Stjórnarandstaða reið ekki feitum hesti

Sjálfsagt vantar eitthvað upp á að þjóðþingið okkar hafi nægjan­lega mörg alvöruverkefni til að fást við og því verði að láta leiktjöldin einstaka sinnum draga upp aðra mynd. Tillaga um vantraust á ríkisstjórn, sem setið hafði í örfáa daga, og er með myndarlegan meirihluta á bak við sig og hefur ekki haft nokkurn tíma til að gera eitthvað af sér og ekkert bendir í þá átt að það ætli ríkisstjórnin að gera á næstunni.

Lagasetningin, sem þinginu er ætlað að stimpla ólesna og kemur, eins og annað, í sífellt stærri stíl, með bögglapósti frá Brussel, og er sú fjarri því að vera geðsleg sending nema örsjaldan, og að minnsta kosti væri í yfirgnæfandi fjölda tilvika mun betra að vera laus við hana en afgreiða hana með hraði og láta eins og þingið hafi eitthvað um málið að segja, sem það hefur ekki, og að það séu aðalmerkin um að þingið hafi eitthvað til að fást við. Tillagan um vantraust á ríkisstjórnina nú er nefnilega glöggt merki um vöntun á raunverulegum verk­efnum. Það hefði verið nær raunveru­leikanum hefðu Flokkur fólksins og Píratar flutt tillögu um vantraust á vinnubrögðin í Brussel, sem þeir þar myndu þó ekkert gera með.

Ríkisstjórnin er satt að segja bærilega sett. Hún er studd af þremur flokkum og enginn flótti er í meirihlutafylginu og fátt bendir enn til þess að öllum á ríkisstjórnarbænum sé ekki fúlasta alvara í fyrirheitinu um að sitja til annars hausts. Ekki var hins vegar samstaða í stjórnarandstöðunni um flutning á vantrauststillögu á þessu stigi, sem gerði hana enn vandræðalegri en ella, enda þá minni en engin vonarglæta fyrir því að sú tillaga yrði samþykkt. Það gekk reyndar algjörlega snurðulaust að setja saman nýja ríkisstjórn, þótt allmikil stólaskipti fylgdu óvæntum forsætisráðherraskiptum. Engin andstaða var opinberlega, hátt eða í hljóði, við það að formaður stærsta flokksins í ríkisstjórninni sæti við borðsendann. Ef litið er yfir söguna í næstum 100 ár er sú skipan frekar regla en undantekning að þannig sé hin hefðbundna skipting.