Guðni Agnarsson fæddist í Keflavík 2. febrúar 1947. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sæborg á Skagaströnd 8. apríl 2024.

Móðir Guðna var Guðríður Hansdóttir, f. 29.12. 1929, d. 11.4. 2005, en faðir hans var bandarískur. Guðni fer sem kornabarn í fóstur í Ásgarð á Garðskaga til Agnesar Sigurðardóttur, f. 30.6. 1918, d. 15.10. 2003, og búa þau þar til ársins 1959 er Agnes gerist ráðskona hjá Torfa Sigurðssyni, 4.2. 1917, d. 9.10. 1993, bónda á Mánaskál í Laxárdal í A-Húnavatnssýslu. Giftast þau um haustið og gengur Torfi Guðna í föður stað.

Agnesi og Torfa varð ekki barna auðið en Guðni átti fimm systkin sammæðra og var hann elstur, fæddur 1947. Næstur var Halldór Guðsteinn Bergsteinsson, f. 1948, d. 2010, Sigríður Kristín Jónsdóttir, f. 1949, Sigurður Magnús Jónsson, f. 1956, Kristófer Pétursson, f. 1959, og Einar Lárus Pétursson, f. 1963, d. 2015.

Með fyrri eiginkonu sinni Sólveigu Dortheu Jensen eignaðist Guðni tvö börn. 1) Agnar Torfi, f. 16.1. 1966, er kvæntur Snæborgu Þorsteinsdóttur, f. 1965. Eiga þau saman dótturina Guðrúnu Ósk, f. 1997, en fyrir átti Agnar Torfi synina Ívar Ásgeir, f. 1989, og Jörund, f. 1991, með fyrri eiginkonu sinni Ásu Maríu Ásgeirsdóttur. Fyrir átti Snæborg synina Ragnar Tryggvason, f. 1986, og Kristófer Má Tryggvason, f. 1989. Ívar Ásgeir á með eiginkonu sinni Árdísi Flóru Leifsdóttur, f. 1990, dæturnar Írenu Margréti, f. 2013, og Sunnevu Guðrúnu, f. 2022. Ragnar á með unnustu sinni Þorbjörgu Sif, f. 1989, dæturnar Amelíu Ósk, f. 2019, og Malenu Rún, f. 2023. Kristófer er í sambúð með Sigríði Mörtu, f. 1992, og á með henni soninn Óliver Agnar, f. 2021. 2) Annika Morit, f. 23.12. 1966, er gift Erni Hilmissyni, f. 1965, og eiga þau Þorstein Inga, f. 1989, og Sólveigu Öldu, f. 1996. Þorsteinn Ingi er giftur Snæfríði Jóhönnudóttur, f. 1992, og eiga þau soninn Hilmi Marel, f. 2019, og dótturina Jöklu Magneu, f. 2023.

Árið 1977 hóf Guðni sambúð með Ágústu Björgu Hálfdánardóttur, f. 17.8. 1957, og gengu þau í hjónaband 2. febrúar 2007. Fyrir átti Ágústa dótturina Þórhildi Rún Guðmundsdóttur, f. 9.7. 1975, og er hún gift Kristni Helgasyni, f. 1975. Saman eiga þau þrjú börn, Ágúst Unnar, f. 2001, Söndru Diljá, f. 2004, og Bjarka Rúnar, f. 2010. Yngsta barn Guðna og Ágústu er Kolbrún Ágústa, f. 7.4. 1981, og á hún þrjár dætur með sambýlismanni sínum Atla Þór Gunnarssyni, f. 1982. Dætur þeirra eru Þórdís Katla, f. 2009, Íris Björg, f. 2013, og Hrafntinna Rún, f. 2015.

Guðni og Ágústa bjuggu lengst af í Reykjavík en fluttu árið 2017 á Blönduós. Guðni var atvinnubílstjóri stærstan hluta starfsævi sinnar.

Útför Guðna fer fram frá Höskuldsstaðakirkju í dag, 19. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Kolbrún Ágústa
Guðnadóttir.

Þýtur í laufi, bálið brennur.

blærinn hvíslar sofðu rótt.

Hljóður í hafið röðull rennur,

roðnar og býður góða nótt.

Vaka þá ennþá vinir saman

varðeldi hjá í fögrum dal.

Lífið er söngur, glaumur, gaman.

Gleðin hún býr í fjallasal.

(Tryggvi Þorsteinsson)

Þórdís Katla Atladóttir, Íris Björg Atladóttir, Hrafntinna Rún Atladóttir.

Elsku afi Guðni okkar.

Takk fyrir allt. Öll skemmtilegu ævintýrin sem þú fylgdir okkur í, hvort sem það var sveitin í Mánaskál, þar sem þú fórst með okkur í fjórhjólaferðir, eða húsbílaferðirnar á sumrin sem við eigum endalaust af góðum minningum úr. Einnig er það þér að þakka að við getum sagt að við höfum veitt fisk en okkar fyrsta veiðiferð var með þér á litlum árabáti og var það ekki lítið gaman. Ferðirnar með þér og ömmu voru alltaf jafn skemmtilegar og eftirminnilegar en einnig öll kvöldin okkar saman í Sæviðarsundinu með Sömbu þinni þér við hlið í afastólnum.

Leiddu mína litlu hendi

ljúfi Jesús þér ég sendi

bæn frá mínu brjósti sjáðu

blíði Jesús að mér gáðu.

(Ásmundur Eiríksson)

Sandra Diljá og
Ágúst Unnar.

hinsta kveðja

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin, sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Þórhildur.

Góða nótt elsku afi Guðni.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Amen.

Bjarki Rúnar.