Yfirskrift tónleika sem Gísli Helgason og félagar hans, Föruneyti GH eins og það er kallað, halda nú er Eyjapistlarnir ógleymanlegu – Gísli Helgason og Eyjalögin. Tónleikarnir verða á Sviðinu á Selfossi á morgun, föstudaginn 19. apríl, kl. 20 og Salnum í Kópavogi á laugardagskvöld, 20. apríl, á sama tíma. Síðari tónleikarnir eru helgaðir Grindvíkingum sem er sérstakalega boðið að mæta, án endurgjalds.
Þessi tónleikadagskrá var á Goslokahátíð í Eyjum í fyrra og lukkaðist vel. Nú er haldið áfram og sjónum beint að Grindavík, en fólk sem þar hefur búið mætir nú svipuðum aðstæðum og voru í Eyjum fyrir rúmlega hálfri öld.
Gísli Helgason er þekktur sem tónlistarmaður, einnig fyrir útvarpsþættina Eyjapistil sem hann annaðist með Arnþóri bróður sínum. Þeir þættir voru á dagskrá Ríkisútvarpsins frá febrúar 1973 fram í mars árið eftir og höfðu mikilvægt hlutverk við að miðla upplýsingum til Eyjafólks sem var á hrakhólum.
Á tónleikunum sem nú standa fyrir dyrum verða flutt lög eftir Gísla og fleiri Eyjamenn. Í föruneyti GH eru Herdís Hallvarðsdóttir, eiginkona Gísla, Þórarinn Ólason söngvari, Magnús R. Einarsson og Hafsteinn G. Guðfinnsson sem leika á gítara, Grímur Þór Gíslason sér um slagverk og einnig eru í flokknum Sigurmundur G. Einarsson, sem leikur á gítar, og Unnur Ólafsdóttir söngkona. sbs@mbl.is