Tilnefnd Skáldin voru að vonum ánægð með tilnefningarnar í Gunnarshúsi við Dyngjuveg í gær.
Tilnefnd Skáldin voru að vonum ánægð með tilnefningarnar í Gunnarshúsi við Dyngjuveg í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Tilnefningar til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Rithöfundasambands Íslands, voru kunngjörðar í Gunnarshúsi í gær, en verðlaunin verða veitt í Þjóðarbókhlöðunni í 8

Tilnefningar til Maístjörnunnar, ljóðabókaverðlauna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Rithöfundasambands Íslands, voru kunngjörðar í Gunnarshúsi í gær, en verðlaunin verða veitt í Þjóðarbókhlöðunni í 8. sinn 15. maí. Tilnefndar bækur eru (í stafrófsröð höfunda): Áður en ég breytist eftir Elías Knörr sem Mál og menning gefur út; Dulstirni/Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson sem Dimma gefur út; Vandamál vina minna eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem Bjartur gefur út; Flagsól eftir Melkorku Ólafsdóttur og Unu Hlíf Bárudóttur sem Mál og menning gefur út; Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur sem JPV gefur út og Í myrkrinu fór ég til Maríu eftir Sonju B. Jónsdóttur sem Veröld gefur út.

Tilnefndar bækur eru allar til sýnis í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar frá og með deginum í dag. Gjaldgengar voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2023, alls 83, sem skilað var til Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og fékk dómnefnd þær til umfjöllunar. Dómnefnd skipa Guðrún Eva Mínervudóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Jakub Stachowiak fyrir hönd Landsbókasafnsins. Maístjarnan er einu verðlaun á Íslandi sem veitt eru eingöngu fyrir útgefna íslenska ljóðabók. Verðlaununum er ætlað að vekja sérstaka athygli á blómlegri ljóðabókaútgáfu á Íslandi.

Í umsögn dómnefndar um Áður en ég breytist segir m.a.: „Höfundur leikur sér með tungumálið á óvæntan og áreynslulausan máta.“ Um Dulstirni/Meðan glerið sefur segir: „Myndmálið er skýrt, tært og heillandi líkt og stöðuvatn á björtum sumardegi og í þessum tærleika býr margt sem er satt, fagurt og mikilvægt.“ Um Vandamál vina minna segir: „Ljóðin eru hughreystandi án þess að loka augunum fyrir grimmd og sorg hversdagslífsins.“ Um Flagsól segir: „Verkið í heild sinni er sérlega vandað og ekki sjálfgefið að fá slíkan grip í hendur.“ Um Til hamingju með að vera mannleg segir: „Hjarta og sál lesandans vaxa um nokkur númer gegnum hráa reynslu sem höfundur miðlar á beittan, sláandi, persónulegan og fágaðan máta.“ Um Í myrkrinu fór ég til Maríu segir: „Berskjöldunin, æðruleysið og tilfinningaleg nektin í ljóðunum vefur minningunni heiðursklæði.“ Umsagnirnar í heild má lesa á vefnum mbl.is.