„Það eru umtalsvert meiri peningar sem veita á í verkefnið en gert var ráð fyrir áður, en við sjáum þó ekki heildarmyndina fyrr en uppfærslu samgöngusáttmálans er lokið,“ segir Árni M. Mathiesen, formaður stjórnar Betri samgangna, í…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það eru umtalsvert meiri peningar sem veita á í verkefnið en gert var ráð fyrir áður, en við sjáum þó ekki heildarmyndina fyrr en uppfærslu samgöngusáttmálans er lokið,“ segir Árni M. Mathiesen, formaður stjórnar Betri samgangna, í samtali við Morgunblaðið, en í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem kynnt var á þriðjudag, kemur m.a. fram að verja á a.m.k. 40 milljörðum króna meira fé til samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins en áður hafði verið gert ráð fyrir.

Í fjármálaáætluninni kemur m.a. fram að í tengslum við viðræður, sem enn standa yfir um viðauka við samgöngusáttmálann, sé gert ráð fyrir að framlag til Betri samgangna aukist um fjóra milljarða á ári frá og með árinu 2025 eða um 20 milljarða alls á tímabili fjármálaáætlunarinnar sem tekur til áranna 2024 til 2029. Til viðbótar beinum framlögum til Betri samgangna er gert ráð fyrir 20 milljarða lánveitingu úr ríkissjóði til samgöngusáttmálans á tíma áætlunarinnar.

Uppfærsla dregist á langinn

Þetta þýðir að 40 milljörðum til viðbótar verður varið til verkefna sáttmálans, en óljóst er hvenær tekjur fara að skila sér vegna væntanlegrar sölu byggingalóða í Keldnalandi og þá hafa engar ákvarðarnir verið teknar um fyrirhugaða gjaldtöku á vegum.

Nú eru liðnir tíu mánuðir frá því að boðaðri uppfærslu samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins átti að vera lokið, en í fyrravor var rætt um að endurskoðun sáttmálans lyki í júní sl. Ekki gekk það eftir og var þá rætt um að henni lyki í nóvember og loks desember. Síðast þegar spurst var fyrir um stöðu verkefnisins var rætt um verklok um miðjan mars, en ekkert bólar á niðurstöðunni enn. Þetta þótti Vilhjálmi Árnasyni, 2. varaformanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, bagalegt þegar rætt var við hann í lok desember sl. þar sem unnið væri að samgönguáætlun í umhverfis- og samgöngunefnd og slæmt þegar jafn stórt verkefni og samgöngusáttmálann vantaði inn í þá mynd.

Enn var spurst fyrir um stöðu uppfærslunnar í gær, en fátt var um svör.

Árleg framlög til samgöngu- og fjarskiptamála munu nema 62,8 milljörðum á næsta ári, 62 milljörðum árið 2026, 63 milljörðum 2027, 62,3 milljörðum árið 2028 og 62 milljörðum 2029. Framlag þessa árs nemur 56,7 milljörðum. Alls eru þetta 369,8 milljarðar á sex ára tímabili. Ekki er að finna aðgreiningu á milli fjárveitinga til þessara málaflokka, en ætla má að samgönguhlutinn sé langstærstur.

Framlög til málaflokksins hækka um alls 19,3 ma.kr. að raunvirði frá því sem gert var ráð fyrir í síðustu fjármálaáætlun sem tók til áranna 2024 til 2028 og munu heildarútgjöld til samgöngu- og fjarskiptamála nema 312,1 milljarði á tímabili þessarar áætlunar, þ.e. 2025 til 2029. Þar af er fjárfestingarframlag til vegaframkvæmda aukið um þrjá milljarða á árinu 2025 og fer stigvaxandi á tíma fjármálaáætlunar. Nemur aukningin sex milljörðum á árinu 2029 og er ætlað að verja því í nýframkvæmdir og viðhald á vegakerfinu. Auk þess er framlag til vetrarþjónustu aukið varanlega um 300 milljónir á ári út tímabil áætlunarinnar, en ýmis tímabundin framlög falla niður.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson