Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
Fjárfestingar í vegasamgöngum verða í forgrunni á ráðstefnu Samtaka iðnaðarins sem haldin er í dag, fimmtudag, samhliða sýningunni Verk og vit.
Ingólfur Bender aðalhagfræðingur SI segir vegaframkvæmdir mynda allstóran hluta af starfsemi íslensks byggingariðnaðar en greinileg þörf sé á að ráðast í auknar framkvæmdir á komandi árum og brýnt að tryggja betri samfellu í verkefnum á vegum hins opinbera. Á sama tíma þurfi áætlanir stjórnvalda um uppbyggingu á innviðum fyrir aðra samgöngumáta að ganga hraðar fyrir sig, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
„Byggingariðnaðurinn í heild sinni velti um 600 milljörðum króna í fyrra, skapar í kringum 18.000 störf og lagði um 305 milljarða króna af mörkum til landsframleiðslunnar á síðasta ári. Nánari skipting leiðir í ljós að sá hluti greinarinnar sem snýr að íbúðarhúsnæði veltir um 196 milljörðum, mannvirki atvinnuvega 247 milljörðum og loks að opinberir innviðir mynda 119 milljarða af veltunni en þar inni í eru t.d. framkvæmdir við sjúkrahús og mannvirki hins opinbera og aðeins um 23 milljarðar sem renna til vegaframkvæmda og brúarsmíði í þjóðvegakerfinu.“
Ingólfur bendir á að eldri úttektir sýni að 23 milljarðar sé of lág upphæð ef takast á halda þjóðvegakerfinu í horfinu og ráðast í nauðsynlegar nýframkvæmdir. „Er nú svo komið að viðhaldsskortur er farinn að rýra gæði og virði vegakerfisins svo að á stöðum þar sem áður var bundið slitlag eru nú aftur komnir malarvegir,“ segir hann.
Dýrmætir innviðir vanræktir
Árið 2021 gáfu SI og Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV) út ítarlega skýrslu um ástand allra innviða á Íslandi og voru niðurstöðurnar mjög áhugaverðar: „Þar mátum við verðmæti vegakerfisins, þ.e. hve mikið það myndi kosta að leggja alla vegi og byggja allar brýr landsins upp á nýtt og kom í ljós að vegasamgöngukerfið allt myndi kosta 980 milljarða m.v. verðlag ársins 2021. Gerir þetta vegakerfið að einni verðmætustu eign hins opinbera og er upphæðin til marks um það hve stórhuga fyrri kynslóðir hafa verið í að byggja upp góðar vegasamgöngur,“ segir Ingólfur.
Þá sýnir alþjóðlegur samanburður að vegakerfi Íslands er stórt miðað við íbúafjölda enda er landið strjálbýlt. „Á Íslandi eru um 70 km af vegum fyrir hverja þúsund íbúa og er það með því allra mesta sem finna má í heiminum. Til samanburðar eru lönd eins og Spánn, Danmörk, Grikkland og Ítalía með um það bil 10-15 km af vegum á hverja þúsund íbúa.“
Fyrir vikið má reikna með að útgjöld vegna vegasamgangna verði hlutfallslega hærri á Íslandi en víða annars staðar og segir Ingólfur því brýnt að láta ekki viðhald vegakerfisins sitja á hakanum svo að viðhalda megi bæði gæðum og virði þessara dýrmætu innviða. „Undanfarin tíu ár hefur orðið 67% aukning í umferð um þjóðvegakerfið og er svo ör vöxtur fáheyrður,“ segir Ingólfur en aukna umferð má einkum skrifa á mikla fjölgun ferðamanna auk mikillar íbúafjölgunar í landinu. „Á sama tíma hefur umfang vegakerfisins aukist um rétt rúmlega 15% og má sjá afleiðingarnar bæði í meiri töfum í umferðinni og auknu sliti á þeim samgönguinnviðum sem við eigum.“
Viðhaldsskuldin ber vexti
Ingólfur minnir á að það geti verið dýrt að láta nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni sitja á hakanum: tafir í umferðinni valdi þjóðfélaginu ýmsum kostnaði og lélegir vegir valdi hreinlega skemmdum á ökutækjum og jafnvel slysum. Þá má reikna með að ef viðhaldi er ekki sinnt sem skyldi leiði það til þess að ráðast þurfi í enn kostnaðarsamari viðgerðir seinna meir og er viðhaldsskuldin því alls ekki vaxtalaus. „Það er með vegi og brýr eins og með húsið og bílinn að ef við trössum viðhaldið þá verða vandamálin erfiðari viðureignar seinna meir,“ segir Ingólfur.
„Sérfræðingar innan raða FRV voru fengnir til að meta ástand vegakerfisins í innviðaskýrslu SI og FRV árið 2021 og kom þar m.a. fram að ekki nema 30% vegakerfisins er með bundnu slitlagi og mátu sérfræðingarnir það þá að viðhaldsskuldin væri á bilinu 160 til 180 milljarðar króna í það heila. Vegakerfinu gáfum þeir einkunnina 2 af 5 sem merkti að ástandið væri slæmt, miðað við þau viðhaldsverkefni og framkvæmdir sem þá voru fram undan mátu þeir að einkunn vegakerfisins myndi ekki fara batnandi í bráð. Miðað við það sem ráð er fyrir gert að fari í viðhald vegakerfisins í samgönguáætlun mun innviðaskuld vegakerfisins halda áfram að vaxa og gatið stækka um liðlega fimm milljarða króna á ári næstu árin. Áætlar Vegagerðin að lágmarksviðhaldsþörf kerfisins kosti 18 milljarða króna í ár en áætlanir stjórnvalda gera aðeins ráð fyrir 13 milljarða króna útgjöldum.“
Áætlunum ekki verið fylgt
Leit út fyrir að fram undan væri tímabil framkvæmda þegar stjórnvöld gáfu út metnaðarfulla samgönguáætlun árið 2020 en Ingólfur segir ekki hafa verið staðið við áætlunina. „Þar var að finna margt jákvætt og skyndilega blésu ferskir vindar um málaflokkinn s.s. með samgöngusáttmálanum og fyrirætlunum um að ráðast í stærri framkvæmdir á þessu sviði í samvinnu við einkaaðila – svokölluð samvinnuverkefni – líkt og gert var við smíði og rekstur Hvalfjarðarganganna á sínum tíma. Að framfylgja sáttmálanum hefur ekki gengið sem skyldi og ekkert hefur orðið úr þeim samvinnuverkefnum sem ætlunin var að ráðast í þ.e. ekki í því formi sem ráð var fyrir gert.“
Ingólfur bendir á að ekki sé nóg með að það valdi notendum vegakerfisins vonbrigðum að framkvæmdir hafi ekki verið í takt við samgöngusáttmálann heldur er verktakafyrirtækjum landsins gerður töluverður óleikur með því að standa ekki við stórhuga áætlanir. „Það er mikilvægt fyrir greinina að hafa sem bestan fyrirsjáanleika í verkefnum. Fjárfesta þarf í vinnuvélum og tryggja að nægur mannskapur sé til að sinna verkefnunum og best ef hægt er að skipuleggja starfið með viðunandi vissu litið til framtíðar. Nú er staðan sú að þau félög sem annast framkvæmdirnar hafa litla tiltrú á áætlunum stjórnvalda.“
Hvenær er rétti tíminn til að framkvæma?
Spurður hvort ekki megi réttlæta vanefndirnar s.s. með háu vaxtastigi, uppsöfnuðum kostnaði vegna kórónuveirufaraldursins og ótta við að valda þensluáhrifum segir Ingólfur að ekki gangi að bíða með framkvæmdir og viðhald þar sem ljóst er að innviðaskuldin haldi þannig áfram að vaxa með mjög miklum kostnaði fyrir landsmenn. Mörg þeirra verkefna sem beðið er eftir séu mjög þjóðhagslega hagkvæm og hvert ár sem bíða þarf eftir þessum framkvæmdum fari þjóðarbúið því á mis við ávinninginn:
„Þegar fjármagnið er af skornum skammti verður að ráðast fyrst af öllu í þær framkvæmdir sem munu hafa í för með sér mesta þjóðhagslega arðsemi og þegar fjármunir finnast ekki hjá ríki og sveitarfélögum í þessi verk þarf að leita annarra leiða,“ segir Ingólfur og minnir á að í lögum um samvinnuverkefni sem samþykkt voru 2020 hafi verið skilgreind sex stór verkefni sem saman myndu kosta 130 milljarða króna og þannig fullnýta allt það fjármagn sem hefur verið eyrnamerkt nýframkvæmdum í þjóðvegakerfinu næsta áratuginn eða svo. „Sem dæmi um hagkvæma framkvæmd sem er meðal þessara sex verkefna og hefur setið á hakanum er lagning Sundabrautar sem núna hefur verið þrætt um í 39 ár. Hefur þjóðhagsleg arðsemi þeirrar framkvæmdar verið metin mjög mikil eða á bilinu 186 til 236 milljarða króna, og samt er eins og aldrei hafi fundist rétti tíminn til að gera Sundabraut að veruleika.“
Betri samgöngur skapa tækifæri
Það getur verið flókið verkefni að reikna út ávinninginn af góðu vegakerfi enda geta bættar samgöngur haft margþætt og keðjuverkandi áhrif innan hagkerfisins. Þannig hafa hagfræðingar t.d. freistað þess að verðleggja þau lífsgæði sem fólk fer á mis við vegna umferðarteppa, og hvernig þung umferð dregur úr skilvirkni vöruflutninga. Ingólfur bendir á að góðar vegasamgöngur geti líka skapað ný tækifæri og virkað eins og vítamínsprauta á heilu samfélögin:
„Eitt af betri dæmum síðustu áratuga er áhrif Hvalfjarðarganganna sem höfðu ekki aðeins þau áhrif að stytta ferðina milli Reykjavíkur og Akraness um 60 km heldur sneru göngin við byggðaþróun á Akranesi. Þar hafði verið fólksfækkun en með því að stytta vegalengdina til höfuðborgarsvæðisins jókst aðdráttarafl svæðisins og íbúunum tók að fjölga á ný. “
Ingólfur minnir á að mjög skiptar skoðanir hafi verið um hvort leggja ætti göng undir Hvalfjörð og í könnun sem Gallup gerði árið 1996 reyndust 63% svarenda andvíg framkvæmdinni og aðeins 30% fylgjandi. Ekki nóg með það heldur hafi verkefnið mætt mikilli fyrirstöðu í stjórnkerfinu og það þrátt fyrir að allir útreikningar bentu til verulegs þjóðhagslegs ávinnings. Viðhorf almennings breyttist svo á augabragði eftir að göngin voru tekin í notkun og sýna kannanir mikinn stuðning við tvöföldun Hvalfjarðarganganna. „Áhugavert er að bera viðhorf til Hvalfjarðarganga fyrir 30 árum saman við viðhorf til Sundabrautar í dag en kannanir sýna að almenningur er mun jákvæðari í garð Sundabrautar og 66% landsmanna fylgjandi framkvæmdinni en aðeins 6% andvíg.“