30 ára Brynja er Reykvíkingur, ólst upp að mestu leyti í Fossvoginum en býr nú í Vesturbænum. Hún er með BS-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfar sem viðmótshönnuður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Kodo eftir að hafa lært viðmótshönnun í París

30 ára Brynja er Reykvíkingur, ólst upp að mestu leyti í Fossvoginum en býr nú í Vesturbænum. Hún er með BS-gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfar sem viðmótshönnuður hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Kodo eftir að hafa lært viðmótshönnun í París. „Ég er að hanna vefsíður, tölvuleiki og öpp sem er hrikalega skemmtilegt. Það má því segja að ég sé að skreyta í vinnunni alveg eins og þegar ég er að skreyta kökur nema í vinnunni þarf ég ekki að ganga frá og vaska upp.“

Þar er Brynja að vísa í eitt af áhugamálum sínum sem er kökuskreytingar en hún heldur úti Instragram-síðu um þær. „Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að baka og svo vatt þetta upp á sig. Eftir að ég fór að setja þetta á Instragram fór fólk að spyrja mig um kökur og biðja mig að skreyta kökur fyrir alls konar tilefni.“

Áhugamál Brynju eru annars jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Hún nýtur þess að lesa góða bók, ferðast, stunda crossfit, spila golf, fara á skíði eða út að hlaupa í góðum félagsskap. „Ég hef áhuga á flestöllum íþróttum, bæði að stunda þær og horfa á þær en á sama tíma finnst mér líka gott að eyða tíma með mínum nánustu eða dúlla mér við að skreyta kökur.“

Fjölskylda Foreldrar Brynju: Hjónin Bjarni Eiríksson, f. 1961, d. 2017, blaðaljósmyndari og síðar lögmaður í Reykjavík, og Lára Valgerður Albertsdóttir, f. 1964, vinnur hjá hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail. Hún er búsett í Reykjavík. Brynja á engin systkini en hún á stóran vinahóp sem hún er virkilega þakklát fyrir. „Ég á engin systkini en það hefur aldrei háð mér þar sem ég hef alla tíð verið mjög heppin með vini.“