaflotinn fengið úthlutaðar heimildir fyrir 229.762 tonnum af ufsa og aðeins tekist að veiða 135.660 tonn eða um 59%. Því hafa heimildir upp á 94.102 tonn verið ónýttar. Ef bætt er við því sem ekki hefur tekist að nýta það sem af er þessu fiskveiðiári eru 141.855 tonna heimildir ónýttar.
Fyrr í mánuðinum sagði Arnar Ævarsson, skipstjóri á Vigra RE, í samtali við 200 mílur á mbl.is að ekki hefði fundist ufsi alla vertíðina þennan veturinn. „Það er miklu minna til af honum en þeir leyfa að veiða, það er bara svoleiðis,“ sagði hann. Fleiri skipstjórar sem rætt hefur verið við taka undir þessi sjónarmið.
Í síðustu ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir ufsa segir að staða stofnsins sé góð. „Veiðiálag stofnsins er yfir aflareglu stjórnvalda og kjörsókn en fyrir neðan gátmörk og varúðarmörk. Stærð hrygningarstofns er yfir aðgerðarmörkum, gátmörkum og varúðarmörkum.“
Að ekki hafi tekist að veiða upp í ufsakvótann hafi hins vegar í för með sér önnur vandamál. „Landaður afli hefur verið talsvert undir aflamarki síðan árið 2013. Hluti þessara ónýttu aflaheimilda hefur verið nýttur í tegundatilfærslu. Þetta getur leitt til þess að afli í öðrum tegundum sé umfram ráðgjöf og útgefið aflamark,“ segir í ráðgjafarskjali Hafrannsóknastofnunar.