Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Hannes Steindórsson, löggiltur fasteignasali á Lind, segir aðeins eina leið færa út úr húsnæðiskreppu Grindvíkinga, þar sem fjöldi fasteignakaupakeðja er nú við það að bresta um sinn veikasta hlekk, rafræna þinglýsingu sem ekki gangi upp nema engin lán séu áhvílandi.
Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Þórkötlu, ræddi við mbl.is og tók til varna fyrir félagið, við 18 ólíka lánardrottna væri að fást og málið því allt annað en það sem landinn horfi upp á í hefðbundnum fasteignakaupum. Auk þess þyrfti að gæta að lagabókstafnum.
Ekki verið að taka áhættu
Hannes viðurkennir í samtali við Morgunblaðið að málið sé flókið en telur þó einu lausnina algjörlega borðleggjandi: „Fólkið vantar pening núna, það er að missa eignirnar núna, keðjurnar eru að slitna núna. Ríkið á Landsbankann. Af hverju getur Landsbankinn ekki brúað bilið í kannski fimm vikur svo fólk sé ekki heimilislaust? Það er ekki eins og verið sé að taka einhverja áhættu, þessir peningar koma,“ segir Hannes.
Hann bendir á að eftir þrjár vikur missi 200 Grindvíkingar eignir sínar til viðbótar við þá sem þegar hafa misst þær. „Við getum ekki boðið upp á það eftir allan þann harmleik sem fólk hefur gengið í gegnum. […] Ef allir væru komnir með heimili og það væru engin vandamál þá skipti engu þótt peningarnir kæmu eftir einn eða tvo mánuði. En þetta er ekki þannig,“ segir Hannes Steindórsson í blaðinu í dag.