Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Bangsasúpa er yfirskrift vortónleika Karlakórsins Esju í Háteigskirkju klukkan 16.00 á morgun, laugardag. „Eins og kórstjórinn okkar segir erum við hefðbundinn karlakór með tvisti,“ segir Guðfinnur Einarsson, formaður kórsins frá upphafi, um efnisskrána, en Þórður Árnason gítarleikari verður sérstakur gestur.
Guðfinnur, Ísleifur Birgisson og Kári Allansson voru helstu hvatamenn að stofnun kórsins í janúar 2013. „Við Ísi ræddum um stofnun kórs eitt kvöld, daginn eftir hringdi ég í hann og sagði hugmyndina góða og í kjölfarið kölluðum við Kára á viðskiptafund og seldum honum hugmyndina,“ rifjar Guðfinnur upp. Kára hafi reyndar ekkert litist á uppátækið en fallist á að láta reyna á það fram á vor. „Við héldum okkar fyrstu tónleika við Esjurætur um vorið og Kári hefur verið stjórnandi frá byrjun.“
Nafn kórsins lá í loftinu. Guðfinnur bendir á að karlakórar kenni sig gjarnan við fjöll og þeim hafi þótt ótrúlegt að Esjan væri enn laus. „Frá fyrsta degi vorum því eins og rótgróinn 40 ára gamall karlakór.“ Á fyrstu tónleikunum hafi 17 manns verið í kórnum, flestir á aldrinum 30 til 35 ára, en nú séu yfir 50 kórfélagar. „Menn hafa ekki hætt og nýir bæst í hópinn.“
Slá á létta strengi
Karlakórinn Esja keppti um titilinn Kór Íslands á Stöð 2 2017 og komst í úrslitaþáttinn. Síðastliðið haust sendi hann frá sér fyrstu plötuna, sem er aðgengileg á Spotify, og var með á Jólagestum Björgvins í troðfullri Laugardalshöll í desember. „Þá vorum við heldur betur upp með okkur,“ segir Guðfinnur
Kórinn hefur farið í nokkrar söng- og skemmtiferðir til útlanda. „Við fórum til Parísar eitt árið, til Sankti Péturborgar í Rússlandi á friðartímum, til Brighton, og í fyrra var það tíu ára afmælisferð til Ítalíu,“ telur Guðfinnur upp og bætir við að farið verði til Skotlands í haust.
Fyrsta ferð kórsins var til Vestmannaeyja. „Við gistum í Álsey,“ segir Guðfinnur með lotningu. Þeir hafi líka farið í tónleikaför á Vestfirði og meðal annars haldið tónleikana Mörflot í Musterinu í sundlauginni í Bolungarvík 2019. „Við göngum lengra en Stuðmenn, erum reiðubúnir til að koma naktir fram.“ Þeir láti ekkert gott fram hjá sér fara. „Við heimsóttum Karlakór Hreppamanna á Flúðum í vetur og þeir buðu okkur upp á hrossakjöt auk þess sem við sungum með Karlakór Kjalnesinga á kótilettukvöldi.“ Þeir hafi kynnt plötuna í fyrrnefndu ferðinni og þá troðið sér saman í heitan pott í kynningarskyni fyrir fréttamann Stöðvar 2. Þaðan sé nafn komandi tónleika komið.
„Við erum nautnamenn og reynum að slá á létta strengi,“ heldur Guðfinnur áfram. Þeir leggi upp úr því að vera ávallt snyrtilega klæddir og slaufa úr fiskiroði eftir Fríðu Rúnarsdóttur á Ísafirði hafi ávallt verið hluti kórbúningsins. „Við erum alltaf með roðslaufu að vestan enda margir með vestfirska tengingu í kórnum. Við erum annars vegar kór fullur af lögfræðingum og hins vegar af Vestfirðingum.“