Sigríður Ólafsdóttir fæddist 4. nóvember 1924. Hún lést 28. mars 2024.

Útför fór fram 12. apríl 2024.

Dagur að kveldi kominn hjá Sigg'-ömmu sem mér hlotnaðist sá heiður að kynnast og umgangast í rúmlega 15 ár. Fyrir mér var hún margra kynslóða kona, gekk beint til verks í eldhúsinu og saumaskapnum, setti slatta af sykri á pönnukökurnar á sinn einstaka hátt, en á hinn bóginn setti hún sig inn í tæknivæðingu nútímans á þann veg sem er sjaldséður hjá eldra fólki. Afmæliskveðjur komu í gegnum FB og fréttalestur fór fram í gegnum fartölvuna.

Í upphafi okkar kynna fannst henni ómögulegt að ég skyldi ekki drekka kaffi og gerði sitt allra besta til að breyta þeirri skoðun minni. Það var svo seint á æviskeiði Sigríðar að við fjölskyldan komum í kaffi í Ártún og réttir hún mér tóman bolla. Þá hélt ég að ellin væri að færast yfir hana, en þá sagði hún sposk á svipinn: „Maður getur nú alltaf vonað!“

Alltaf voru lokaorðin þau sömu þegar við lögðum af stað úr Ártúnum: Komið svo fljótt aftur í Norðurlandið.

Óskar
Arnórsson.

Í dag göngum við síðasta spölinn með Siggu ömmu sem hefur kvatt þessa jarðvist eftir tæplega 100 ár.

Amma var glæsileg kona. Hún bar höfuðið hátt og hafði gaman af því að hafa sig til. Hún fylgdist alla tíð vel með nýjustu tísku og í ferðum hennar suður í höfuðborgina var hún dugleg að heimsækja búðir sem seldu efni og snið svo hún gæti saumað fatnað sem fylgdi nýjustu straumum. Það lék allt í höndunum á henni, hún saumaði, prjónaði, málaði myndir og leirmuni og óf mottur og dregla, enda liggja mörg listaverkin eftir hana. Á efri árum var hún óhrædd við að tileinka sér nýja hluti og fara á ýmiss konar námskeið og henni fannst til dæmis mjög eðlilegt að læra á tölvu og koma sér inn á samfélagsmiðlana þegar þeir litu dagsins ljós, jafnvel þótt hún væri þá komin töluvert á áttræðisaldur. Amma spurði mig reglulega hvaða handavinnu ég væri með og oftar en ekki var nú fátt um svör. Þá skildi ég ekki þennan mikla áhuga og áherslu á handavinnu en veit í dag að það er fátt sem hefur betri áhrif á andlega heilsu og innri ró en einmitt handavinnan. Á síðustu mánuðunum í lífi afa saumaði hún Riddarateppið sem er gríðarlega stórt og mikið verk og er ég viss um að það hefur verið hennar stærsta sáluhjálp í gegnum erfiða tíma og að miklar tilfinningar liggja í hverju spori.

Amma og afi eignuðust sjö börn og eru afkomendurnir orðnir 64 talsins. Amma tók jafnframt til sín einstaklinga sem þurftu einhverra hluta vegna að komast úr þeim aðstæðum sem þeir bjuggu við. Sumir stoppuðu stutt en aðrir óskuðu þess að fara helst aldrei svo dvöl þeirra hjá ömmu taldist ekki í vikum eða mánuðum heldur árum. Enda var gott að vera í ömmu- og afahúsi, amma tók á móti barnabörnunum sínum með hlýju. Garðurinn hennar var eins og ævintýraland með fallegum blómum, styttum og trjágróðri og hindberjum sem stundum mátti tína upp í litla munna í gróðurhúsinu. Þá sinnti hún skógræktinni sinni einnig af natni og er litla skógræktin nú orðin að heilum skógi í hlíðinni ofan við Ártúnabæinn.

Allt sem þú veitir athygli vex og dafnar segir einhvers staðar og ævistarf ömmu staðfestir það. Hún var okkur hinum góð fyrirmynd hvað þetta varðar og áminning um að halda sífellt áfram að læra og prófa nýja hluti. Það gerði amma nánast fram á síðasta dag og ég er viss um að það hefur átt stóran þátt í langlífi hennar.

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina elsku amma.

Þín

Sunna.

Við kveðjum ömmu okkar í Ártúnum. Dugnaðarfork sem var alltaf að. Saumaði á okkur spariföt og prjónaði margar peysur á okkur, sem eru margar enn í notkun hjá okkur og börnum okkar. Minnisstæðar eru okkur systkinum Þorláksmessurnar í Ártúnum. Þar kom fjölskyldan saman, sem hélt jól á Norðurlandinu. Skrifstofuherbergið var sneisafullt af pökkum og hangikjöt á borðum.

Seinna meir þegar við stoppuðum í Ártúnum á ferðum okkar milli landshluta var alltaf boðið upp á sterkt kaffi og spjall. Það var alltaf gott að spjalla við ömmu.

Hún bjó svo í Reykjavík í tvö ár, leigði þar íbúð og þá var nú lítið mál að vera módel fyrir Signýju þar sem hún var að klára kjólasaum í Tækniskólanum.

Hún átti ýmis gullkorn sem við notum í dag, þar á meðal: Sparaðu brandarana. Þá fannst ömmu eitthvað ekki fyndið sem var verið að segja.

Takk fyrir allt.

Unnur, Signý og
Finnur.